Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er frétt í Morgunblaðinu síðasta laugardag, þar sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir áformum um framkvæmdir sem einkum eru bundnar við Reykjanes og Suðurland, en sem eru þó greinilega öll í lausu lofti innan ríkisstjórnarinnar. Nú er álversdraumurinn greinilega farinn að blikna og góð ráð dýr ef kjósendur eiga að halda ró sinni, því auðvitað eru það kosningar sem í hönd fara sem eru undirrót þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðherra.
    Ég vil minna á það að ekki kom álver í hitteðfyrra, ekki heldur í fyrra og ekki gaf það þá tilefni til aukinna framkvæmda á þessum stöðum sem nú er rætt um. Þvert á móti hefur það verið boðað mjög ákveðið að verði ráðist í auknar virkjanir og álversframkvæmdir, þá sé nauðsyn að draga úr öðrum opinberum framkvæmdum um allt land og ekki síst á Reykjanesi.
    Nú eru álversframkvæmdir alls ekki fyrir bí eftir því sem ráðamenn segja, aðeins dráttur á því að hafist verði handa. Staðurinn er ákveðinn á Reykjanesi og því liggur beint við að gagnrýna þessa forgangsröðun ef yfir höfuð á að taka slíkar yfirlýsingar alvarlega. Eigi þetta að vera sárabætur fyrir glatað álver, þá skilja allir afstöðu hæstv. forsrh. og fjmrh., umhyggjan fyrir þeirra kjördæmi er augljós. Sömuleiðis fá Austfirðingar ofurlitla dúsu. Menn hafa í huga hugmyndir um ýmsar verksmiðjur á Reyðarfirði sem nú eru burt flognar. Norðlendingar eystri fengu á sínum tíma tilboð um stóriðju sem þeir eyddu ærnum fjármunum í að kanna, en komust svo að því, eins og börnin segja, að það var allt í plati. Ég er að vísu ekki í hópi þeirra sem harma að af þeim framkvæmdum varð ekki, en ég vil benda á að á Reykjanesi er ekki nú brýnasti atvinnuvandinn af þeim stöðum sem atvinnuleysi hrjáir ef líta á á málin frá því sjónarhorni. Mér er spurn: Ef fé er aflögu til meiri framkvæmda en fjárlög gera ráð fyrir, af hverju er þá ekki litið til þeirra staða sem verða að draga úr framkvæmdum þegar að virkjana - og álversframkvæmdum kemur? Af hverju eru hugmyndir um að auka framkvæmdir á Reykjanesi nú, þegar jafnframt er haldið fram að álver sé þar á næsta leiti, eða er kannski að koma upp sú staða að ekki verði af því? Við því væri gott að fá svör. Því er þá ekki litið til þeirra staða sem bíða e.t.v. afhroð vegna loðnubrests og aflaskerðingar? Ég held að engum geti dulist undirrót yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Kosningar eru í nánd.