Starfsmenntun í atvinnulífinu
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. skýrði að nokkru leyti ástæðuna fyrir því að lagt er til með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félmrn. Á það hefur verið lögð mikil áhersla af aðilum vinnumarkaðarins, bæði ASÍ og VSÍ, að málin væru með þessum hætti í stjórnkerfinu og er það til samræmis við það sem gerist og gengur í löndunum í kringum okkur að það eru ráðuneyti vinnumarkaðsmála sem hafa á hendi þennan málaflokk. Löggjöf sem alls staðar hefur verið sett í kringum okkur um þetta mikilvæga mál heyrir undir það ráðuneyti sem fer með vinnumarkaðsmál. Á þetta hefur ASÍ ítrekað lagt áherslu, bæði miðstjórn ASÍ og eins hefur verið ályktað á þingum ASÍ um að málin skipuðust með þessum hætti. Sama gildir með Félagsmálaskóla alþýðu sem hv. ræðumaður nefndi. Vil ég benda hv. þm. á fskj. I, sem ég sé ekki ástæðu til þess að lesa, en er á bls. 12 í þessu frv. þar sem fram kemur niðurstaða úr þeim viðræðum sem fulltrúar félmrn. og menntmrn. áttu í varðandi þetta mál og rökin fyrir því af hverju lagt er til að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félmrn.
    Varðandi fyrirspurnina um hve miklu fjármagni verði varið til þess á fjárlögum, þá er þetta eins og þar segir í 8. gr. að ráðstöfunarfé sem rynni til þessara verkefna verði ákveðið á fjárlögum hverju sinni og ráðstafað í sérstakan sjóð. Það er þá auðvitað Alþingis og fjárveitingavaldsins að taka ákvörðun um það á hverjum tíma hve miklu fjármagni er veitt í þennan mikilvæga málaflokk á hverjum tíma.
    Það er ljóst eins og fram kom í minni framsögu að ég tel allt of litlu fjármagni varið í þennan málaflokk, sérstaklega það fjármagn sem rennur til starfsmenntunar ófaglærðs fólks í þessu landi. Gegnum sjútvrn. fer núna að mig minnir nálægt 50 millj. kr. í starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar til starfsmenntunar fyrir fiskvinnslufólk og á fjárlagalið félmrn. eru í ár um 15 millj. kr. Það er auðvitað ljóst að það er allt of lítið fjármagn. Vonandi verður löggjöf til þess að auka fjárveitingar í þennan málaflokk verði þetta frv. að lögum.