Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Þetta eru fróðlegar umræður. Það má vera að það sé rétt hjá hæstv. iðnrh. að ekki hafi álframkvæmdir verið afskrifaðar á Suðurnesjum á þessu ári. En það virðist vera nokkuð greinilegt að þær frestast. Við það kann að sparast eitthvert fé svo að vera má að hæstv. ríkisstjórn hafi nú einhverju úr að spila en veit ekki gerla í dag hvað stór sá sjóður er. Ef svo er, þá er auðvelt að benda á verkefni sem hægt er að snúa sér að og það meira að segja verkefni sem öll þjóðin er sammála um. Það eru samgöngubætur sem eru aðkallandi víða og meira að segja arðbærar. Öll þjóðin styður bættar samgöngur í eigin landi. Mörg stórverkefni bíða eins og best verður séð ef skoðaðar eru nýjar þingsályktunartillögur sem verið er að ræða þessa dagana um vegaframkvæmdir næstu ára og langtímaáætlun. Mörgum brýnum verkefnum verður að fresta árum saman. Bættar samgöngur eru stærsta málið í byggðum landsins, mál sem allir landsmenn vilja styðja. Valið er því auðvelt fyrir hæstv. ríkisstjórn ef hún kynni að hafa eitthvað af aukaaurum til ráðstöfunar fljótlega.