Kosningar til Alþingis
Mánudaginn 04. mars 1991


     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Eftir að það mál sem hér er til umræðu var afgreitt við 2. umr. hér í hv. deild tók allshn. deildarinnar málið til nánari skoðunar. Það var gert í ljósi þess að eftir afgreiðslu málsins bárust ábendingar varðandi nokkur atriði sem voru þess eðlis að nefndinni þótti rétt að ræða þær og hefur tekið tillit til nokkurra þeirra. Þær eru á þskj. 772 í formi brtt. Þeim fylgir framhaldsnál. á þskj. 771 frá hv. allshn.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim viðbótarbreytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Meginbreytingin felst í því að þau ákvæði laganna er varða kjörgögn við utankjörfundaratkvæðagreiðslu öðlast ekki gildi fyrr en að loknum alþingiskosningum vorið 1991. Ástæðan er sú að dómsmrn. telur of seint nú að útbúa nýja gerð kjörgagna fyrir komandi kosningar. Þær breytingar, sem nefndin leggur til, eru eftirfarandi:
    1. Gerð er tillaga um nýja grein er verði 14. gr. Í greininni er kveðið á um að á framboðslista í kjördæmi skuli vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á þingmenn í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Eðlilegt þykir að kveðið sé á um lágmarkstölu frambjóðenda á lista, en hámark er það sama og í gildandi lögum. Dæmi eru um að aðeins tvö nöfn hafi verið á framboðslista, en telja verður eðlilegt að gerð sé sú krafa að frambjóðendur á lista séu jafnmargir og tala þeirra þingmanna sem kjósa á í kjördæminu.
    2. Lagt er til að 16. gr. frv. falli brott og þar með haldist núgildandi ákvæði laganna. Við nánari athugun hefur komið í ljós að tæpast er framkvæmanlegt að ætla yfirkjörstjórn að úrskurða um framboð sama dag og framboðum er skilað. Nægilegt ætti hins vegar að vera að slíkur fundur verði á næsta virkum degi (laugardegi) svo sem nú er ákveðið í lögunum.
    3. Orðin ,,við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við alþingiskosningar`` í 2. mgr. 45. gr. eru felld brott. Nægilegt verður að telja að auðkenna kjörseðil og kjörseðilsumslag með þeim orðum einum, enda munu þessi kjörgögn einnig verða notuð við forsetakjör og sveitarstjórnarkosningar. Á sendiumslagi mun hins vegar koma skýrt fram að um alþingiskosningar er að ræða.
    4. Breytingin á 22. gr. er gerð vegna þess að fullmikið þykir lagt á kjörstjóra að þurfa að fara á heimili kjósanda, ekki síst í stórum kjördæmum. Er því gerð tillaga um að kjörstjóri geti tilnefnt sem utankjörfundarkjörstjóra tvo trúnaðarmenn til að sjá um framkvæmd þessa þáttar atkvæðagreiðslunnar. Trúnaðarmennirnir mundu hafa á allan hátt sömu ábyrgð og kjörstjóri.
    5. Lögð er til breyting á 3. efnismgr. 24. gr. frumvarpsins. Með tilliti til þess að í frv. er ekki gert ráð fyrir vitundarvottum við utankjörfundaratkvæðagreiðslu þykir eðlilegra að miða við að kjörstjórinn sjálfur veiti aðstoð þá sem nefnd er í greininni. Jafnframt eru gerðar nokkrar orðalagsbreytingar á málsgreininni.
    6. Láðst hefur að fella niður nokkur orð í 32. gr. frv. Með breyttri kjörskrárgerð samkvæmt nýrri 15. gr. laganna verður kjörskrá miðuð við þá sem aldri hafa náð á kjördegi og þeir sem aldri ná síðar á árinu verða þar ekki.
    7. Lagt er til að á eftir 40. gr. frv. komi ný grein. Sú grein felur í sér breytingu á 2. tölul. 134. gr. laganna og er gerð til samræmis við tillögu um nýtt orðalag á 3. mgr. 66. gr. laganna.
    8. Lagt er til að í gildistökuákvæðinu verði kveðið á um að tiltekin ákvæði laganna öðlist ekki gildi fyrr en að loknum alþingiskosningum vorið 1991. Þessi ákvæði varða kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og því er miðað við að kjörgögn við næstu alþingiskosningar verði samkvæmt ákvæðum gildandi laga, nr. 80/1987, og kosningu hagað samkvæmt því. Það er niðurstaða dómsmrn. að þó að ný gerð kjörgagna sé mjög æskileg sé nú orðið of seint að taka ákvörðun um þau vegna komandi kosninga.
    Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessum breytingum sem allshn. var einhuga um. Undir framhaldsnál. rita Jón Kristjánsson, Ólafur G. Einarsson, Friðjón Þórðarson, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðni Ágústsson, Ingi Björn Albertsson og Hulda Jensdóttir.