Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Frú forseti. Eins og hv. þm. mun kunnugt var á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs flutt og síðan samþykkt tillaga um breytta starfshætti Norðurlandaráðs, tillaga sem að dómi fjölmargra fulltrúa á þingi ráðsins breytir í veigamiklum atriðum þeim grundvelli sem samstarf þjóðþinga og ríkisstjórna hefur byggst á, þjóðþinga frá 1952 og síðan ríkisstjórna Norðurlanda með undirritun Helsingfors - samningsins frá 1962, ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þeim samningi. Þessi tillaga hlaut meirihlutasamþykki en töluverð andstaða kom fram á þingi Norðurlandaráðs við þá tillögu. Þar á meðal voru margir úr hópi Alþingis sem sátu Norðurlandaráðsþingið auk þingmanna annarra þjóðþinga sem þar létu til sín heyra.
    Breytingartillagan fjallar um breytingar á 51. til og með 58. gr. samstarfssamningsins, að undanskilinni 53. gr., en það er breytingartillagan við 52. gr. samstarfssamningsins sem skiptir meginmáli. Gengur breytingin út á, að mínum dómi og þeirra sem þar voru í andstöðu, að breyta starfsháttum Norðurlandaráðs frá því sem þeir hafa verið, þ.e. fulltrúar þjóðþinga í það að það verði fulltrúar stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka á Norðurlöndum sem koma til með að vera þar í forustu því að 52. gr. fjallar um forsætisnefnd Norðurlandaráðs, skipan hennar og með hvaða hætti ákvörðun verði tekin þar að lútandi. Ég ætla ekki að fjölyrða meir hér. Ég tel að verði slíkt samþykkt, þá séum við ekki á þeirri braut sem upphaflega var mótuð og hefur verið að mínum dómi mjög farsællega farin þó svo það hafi gerst nú á þessu þingi að Íslendingar eiga ekki formann í neinum af þeim nefndum sem starfa á vegum Norðurlandaráðs og er það í fyrsta skipti allt frá því 1952.
    Ég leyfi mér því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem fer með samstarfsmálefni Norðurlanda hvort það sé ætlunin, hvort um það hafi orðið samkomulag af hálfu ráðherranna, og þá í samráði við Norðurlandadeild Alþingis, að slík breyting yrði gerð.
    Hér höfum við fyrir stuttu síðan haft umræðu um starfsemi Norðurlandaráðs og hefði því verið eðlilegast að slík málefni sem þessi hefðu komið þar á dagskrá. En vegna þess að sú umræða hafði farið fram, þá leyfi ég mér að bera fram þessa fyrirspurn til þess einmitt að fá svör og vekja athygli á þessu máli hér á Alþingi. Sjálfur er ég andvígur þeirri breytingu sem hér er hugsuð.