Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Við höfum séð það á ráðherrunum hvernig á að bregðast við ef slegið er í bjölluna. Það er hálfslæmt að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér í Sþ. vegna þeirra yfirlýsinga sem sérstaklega tveir ráðherrar Reykjaneskjördæmis hafa gefið hér og sérstaklega hæstv. forsrh. Það kom fram í nefnd sem vann að langtímaáætlun um vegagerð að ekki væri brýnt að tvöfalda Reykjanesbraut. Það væri ekki eitt af þeim verkefnum sem lægi fyrir að þyrfti að ráðast í núna þó svo að álver kæmi á Keilisnesi. Það er því eitthvað annað sem veldur því að hæstv. ráðherra hleypur upp með þessa tillögu nú.
    Ég vil líka vekja athygli á þeim orðum hæstv. forsrh. að það eigi að hlaupa undir bagga þar sem álver muni ekki koma og loðnuverksmiðjur hafa orðið fyrir því að ekki náist loðna þangað. Hann minntist að vísu á Siglufjörð, en það er mikið ógert í samgöngumálum í kringum aðrar loðnuverksmiðjur. Við getum nefnt hvort sem okkur sýnist Seyðisfjörð eða Raufarhöfn. Mig minnir að álver á Norðurlandi eystra hafi líka gufað upp og á þeim tíma hafi hæstv. forsrh. talað um að það þyrfti að flytja kvóta að norðan til Reykjaneskjördæmis ef álver kæmi fyrir norðan. Nú er ekki að heyra að hæstv. forsrh. hafi áhyggjur af því þó að atvinna dragist saman á Norðurlandi.
    Ég vil loks minna á að það eru mjög erfiðar horfur í sambandi við fyrirtæki á Akureyri sem ríkið á sjálft, Álafoss, og ekki hefur verið staðið skynsamlega að skipasmíðaiðnaði. Það er þess vegna margt sem krefur. Hitt gleður hjarta mitt ef hæstv. ríkisstjórn ætlar loksins að beita sér fyrir því að lánsfjárlög nái fram að ganga. Við afgreiddum þau fyrir jól í Ed. og fórum létt með það.