Grunnskóli
Föstudaginn 01. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Vegna frammíkalla við ræðu mína hér áðan frá hv. 4. þm. Norðurl. v. um að gerð hafi verið grein fyrir kostnaðarauka við þetta frv. í nefnd og í framsögu vil ég vekja athygli á því að hv. þm. Árni Gunnarsson hefur staðfest hér í sinni ræðu að frá þessum kostnaði hafi ekki verið greint og að hann liggi í rauninni alls ekki fyrir, einungis sá þáttur sem lýtur að ríkinu, sem er eftir því mati sem gert hefur verið tiltölulega lítilvægur, 205 -- 213 millj. kr. En annar kostnaður geti verið allt að 8 milljarðar kr. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir nefndi 7,3 milljarða og ég tek undir það með hv. þm. Árna Gunnarssyni, hæstv. forseta þessarar deildar, að það er auðvitað nauðsynlegt að fram komi skýr svör við því hver þessi kostnaður er. Það er líka skylt samkvæmt lögum.
    Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði að það væri regla í franska þinginu að hverju sinni sem ráðherra eða einstakir þingmenn flyttu frv. sem kostuðu aukin útgjöld ríkisins væri um leið krafist þess að fram væri lagt frv. á móti til þess að afla tekna. Þetta er gott og gilt þar, en í íslenskum lögum er það skylda að hæstv. ráðherrar geri grein fyrir því þegar frv. er lagt fram hvaða kostnað það hefur í för með sér. En sá hæstv. ráðherra sem flytur þetta frv. og ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar vanrækja að fara að þessari lagaskyldu. ( Menntmrh.: Fyrir ríkið, hv. þm.) Það þarf einnig að gera grein fyrir því þegar verið er að leggja stórkostleg útgjöld á sveitarfélögin hvað það kostar. ( Menntmrh.: Það er ekki verið að leggja útgjöld á sveitarfélögin. Þau ráða því sjálf hvað þau bæta miklu við. Það er frelsi sveitarfélaganna.) Ef það er þannig, hæstv. ráðherra, og ég geri nú ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geti fengið orðið hér á eftir en þurfi ekki að flytja ræður úti í sal, ef hæstv. ráðherra kemur hér á eftir getur hann auðvitað sagt það sem honum sýnist. Hins vegar er með þessu frv. verið að leggja fjárhagslegar kvaðir á sveitarfélögin sem hér hefur verið metið, eða sagt frá af tveimur hv. nefndarmönnum í menntmn. þessarar deildar að séu 7 -- 8 milljarðar kr. Og svo grípur hæstv. menntmrh. fram í utan úr sal og segir að þetta kosti sveitarfélögin ekki neitt, það sé bara á þeirra valdi hvort þau gera þetta eða ekki. Það er þá lítill tilgangur með þessu frv. ef það á ekki að koma því í framkvæmd. Ef hæstv. ráðherra hugsar sem svo að þetta eigi bara að vera kosningaplagg, það eigi að leggja þetta fram og koma fram þeim ágætu markmiðum sem í þessu frv. er rétt fyrir kosningar án þess að séð verði fyrir því á nokkurn hátt að það komi peningar til þess að það geti komist til framkvæmda.
    Þetta er alveg nákvæmlega það sama --- hæstv. forseti, ef hægt væri að þagga niður í þessum hæstv. ráðherra sem situr þarna úti í sal --- þetta er alveg nákvæmlega það sama eins og hæstv. forseti þessarar deildar sagði hér í sinni ræðu og ég skrifaði eftir honum. Það á að gera allt fyrir alla rétt fyrir kosningar, fyrir peninga sem ekki eru til. Og láta skeika að sköpuðu hvort þessara peninga verður aflað eða ekki, eða

það kemur á herðar annarra að sjá um að afla peninganna. Þetta eru ær og kýr þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Svo kemur þessi hæstv. ráðherra væntanlega hér í ræðustólinn á eftir og segir að þetta kosti ekki neitt. Það sé bara á valdi annarra hvort það kosti eitthvað eða þá hversu mikið.
    Mitt aðalerindi var hér að vekja á því athygli að hv. þm. Árni Gunnarsson, hæstv. forseti þessarar deildar, hefur staðfest það sem var verið að reyna að bera til baka hér utan úr sal áðan, að það verk liggur eftir að afla upplýsinga um það hvaða kostnað þetta frv. hefur í för með sér ef samþykkt verður, hvaða kostnaður leggst á herðar sveitarfélaganna við það að koma þessu fram. Og ég ítreka að það er ekki frambærilegt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eða af hálfu hæstv. Alþingis að afgreiða slíkt stórmál sem hefur í för með sér jafnmikil útgjöld fyrir sveitarfélögin og raun ber vitni í trássi við vilja sveitarfélaganna sem ekki hafa treyst sér til að mæla með framgangi þessa máls.