Listamannalaun
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um listamannalaun sem þegar hefur sætt meðferð í hv. Nd. og tekið þar nokkrum breytingum. Það má segja að eins og frv. lítur út núna þá komi meginbreytingin fram í 2. gr. frv. en þar er gert ráð fyrir því að listamannalaun verði framvegis veitt úr Launasjóði rithöfunda, Launasjóði myndlistarmanna, Tónskáldasjóði og Listasjóði.
    Þrír fyrstnefndu sjóðirnir séu sérgreindir sjóðir en Listasjóður almennur sjóður í þágu allra listgreina og allir sjóðirnir veiti starfslaun svo og náms- og ferðastyrki, eins og það er orðað í núverandi gerð frv.
    Í 3. gr. er talað um að þriggja manna stjórn listamannalauna hafi yfirumsjón með sjóðunum. Stjórnin verði skipuð af menntmrh. til þriggja ára í senn, einum samkvæmt tilnefningu Bandalags ísl. listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla, ef stofnaður yrði, og loks einum án tilnefningar.
    Stjórnin skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald þeirra.
    Í 4. gr. er kveðið á um það hvernig þessi laun verða ákveðin og við hvaða launaflokka og lífeyrisréttindi þau skuli miðuð.
    Í 5. gr. er talað um hversu mikil þessi laun skuli vera samanlagt þegar allir sjóðirnir eru teknir saman.
    Í 6. gr. eru ákvæði um það hversu mikið fellur í hlut Launasjóðs rithöfunda, í 7. gr. hversu mikið fellur í hlut Launasjóðs myndlistarmanna, í 8. gr. til Tónskáldasjóðs og í 9. gr. hversu mikið kemur í Listasjóð.
    Það ber að taka það fram, virðulegi forseti, að í 9. gr. er kveðið á um það að Listasjóðurinn skuli sérstaklega veita framlög til þeirra listamanna sem hafa verið á listamannalaunum undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri. Og þar er það tekið fram að a.m.k. helmingur starfslauna úr Listasjóði skuli veittur leikhúslistamönnum.
    Það er talað um að starfslaunin skuli veitt til hálfs árs eða eins árs, til þriggja ára eða fimm ára, og miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.
    Um leið og frv. þetta yrði samþykkt, ef svo fer, þá munu falla úr gildi lögin um listamannalaun, nr. 29/1967, og lögin um Launasjóð rithöfunda, nr. 29/1975.
    Í upphaflegri gerð frv. var gert ráð fyrir því að fella niður núverandi kerfi á svokölluðum heiðurslaunum listamanna og gerð tillaga um að heiðurslaunahafar skyldu þeir einir vera sem náð hefðu 65 ára aldri. Það náðist ekki samkomulag um þessa grein í hv. Nd. og þess vegna var hún felld niður.
    Frv. þetta er samið af nefnd sem menntmrh. skipaði 20. júlí 1989 og í henni voru: Ragnar Arnalds, Eiður Guðnason, Gerður Steinþórsdóttir, Brynja Benediktsdóttir og Guðný Magnúsdóttir myndlistarmaður.
    Frv. er í sjálfu sér einfalt og skýrt og ástæðulaust

að fjölyrða um það frekar. Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.