Fullorðinsfræðsla
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu en á undanförnum árum hafa verið samin nokkur frv. um fullorðinsfræðslu sem hafa ekki náð fram að ganga. Þeirra viðamest er frv. frá árinu 1974. Næsta frv. á undan þessu sem nú liggur fyrir var lagt fram á Alþingi árið 1980 af þáv. hæstv. menntmrh., Vilmundi Gylfasyni, en það frv. hlaut ekki afgreiðslu.
    Á 112. löggjafarþinginu lagði ég fram þetta frv. sem nú kemur á ný til meðferðar hv. Alþingis og fjallar um almenna fullorðinsfræðslu. Það var einnig þá flutt sem stjfrv. en varð ekki útrætt. Frá því frv. hafa verið gerðar breytingar á 15. gr., sem nú verður 16. gr., þar sem bætt hefur verið við nýrri grein, 14. gr., um upplýsingaskyldu. Að öðru leyti er frv. óbreytt frá síðasta þingi.
    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á fullorðinsfræðslu. Framboð hefur aukist og þátttakan einnig. Einna mest hefur breytingin orðið í starfsmenntun í atvinnulífinu þar sem átak hefur verið gert til að mennta ófaglært fólk í hinum ýmsu atvinnugreinum. Stærsta átakið í þeim efnum er vafalaust átak í fisk-, vefjar - og matvælaiðnaði. Á hinn bóginn hefur mjög skort á að til væru samræmdar reglur um fyrirkomulag náms fullorðinna. Aðstöðumunur eftir landshlutum og starfsstéttum er hróplega mikill. Víða um land er ekki boðið upp á neina fræðslu fyrir fullorðna í heimabyggð. Í stuttu máli má segja að þær starfsstéttir sem mesta menntunina hafa fyrir hafi besta aðstöðu til að bæta við menntun sína. Þessu lagafrv. er ætlað að bæta hér úr.
    Markmið frv. er að stuðla að jafnrétti fullorðinna til að afla sér menntunar án tillits til búsetu, aldurs, kyns, starfs eða fyrri menntunar og skapa fullorðnum einstaklingum almennt betri skilyrði til að taka þátt í fullorðinsfræðslu. Eins og ástandið er í dag eiga margir fullorðnir, einkum úti á landi, erfitt með að sækja öldungadeildarnám eða aðra fullorðinsfræðslu vegna fjarlægðar og oft erfiðra samgangna á vetrum. Þá er kostnaður við þátttöku í fullorðinsfræðslu mörgum fjötur um fót. Enn aðrir eiga erfitt með að sækja reglubundið nám vegna breytilegs vinnutíma.
    Annað meginmarkmið frv. þessa er að skapa fræðsluaðilum betri starfsskilyrði þannig að þeir geti boðið fullorðnu fólki upp á fjölbreyttari kosti, betri námsaðstöðu og hagstæðari kjör. Þá er fullorðinsfræðslu ætlað að miða að því að auka persónulegan þroska og hæfni einstaklingsins sem og þörf samfélagsins fyrir aukna menntun og starfshæfni.
    Frv. er ætlað að taka til almennrar fullorðinsfræðslu. Með almennri fullorðinsfræðslu er átt við þá fræðslu sem fullorðnum stendur til boða í skólakerfinu, t.d. í öldungadeildum framhaldsskóla, námskeið á vegum annarra skóla og tómstundanám af ýmsu tagi sem boðið er af mörgum aðilum, svo sem framhaldsskólum, námsflokkum, fræðslusamtökum, einkaskólum og einstaklingum. Enda þótt þetta nám sé ekki beinlínis tengt skólagöngu eða starfi leiðir það mjög

oft til þess að þátttakendur taka að stunda nýtt nám eða auka við starfsþekkingu sína. Almenn fullorðinsfræðsla skv. frv. þessu nær þannig til náms á grunn - , framhalds - eða háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum en einnig til almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms. Þessu frv. og frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu, sem hæstv. félmrh. hefur einnig lagt fram á Alþingi, er báðum ætlað að ná yfir þorra þeirrar fullorðinsfræðslu sem fram fer utan skólakerfisins hér á landi.
    Eitt veigamikið atriði í þessu frv. er ákvæði 3. gr. um skipun fullorðinsfræðsluráðs. Eins og mál standa í dag hefur enginn aðili fulla yfirsýn yfir þá fullorðinsfræðslu sem í boði er í landinu og það er heldur enginn sem markar heildarstefnu. Hlutverk fullorðinsfræðsluráðs á að vera að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti fullorðinsfræðslu, svo sem um námsframboð, forgang verkefna og hópa. Auk þess lúta verkefni ráðsins að söfnun og miðlun upplýsinga um fullorðinsfræðslu, bæði um starfsmenntun og almenna fullorðinsfræðslu, samræmingu á námsefni, námsframboði og faglegu mati á þeirri fræðslu sem í boði er, samstarfi milli skóla og annarra fræðsluaðila, stuðla að betri menntun kennara og leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu og að vera menntamálayfirvöldum og fræðsluyfirvöldum yfirleitt til ráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir því að ráðið verði nokkuð fjölmennt en eðlilegt virðist að kalla til ráðgjafar allfjölmennan hóp fólks sem starfar á vettvangi fullorðinsfræðslu til að tryggja góð tengsl ráðuneytis við það sem þar er að gerast.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að einnig verði skipuð fastanefnd um almenna fullorðinsfræðslu sem verði menntmrn. og fræðsluaðilum til ráðuneytis og aðstoðar. Þetta er í samræmi við það sem lagt er til í frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu og felur í sér að á vegum hvors ráðuneytis, menntmrn. og félmrn., starfi sérstakir samstarfshópar um hvort fræðslusvið fyrir sig. Gert er ráð fyrir að fjórir af fimm nefndarmönnum eigi jafnframt sæti í fullorðinsfræðsluráði.
    Annað mikilvægt atriði í þessu frv. er það ákvæði 11. gr. sem fjallar um stofnun menntunarsjóðs fullorðinna. Til sjóðsins renni framlög úr ríkissjóði ásamt öðrum tekjum sem sjóðnum er heimilt að afla sér með útgáfu og fleiru. Úr menntunarsjóði fullorðinna er ætlað að fé renni fyrst og fremst til þeirra sem sjá um og skipuleggja fullorðinsfræðslu, en sjóðnum er einnig ætlað að veita fé til þróunarstarfs, skipulags - og undirbúningsvinnu, samningar og útgáfu námsefnis og til greiðslu stjórnunar - og kennslukostnaðar. Stefnt er að því við úthlutun úr menntunarsjóði þessum að veita megi tiltekinni menntun forgang. Þetta er til þess að veita megi þeim sem minnstrar menntunar hafa notið greiðari leið að nýrri þekkingu. Markmið með styrkveitingunum er að stuðla að fjölbreyttu framboði á sviði fullorðinsfræðslu, draga úr kostnaði nemandans við námið og stuðla að því að jafna aðstöðu fullorðinna er hug hafa á skemmra eða lengra námi. Þá er gert ráð fyrir að veita styrki til þróunarverkefna og

námsgagnagerðar, en oft skortir talsvert á að fræðsluaðilar hafi nauðsynlegt bolmagn til slíkra verkefna.
    Af öðrum greinum frv. þessa, virðulegi forseti, má nefna að taka skal tillit til sérþarfa þeirra sem vegna frávika frá eðlilegu þroskaferli eða vegna sjúkdóms eða hvers konar fötlunar geta ekki notið venjulegrar fræðsluskipunar. Einnig eru ákvæði um ábyrgð fræðsluaðila á þeirri fræðslu sem hann býður, en nauðsynlegt er að þessi ábyrgð fari ekki á milli mála, ekki síst til þess að nemandi geti reitt sig á að það nám er hann sækir sé metið í skólakerfinu eða sé nokkurs virði á vinnumarkaði en mjög hefur skort á það í þessum efnum eins og kunnugt er. Ýmis ákvæði lagafrv. þessa verða útfærð nánar í reglugerð svo sem venja er, en einnig er gert ráð fyrir því í frv. að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en að fjórum árum liðnum þar sem hér er að ýmsu leyti um að ræða nýtt viðfangsefni.
    Á sl. ári, 1990, var stofnuð fullorðinsfræðsludeild í menntmrn. Deildinni er m.a. ætlað að vera samtengjandi og ráðgefandi aðili á sviði fullorðinsfræðslu og afla og miðla upplýsingum um stöðu fullorðinsfræðslunnar. Á síðasta ári var gerð athyglisverð könnun á þátttöku í fullorðinsfræðslu á Íslandi. Samkvæmt henni er áætlað að um 30% fullorðinna á aldrinum 19 -- 75 ára hafi á árinu 1989 sótt einhverja fræðslu og þjálfun. Þessi þátttaka skiptist að mestu til helminga á milli almennrar fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar í atvinnulífinu. Athyglisvert er að huga að kynjaskiptingunni eftir því um hvers konar nám er að ræða. Áberandi er hve miklu fleiri konur en karlar sækja öldungadeildir framhaldsskólanna, tómstunda - , bréfa - og tungumálanám. Karlar virðast hins vegar hafa vinninginn þegar um er að ræða svokallaða starfstengda endurmenntun. Þetta endurspeglar þann mun sem er á stöðu kynjanna í menntunarlegu og atvinnulegu tilliti.
    Ráðuneytið hefur nú nýlega hafið útgáfu fréttabréfs um fullorðinsfræðslu sem ég vænti að hafi borið fyrir augu einhverra þingmanna. Einnig hefur verið gefinn út auglýsingabæklingur um fullorðinsfræðslu sem hefur að geyma upplýsingar um fræðsluaðila og það nám sem þeir bjóða upp á. Þróunarstarf innan fullorðinsfræðslu er einnig þegar hafið hér á landi í samstarfi við aðila á Austurlandi og á Vestfjörðum.
    Á síðasta ári var skipuð ný framkvæmdanefnd um fjarkennslu. Hefur nefndin veitt marga styrki til námsefnisgerðar fyrir fjarkennslu og haldið námskeið fyrir kennara. Á vorönn gerir Menntaskólinn á Egilsstöðum tilraun með nokkra námsáfanga framhaldsskóla í fjarkennslu. Áhugi á þessari tilraun var mikill og komust mikið færri að en vildu. Í fjarkennslunni er megináherslan lögð á að veita nemendum, sem ekki geta komið reglulega til skólans, meiri aðstoð en hingað til hefur verið gert. Fá nemendur ýmis verkefni og kennslubréf sem þeir senda til skólans og fá viðbrögð við. Kennari hefur fastan símaviðtalstíma, kennari safnar nemendum saman í skólanum tvisvar til þrisvar á önn, myndaðir eru sjálfsnámshópar og fleira. Lögð er áhersla á að framhaldsskóli á viðkomandi svæði verði ásamt grunnskólum nokkurs konar þjónustumiðstöð.
    Að lokum vil ég, virðulegi forseti, vekja athygli á farskólunum sem stofnaðir hafa verið að undanförnu í tengslum við sex framhaldsskóla úti á landi. Þessir skólar miðla ýmsum námskeiðum fyrir fullorðna þar sem þörf er hverju sinni og þróa námskeið ef ekki er neitt í boði sem hentar. Þessir skólar hafa þegar sannað gildi sitt og munu án efa verða mikil lyftistöng fyrir fullorðinsfræðslu á landsbyggðinni.
    Með þessum orðum hef ég, virðulegi forseti, gert grein fyrir efni þessa frv., svo og rakið það sem í gangi er í fullorðinsfræðslumálum nú þegar á vegum ráðuneytisins. Ég vænti þess að öðru leyti að frv. skýri það sem skýra þarf, taki á máli sem snertir þegar geysilegan fjölda manna, eða sennilega um 15% alls fólks í landinu sem er á vinnumarkaði á aldrinum 19 -- 75 ára. Ég tel að afgreiðsla á þessu máli sé mjög mikilvægur þáttur í því að þróa skólakerfið á Íslandi. Það á eftir að breytast mjög mikið. Fólk er nú orðið lengi í skóla. Breytingin á eftir að verða sú, og fyrr en seinna, að fólk verður skemur í skóla fram eftir ævinni en verið hefur um skeið, en fer oftar inn í skóla í alls konar þjálfun og endurmenntun síðar á lífsleiðinni, að menn verði að læra allt lífið, eins og það hefur stundum verið kallað. Frv. til laga um fullorðinsfræðslu er liður í að koma til móts við þennan nýja veruleika.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.