Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Íslensk bændastétt hefur átt undir högg að sækja á undanförnum árum og veitir ekki af að hlúa að henni og störfum hennar eins og hægt er. Því álít ég að það sé nauðsynjamál sem hér hefur verið fram borið. Hins vegar er það vafalaust rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að það eru fáir dagar eftir af þinginu til að fjalla um þetta mál og ýmis álitamál eru hér. Hann hefur bent á ýmsa þætti sem ég ætla ekki að fara inn á, en ég vildi nefna tvennt. Það stendur hér í 6. gr. að föst mánaðarlaun skuli miðast við 40 stunda vinnuviku, en yfirvinnu skuli þeir borga sem njóta þessarar forfallaþjónustu.
    Mér hefur virst því vera þannig varið til sveita að vinnan fellur ekki eingöngu á dagvinnu. Óhjákvæmileg vinna dag hvern fellur ekki innan dagvinnurammans. Því álít ég að þetta þyrfti að orðast á einhvern annan hátt þannig að það væri ekki óumflýjanlegt, jafnvel þó að það væri 40 stunda vinnuvika, að búið þyrfti að greiða yfirvinnu vegna þess að vinnan er unnin utan dagvinnutímans. Þetta er bara smáatriði sem þarf að laga. Eins og allir vita, þá fer vinna í sveitum fram á ýmsum tímum sólarhrings og það er óeðlilegt ef t.d. þarf að taka á móti kálfi um nótt, að búið þurfi að borga yfirvinnu fyrir það. Slíkir hlutir eru leki sem þarf að setja undir í þessari grein, þ.e. að að jafnaði skuli vera 40 stunda vinnuvika sem falli þá bæði utan og innan dagvinnutímans og það væri greitt fyrir það. Ég veit að það er örlítið meira sem þyrfti að greiða en mér fyndist það réttlátara.
    Í 7. gr. stendur: ,,Afleysingamenn skulu hafa alhliða starfsreynslu við bústörf. Koma skal á námskeiðum við búnaðarskóla sem þjálfa fólk til afleysingastarfa.`` Þetta finnst mér vera sérlega gott og gleður mitt gamla fullorðinsfræðslukennarahjarta að sjá þetta, en ég lít nú samt svo á að það ætti ekki að standa þarna við búnaðarskóla heldur á vegum búnaðarskóla vegna þess að ég held að það væri eðlilegt að búnaðarskólarnir hefðu þessa fræðslu víðar heldur en á sjálfum skólunum. Þeir gætu farið með þessa fræðslu víðar um landið eða þetta gæti verið fjarfræðsla sem færi fram í gegnum útvarp og sjónvarp í Reykjavík. Allt þetta ætti að vera inni í myndinni, það þyrfti bara að breyta þarna einu orði, að koma skuli á námskeiðum á vegum búnaðarskóla en ekki við búnaðarskóla. Það mundi ná betur til fullorðinsfræðslu eins og hún er í dag.