Starfskjör presta þjóðkirkjunnar
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér finnst mál það sem hæstv. fjmrh. mælti hér fyrir vera mál sem er í rauninni alveg sjálfsagt. Rökin þau að sálusorgun getur ekki bara farið fram eftir pöntun og ekki er hægt að leggja hana af í verkföllum eða jarðarfarir eru mjög sterk. Auk þess lít ég svo á að sú þjóð sem telur sig kristna og hefur ríkiskirkju hljóti að líta störf presta þannig að þau geti eiginlega ekki átt að sæta sömu lögmálum og önnur venjuleg störf. Við erum búin að ráða þessa menn til að þjóna trú okkar og andlegum þörfum og við hljótum að þurfa að meta störf þeirra á annan hátt heldur en gert er í venjulegum kjarasamningum. Að vísu lít ég svo á að verkfallsrétturinn sé einhver heilagasti réttur mannsins en í sumum tillfellum er rétt að honum sé ekki beitt heldur sé á annan hátt skipað málum.