Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Þessi aðferð hæstv. fjmrh. til þess að koma fram málum sínum er náttúrlega ekkert ný og þarf engum að koma á óvart. Þaðan af síður þau viðbrögð sem fram koma hjá ráðherrum núv. ríkisstjórnar, því að þannig hefur nú verið með hæstv. fjmrh. að hann hefur verið nokkuð djarftækur til fjár þegar hann hefur verið alveg öruggur um að þurfa ekki að standa skil á greiðslum í sinni ráðherratíð. Og hér er einmitt gott tækifæri, þegar ráðherrann er rétt um það bil að yfirgefa stólinn sinn, að stofna til útgjalda upp á tvo milljarða.
    Hlutur Austurlands er náttúrlega alveg einkar sniðugur í þessum efnum því að ríkisstjórnin hefur haft þá aðferð á gagnvart Egilsstaðaflugvelli að fresta þar framkvæmdum á þessu ári. Það er náttúrlega hægur vandinn að auka þær þá á næsta ári því að það kemur náttúrlega af sjálfu sér að í flugmálaáætlun, sem trúlega verður nú breytt, koma þessir peningar aftur til baka svo að þetta eru nú býsna sniðugar tillögur.
    Það er mikill kostur við þessa umræðu að afstaða Alþfl. hefur skýrst, m.a. gagnvart álverinu, því að þrátt fyrir að það hafi verið öllum ljóst að þar hefur náttúrlega verið um leikaraaðferð að ræða á sjónvarpsskerminum um mjög langa tíð, þá hefur hér komið fram staðfesting á því að ríkisstjórnin sjálf trúir þeim yfirlýsingum ekki þar sem hæstv. fjmrh. hefur tekið þá djörfu ákvörðun að flytja í ríkisstjórninni tillögur um eyðslu á tveimur milljörðum til þess að bæta fyrir allar stóru yfirlýsingarnar hjá Alþfl. á Suðurnesjum.