Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ef ég hugleiði aðeins með hvaða hætti samstarf Norðurlandanna á sér stað á vettvangi Norðurlandaráðs og innan vébanda samstarfsráðherra þá má segja að það sé tvíþætt. Það er fyrst og fremst um það að ræða að það er samstarf þingmanna, sérstakra kjörinna fulltrúa þjóðþinga Norðurlandanna, sem koma saman á Norðurlandaráðsþingi. Síðan er um að ræða samstarf ríkisstjórna sem fer fram á vettvangi margs konar ráðherranefnda, þar sem um er að ræða að viðkomandi ráðherrar úr viðkomandi ríkisstjórnum hittast til að fjalla um sameiginleg málefni. En eins og öllum er kunnugt hafa þó utanríkismál verið utan við þetta samstarf, a.m.k. fram til þessa, þó að umræður um utanríkismál almennt skipi æ meiri sess á þingum Norðurlandaráðs en fram til þessa hefur verið.
    Síðan blasir þetta samstarf kannski við þeim sem taka þátt í því á eftirfarandi hátt. Í fyrsta lagi er um að ræða hreina hagsmunagæslu hvers lands fyrir sig gagnvart sínum eigin hagsmunum í þessu samstarfi og í öðru lagi er um að ræða samstarf pólitískra aðila, þ.e. hópa sem telja sig eiga sams konar pólitískar skoðanir að verja. Þó verð ég nú að viðurkenna að það er ákaflega erfitt að sjá fyrir sér hvaða pólitísku skoðanir t.d. miðflokkahópurinn er að verja, en það munu vera 16 mismunandi stjórnmálaflokkar í þeim hópi, og sagt er að það sé lengra og meiri gjá á milli þeirra en á milli t.d. Alþb. og Sjálfstfl. hér á Íslandi.
    Hvað varðar störf ráðherranefndarinnar, þá hefur samstarfið t.d. innan hóps samstarfsráðherra það tímabil sem ég hef gegnt störfum samstarfsráðherra Norðurlandamála í íslensku ríkisstjórninni verið ákaflega gott. Að vísu hefur oft verið tekist á einmitt um þessa hagsmuni sem eru mjög áberandi í samstarfinu. Stundum er tekist á um verkefni og veitingu fjármuna til verkefna sem kannski koma einu Norðurlandinu betur en öðru og síðan er ekki síst tekist á um áhrif sem fást með því að ráðstafa æðstu stöðum í Norðurlandasamstarfinu til ákveðinna landa. Þar er fyrst og fremst tekist á um þær stöður sem er að finna hjá ráðherranefndinni, þ.e. skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Má segja að kannski hafi verið hvað mest tekist á um þau hagsmunamál á yfirstandandi starfsári, en þá var verið að ráðstafa æðstu stöðum hjá skrifstofunni í Kaupmannahöfn. Eins og öllum er kunnugt höfðu Íslendingar eina deildarstjórastöðu af fimm á skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn en misstu hana sl. sumar eftir mikil átök um ráðstöfun hennar meðal samstarfsráðherranna.
    Á Norðurlandaráðsþinginu núna í Kaupmannahöfn í síðustu viku lágu fyrir breytingartillögur á Helsingfors - sáttmálanum sem er grundvöllur norræns samstarfs. Í 52. gr. er gert ráð fyrir þeirri breytingartillögu að stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, þ.e. þingsins, verði án nokkurrar takmörkunar, þ.e. fjöldi nefndarmanna verði ótakmarkaður. Þessi breyting var gerð með það að leiðarljósi að auðveldara yrði fyrir ákveðna stjórnmálahópa, þ.e. flokkahópa, að fá áhrif í stjórnarnefnd Norðurlandaráðs með þessum hætti.

Síðan segir: Hver deild ráðsins skal eiga eigi færri en tvo fulltrúa í stjórnarnefndinni til þess að tryggja það að hvert þjóðþing hafi a.m.k. tvo fulltrúa í stjórnarnefndinni. Það er alveg ljóst að með þessari breytingu er gengið gegn hagsmunum Íslands vegna þess að það má búast við því að við munum aldrei fá fleiri en tvo fulltrúa í stjórnarnefndinni meðan hins vegar flokkahóparnir gætu komið fleiri mönnum inn í nefndina. Þannig yrði að fjölga í stjórnarnefndinni, sumir segja jafnvel allt upp í 17 manns frá þeim 10 sem eru nú í stjórnarnefnd, en það mundi að sjálfsögðu draga úr áhrifum Íslands í nefndinni og þar með í Norðurlandaráði.
    Því miður kom þetta mál ekki upp fyrr en skömmu áður en stóð til að ég undirritaði fyrir hönd Íslands samning um að gera þessar breytingar, en þegar þessi deila kom upp var skotið á fundi samstarfsráðherra og þar tilkynnti ég að ég gæti ekki undirritað þetta samkomulag að svo stöddu nema þá með því að gera sérstakan fyrirvara um að ég teldi ólíklegt að þessi breyting mundi fá samþykki á Alþingi Íslendinga. Þegar ég tilkynnti þetta, þá var fallið frá því að undirrita þessar breytingar að svo stöddu.