Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst þetta fremur þarflítil umræða og ástæðulítið fyrir málshefjanda að kippa sér upp þó að hann heyri einhver hljóð úr horni fjmrh. Iðnrh. er réttilega búinn að lýsa því að framkvæmdir við álverið eru ekki afskrifaðar og það er reyndar forsrh. búinn að gera á undan honum. Það hefur orðið frestun á því máli. Það gæti greiðst úr því á næstu vikum þannig að hægt væri að halda upprunalegu plani, en það er ekki á okkar valdi sem stendur að ákveða hvort svo verður eða ekki. Álfyrirtækin eru að kanna fjármögnunarmöguleika sína og eru að reikna út kostnaðinn af þessum framkvæmdum. Lagasetning er fyrir hendi þannig að Landsvirkjun getur haldið sínu striki án frekari lagasetningar að öðru leyti en því að Landsvirkjun þarf lántökuheimildir ef um stórframkvæmdir yrði að ræða á hennar vegum í sumar. Lánsfjárlög eru óafgreidd og verða afgreidd fyrir þinglok og það má taka tillit til þess. Ellegar þá að næsti fjmrh. gæti tekið málið í sínar hendur þegar úr því leysist. Ég tel óeðlilegt að fara að hafa uppi einhver áform um neyðarráðstafanir þó að álversframkvæmdir frestist nokkuð. Ég lít nú fremur á þetta sem kosningaræðu eða lið í kosningaundirbúningi hjá formanni Alþb.