Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Þetta eru nú nokkuð skemmtilegar umræður finnst mér. Það kemur fram að enginn ráðherra er öðrum sammála. (Gripið fram í.) Mér datt það auðvitað aldrei í hug, nei. En þeim hefur dottið það í hug að þeir gætu leynt því hér á hv. þingi, a.m.k. iðnrh. Hann er nú alveg snillingur í þessum blekkingarleik. Það eru ekki mörg prósent af þjóðinni sem trúa því að álver verði byggt á þessu ári og líklega ekki á því næsta. En við ræðum það nú betur í umræðunum ef hann kemur með þetta kosningaplagg sitt hér inn, þessa þáltill., þá ræðum við það betur. En mér finnst þetta alveg merkileg umræða, t.d. hvað hæstv. fjmrh. er mikill loftfimleikamaður og raunar fleiri hæstv. ráðherrar. Það veit enginn um þessa tillögu fjmrh. Hann telur hana eðlilega, eðlilegt að ræða ekki um það í ríkisstjórninni áður en þetta er sett út í loftið. ( Fjmrh.: Jú, jú, það var rætt.) Jú, jú. Hæstv. forsrh. segist ekkert hafa vitað um þetta. Já, já, fjarskiptin eru náttúrlega ekki í lagi og ekki hægt að ræða þetta þannig. En ég held að hæstv. ráðherrar hafi alveg afhjúpað sig í þessari umræðu.