Starfsmenntun í atvinnulífinu
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir meginefni þess frv. sem hér er til umræðu. Það hljóta allir að taka undir það sem stendur í 1. gr. frv., þar sem er talað um markmiðið, að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífi í þeim tilgangi að --- og svo er þar talið upp: auka framleiðni, bæta gæði vöru og þjónustu, stuðla að bættri verkkunnáttu, aukinni hæfni starfsmanna og m.a. er talað þar um að mæta þörfum starfshópa sem missa vinnuna. Þetta eru allt mjög mikilvæg atriði og get ég í meginatriðum tekið undir það sem fram kom í máli hæstv. félmrh.
    Það eru þó nokkur atriði, sem kannski koma ekki beinlínis efni þessa frv. við en eru þó mjög veigamikil atriði, sem ég get alls ekki fallist á. Það er 4. gr. frv. Þar segir að starfsmenntun í atvinnulífinu skuli heyra undir félmrn. að undantekinni fiskvinnslunni sem á að heyra undir sjútvrn. Ég tel að það eigi almennt að gilda að öll menntun, líka starfsmenntun í atvinnulífi, heyri undir menntmrn.
    Ég vil sérstaklega benda á 15. gr. frv. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, er hægt að fá metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum sem þar um gilda af hálfu menntmrn.`` Mér finnst mjög óeðlilegt að menntunin í landinu skuli vera undir hinum ýmsu ráðuneytum og vil nú spyrja hvort menntmrh. telji þetta fyrirkomulag eðlilegt. Hann er að vísu ekki hér inni nú en væntanlega getur hann gefið svör við þessu ef hann má heyra mál mitt eða er hér einhvers staðar nálægt. Mér þykir þetta mjög óeðlilegt og vil benda á að á síðasta þingi held ég, frekar en á þinginu þar á undan, voru samþykkt lög um Félagsmálaskóla alþýðu sem var mjög mikið framfaramál fyrir þann skóla. Þar var þó einn mjög stór galli á og það var að hann heyrði ekki undir menntmrn. Við kvennalistakonur fluttum brtt. á sínum tíma sem því miður voru ekki samþykktar þar sem við töldum miklu eðlilegra að sú menntun mundi einnig heyra undir menntmrn. Ég vil í því sambandi benda á að Danir hafa ekki góða reynslu af því að láta félagsmálaskóla sinn heyra undir félagsmálaráðuneytið. Þeir eru að reyna að breyta því og kannski er nú þegar búið að því, breyta því á þann veg að hann heyri undir menntamálaráðuneytið. Fólk sem fer í starfsmenntun sem m.a. fellur undir Félagsmálaskóla alþýðu á miklu auðveldara með að fá það viðurkennt í hinu almenna skólakerfi ef það heyrir undir sama ráðuneyti og aðrir skólar. Mér finnst þetta atriði í frv. alls ekki ganga. Og af því að hæstv. menntmrh. er hér kominn í salinn, þá langar mig til að bera undir hann 4. og 15. gr. þessa frv. ef hann vildi vera svo góður og svara því. Og kannski ekki síst með tilliti til þess sem hér gerðist fyrr á fundinum en þá mælti hæstv. menntmrh. fyrir frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu.
    Ég hafði kvatt mér hljóðs um það frv. og ætla einmitt að benda á að ég teldi það einn af göllum þess frv. að ekki skyldi vera fjallað um starfsmenntun. Nú er það frv. ekki til umræðu og það er dálítið erfitt að fá ekki að ræða frv. strax eftir framsöguræðu hæstv. menntmrh. En það er ekki hægt annað en bera saman þessi tvö frv. og harma að ekki skyldi vera hægt að fella þau saman og setja starfsmenntun í atvinnulífinu inn í frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Því vil ég gera þessa athugasemd við 1. umr. sem ég tel mikilvæga og vil mælast til þess að þarna verði reynt að bæta aðeins um, fólkinu sem fer í starfsmenntun til hagsbóta. Ég tel einnig að starfsfræðsla í fiskvinnslu eigi að heyra undir menntmrn. en ekki sjútvrn. Hér er nú einnig staddur hæstv. sjútvrh. en ég ætla mér ekki við þessa umræðu að gera frekari athugasemdir við frv.
    Að vísu langar mig til að bera fram eina spurningu við 8. gr. Það er um ráðstöfunarfé starfsmenntaráðs sem skal ákveðið í fjárlögum og ráðstafað í sérstakan sjóð. Ég heyrði ekki að hæstv. félmrh. nefndi hversu há upphæð væri áætluð í þetta og hvort gert er ráð fyrir því á fjárlögum þessa árs. Það getur verið að ég hafi ekki heyrt nákvæmlega þegar farið var í þessa grein. En ég varð ekki vör við að minnst væri á hve mikið væri áætlað fyrir 8. gr. þessa frv.
    Þetta eru einungis örfáar athugasemdir, virðulegi forseti, og ég reikna með að ég fái þá tækifæri þegar við ræðum um frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu til þess að ræða frekar um það frv. þegar það kemur á dagskrá aftur.