Slysavarnaskóli sjómanna
Mánudaginn 04. mars 1991


     Frsm. samgn. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þessara orða hv. síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að nefndin taldi þetta ákvæði ekki rýrt að neinu leyti vegna þess að 3. gr. gerði ráð fyrir því í frv. að aðdragandinn að þessum löggildingarákvæðum yrðu fimm ár þannig að það gæti í raun og veru dregist í fimm ár að allir sjómenn fengju þau réttindi sem því fylgir að hafa gengið í gegnum Slysavarnaskóla sjómanna. Þar að auki lagðist Sjómannasamband Íslands í umsögn sinni gegn þessu ákvæði af ýmsum ástæðum. Og m.a. er það tekið fram í umsögn frá Landhelgisgæslu Íslands, sem segir ákvæði 3. gr. eins og það var ekki óeðlilegt í sjálfu sér, en tekur fram að búist sé við því að alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna frá 1978 komi til framkvæmda hér á landi innan tíðar og yrði það þá sennilega í verkahring Siglingamálastofnunar ríkisins að gefa út skírteini þar að lútandi og ákveða þau skilyrði sem uppfylla þarf. Nefndarmönnum var ljóst að með því að festa þessi ákvæði í lögum þyrfti sennilega að breyta þeim mjög fljótlega vegna alþjóðlegra samþykkta sem Íslendingar eru aðilar að. Það er meginástæðan fyrir því að þetta ákvæði var tekið inn til bráðabirgða í brtt. og gert ráð fyrir því að hæstv. samgrh. gefi út þær reglur sem til þarf áður en langt um líður.