Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Egill Jónsson :
    Herra forseti. Ég er ánægður með lokaorð hæstv. landbrh. að því leyti að hann gerir sér fyllilega grein fyrir því að tíminn er orðinn naumur til þingstarfa hér á Alþingi. Það er mikilvægt að ráðherra skuli átta sig á því. Það er ekkert sérstaklega bundið við núv. hæstv. ráðherra þó að mikið eigi að gera á allra síðustu dögum þingsins. Þó að hér sé, eins og hæstv. ráðherra komst að orði, ekki um yfirgripsmikið mál að ræða sem mönnum gæti e.t.v. sýnst að væri hægt að afgreiða í skjótheitum, þá held ég að fram þurfi að fara nákvæm skoðun á þessu máli.
    Það var náttúrlega afar slæmur kostur að ekki skyldi vera unnt að leggja þetta frv. fyrir síðasta búnaðarþing, en eins og menn vita hefur afleysingaþjónustan verið í þess forsjá sl. 10 ár.
    Hér eru, eins og ég sagði áðan, viss álitamál, t.d. að því er varðar 3. gr. sem varðar skilgreiningu á réttindum þeirra aðila sem þarna eiga hlut að máli, og eins 6. gr. þar sem kveðið er á um aðgang að Lífeyrissjóði bænda. Það er reyndar fleira sem þarf að íhuga af fullri alvöru í þessum efnum.
    Hann er nú ekki sterkur á svellinu, Lífeyrissjóður bænda, og ekki aflögufær. Og satt að segja veitir hann bændum landsins ekki mikil réttindi þó að þeir borgi í hann. Öll þessi mál þarf því að taka til nákvæmrar athugunar og mér þykir satt að segja afar ósennilegt að málið gangi fram á þeim tveimur eða þremur dögum sem Alþingi á eftir að starfa í deildum.
    Þetta finnst mér eðlilegt að komi hér fram við þessa umræðu. En ég á að sjálfsögðu þess kost að fjalla um málið í nefnd og það er af þeirri ástæðu sem ég hef ekki farið hér ofan í einstaka efnisþætti frv., m.a. vegna þess að ég hafði ekki haft tök á því að meta efni þess fyrr en eftir að það var lagt hér fram á þinginu.