Listamannalaun
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Um þetta frv. má auðvitað mjög margt gott segja. Það er í fyrsta lagi stórt framfaraspor að lagt skuli fram frv. til laga hér á hinu háa Alþingi sem tryggi listamönnum þjóðarinnar a.m.k. 75 árslaun og á næstu fimm árum á þeim að fjölga um fimm árslaun á ári þannig að það verði hundrað árslaun á hverju ári sem við höfum úr að spila til að veita okkar ágætu listamönnum.
    En það orkar allt tvímælis sem gert er og líka að sjálfsögðu þessi lagasmíð. Það er ýmislegt sem sker í augu strax, t.d. finnst mér dálítið undarlegt að þeir listamenn, sem eiga að fá að njóta kannski nokkurra mánaða launa af þessum starfslaunum, mega ekki gegna öðru föstu starfi þegar þeir hljóta starfslaunin, þ.e. það gegnir þá öðru máli eiginlega um þá heldur en aðra landsmenn. Ef þeir væru t.d. í 1 / 3 úr föstu starfi, þá yrðu þeir að segja því lausu. Mér finnst þetta dálítið hart að gengið, sérstaklega þar sem það er erfitt fyrir listamenn og fólk almennt að fá fast starf sem er bara 1 / 3 eða helmingur af venjulegu starfi, aðallega þó það sem minna er. Þessu þyrfti að breyta á einhvern þann hátt að það væri eingöngu fullt fast starf sem þeir mættu ekki gegna að auki eða meira en hálft starf sem þeir mættu ekki gegna að auki.
    Það er enn annað sem mér finnst að þurfi umhugsunar við og það er það að Listasjóðurinn er eins konar safnkista fyrir alls konar listafólk og ekki eingöngu alls konar listafólk sem ekki heyrir undir hina sjóðina heldur líka listafólk sem heyrir undir hina þrjá sjóðina eftir að fólkið er orðið 60 ára. Mér finnst það mjög undarlegt eða mundi a.m.k. vilja fá skýringu frá ráðherra hvernig stendur á því að þegar maður er orðinn sextugur þá geti maður ekki fengið laun úr Launasjóði rithöfunda eða myndlistarmanna eða tónskálda, heldur aðeins úr safnsjóðnum. Mér finnst ekki hafa komið fram næg skýring frá ráðherra hvers vegna þetta er gert og mér þætti vænt um ef hann vildi útskýra þetta fyrir mér.
    Þá er ég hrædd um að það muni fljótlega sýna sig að í þessum Listasjóði, sem er með miklu færri mánaðarlaun heldur en Launasjóður rithöfunda, séu of fá mánaðarlaun miðað við allan þann skara sem hugsanlega ætti að sækja í þennan sjóð eða allt það sem sjóðurinn á að annast, því það er ekki bara að veita starfslaun heldur að veita ýmsa aðra styrki.
    Einnig vekur það furðu að í landi þar sem leikhús finnst næstum því í hverju einasta þorpi og kauptúni, jafnvel sveitum þessa lands, og leiklist er mjög vinsælt listform, skuli ekki vera sérstakur sjóður fyrir leikhúslistamenn, heldur sé sá sjóður partur af Listasjóði. Íslendingar eru miklir áhugamenn um leiklist og það væri ekki óeðlilegt að það væri sérstakur listasjóður fyrir leikhúslistafólk. Auk þess sem það eru 120 mánaðarlaun sem áætluð eru til úthlutunar fyrir leikhúslistafólkið, en leikhúslistafólkið á ekkert öruggt að hafa neitt með yfirráð yfir útdeilingu þessa sjóðs að gera. Það þyrfti því að athuga hvernig hlutur þess væri betur tryggður heldur en mér finnst vera í þessu

frv.
    Enn er eitt og það er að í 6. gr. stendur: ,,Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita.`` Nú er það svo að það eru til margs konar rithöfundasambönd og félög á Íslandi. Rithöfundasamband Íslands á að leggja til fólk í úthlutunarnefnd úr þessum sjóði. En til er félag sem heitir Hagþenkir og í því eru höfundar fræðirita og kennslurita og þeir mundu eiga, að því er ég best fæ séð, að fá aðgang að þessum sjóði, en þeir hafa eftir þessum reglum ekki neinn möguleika á að hafa áhrif á útdeilingu úr sjóðnum. Þar af leiðandi finnst mér í fljótu bragði að í þessari þriggja manna nefnd ættu að vera tveir frá Rithöfundasambandinu og einn frá Hagþenki. Félagar í Hagþenki munu vera um 240, ef ég veit rétt, og það er ekkert lítill rithöfundahópur sem gegnir afskaplega mikilvægu hlutverki fyrir íslenska menningu og má gjarnan gera þeim eilítið hærra undir höfði eða a.m.k. minnast þess að þetta félag er til.
    Þetta lagafrv. mun koma fyrir menntmn. Ed. Þar mun gefast tækifæri til að ræða einstaka þætti betur og mun ég gera það og leggja til breytingar sem mér og Kvennalistanum kann að finnast eðlilegt að komi þarna inn.