Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Störf í nefndum heyra undir þingsköp. Það er rangt sem hæstv. fjmrh. segir að það sé eðlilegt að lánsfjárlög hafi ekki verið afgreidd nú þegar frá fjh. - og viðskn. Nd. Það lá fyrir þegar frv. til lánsfjárlaga var til meðferðar hjá fjh. - og viðskn. Ed. að áhersla var á það lögð, eins og venja er til hér í þinginu, að frv. yrði afgreitt nægilega snemma til þess að hægt væri að taka það fyrir og afgreiða frá Nd. fyrir áramót eins og er kappsmál allra fjmrh. Sá fjmrh. sem situr hér mér á vinstri hönd var auðvitað á þeim tíma kappsfullur að ná lánsfjárlögum fram fyrir áramót eins og jafnan er.
    Hitt er svo rétt, eins og fram hefur komið frá einstökum fjárhags - og viðskiptanefndarmönnum Nd. í blöðum, að ágreiningur er uppi um það innan ríkisstjórnarinnar hvernig halda skuli á frv., m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um það að létta verulegum lánum af Byggðasjóði og treysta með þeim hætti fjárhag Byggðasjóðs. Eins hefur það komið fram að ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir því að einstökum fyrirtækjum eru gefin fyrirheit um að skuldir og lán séu yfirtekin af ríkissjóði og er orðin úr þessu hin mesta flækja.
    Það má vel vera að hæstv. fjmrh. sjái nú fram á það að hann geti ekki komið lánsfjárlögunum út úr Nd., hvað þá Ed., fyrr en á síðustu dögum þingsins, skömmu áður en kosningar hefjast, sem sýnir einungis hvernig ástandið er í þessum efnum í ríkisstjórninni, hvernig eitt yfirboðið rekur annað. Er satt að segja hálfbagalegt, hæstv. forseti, þegar hæstv. fjmrh. talar með þeim hætti sem hann gerði nú áðan að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér í salnum til þess að hægt sé að beina fyrirspurnum til hans.
    Nýjasta yfirboð hæstv. fjmrh. eru milljarðarnir tveir. Hann er búinn að halda ráðstefnu með öðrum Norðurlandaþjóðum til að sýna fram á sparnað sinn. Ekki líður sá dagur síðan að hann sé ekki að auka við kosningaloforð hér og þar. Mér hefur verið sagt af framkvæmdum fyrir norðan sem voru skornar niður við trog við afgreiðslu fjárlaga en nú á að fara að hressa svolítið upp á. Það er svona einn og annar af sendisveinum hæstv. fjmrh. í Alþb. að stinga því að mönnum að kannski sé hægt að fá pínulítinn aukabita nú fyrir kosningarnar. Má segja að fjmrh. sé vorkunn eins bág og staða hans flokks er samkvæmt skoðanakönnunum og óvíst, ef hæstv. fjmrh. stendur við það að taka efsta sætið í Reykjaneskjördæmi, að hann komist á þing eftir næstu kosningar frekar en þær síðustu.