Listamannalaun
Mánudaginn 04. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Nú hefur hv. deild þegar samþykkt við 2. umr. að skv. 9. gr. verði a.m.k. helmingur starfslauna úr Listasjóði veittur leikhúslistamönnum. Þrátt fyrir þetta er ekki gert ráð fyrir að leikhúslistamenn geti gert tillögur um hverjir sitji í úthlutunarnefnd Listasjóðs eins og gert er ráð fyrir að rithöfundar, myndlistarmenn og tónskáld geri varðandi sína sjóði. Ég hefði talið að samráð ætti að hafa við leikhúslistamenn varðandi reglur um framkvæmd laganna. Réttast hefði verið að Félag ísl. leikara og Félag leikstjóra á Íslandi tilnefndi í úthlutunarnefndir í þeim hluta Listasjóðs sem leikhúslistamönnum er ætlaður.
    Ég áttaði mig því miður ekki á því, virðulegur forseti, hve stór galli þetta er á frv. fyrr en umræðu um það var lokið og því of seint að koma með brtt. Þessi brtt. bætir ekki gallann við frv. og get ég því ekki stutt hana og greiði því ekki atkvæði.