Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þó ég taki til máls við umræðu um stjfrv. um grunnskólann er það ekki svo að ég hafi hugsað mér að fjalla um hinar ýmsu greinar þess ágæta frv. heldur fyrst og fremst að koma hér og fara nokkrum orðum um áherslur vegna þeirra orða sem féllu í ræðu hv. 12. þm. Reykv. um athugasemd þingmanns Alþfl. og orð hv. þm. um forgangsröð. Það er nefnilega þannig að við erum að tala um lagasetningu á Alþingi ýmist um skóla, leikskóla eða aðra þætti sem heyra undir sveitarfélögin og verkefni sveitarfélaga. Ég get ekki stillt mig um það þar sem ég með svo góðu móti get vísað í áherslur Alþfl., þar sem hann á þátt í stjórn eða hefur setið einn við stjórnvölinn í sveitarfélögum, hvernig hann hefur tekið á þeim verkefnum sem snúa t.d. að grunnskólanum.
    Hvað varðar grunnskólann er sveitarfélögunum nú ætlað að byggja skólana en ríkið greiðir laun kennara. Áherslur sveitarfélaga birtast kannski fyrst og fremst í því hversu ötullega þau byggja upp, hversu fljótt þau stuðla að því að skóli verði samfelldur, að ég tali ekki um einsetinn, og síðan hvaða aðra rekstrarþætti sveitarfélagið leggur áherslu á og hrindir í framkvæmd heima fyrir.
    Stundum hef ég rekið mig á það að það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að t.d. sé munur á því að skóli sé samfelldur og einsetinn. Skóli getur verið samfelldur en þó erum við að senda börnin okkar í skólann frá því mjög snemma á morgnana til seint á daginn vegna þess að það eru kannski, við getum notað orðalagið þrjú ,,holl`` sem nota sömu stofu. En þegar við tölum um einsetinn skóla ætlumst við til að börnin okkar mæti þar snemma á morgnana, séu í samfellu í skólanum, fái íþróttakennslu, svo sem leikfimi og sund, og heimilisfræðslu í samfellu við aðra bóklega þætti skólans og að þeim sé boðið upp á létta máltíð í skólanum, að ég tali nú ekki um önnur þýðingarmikil úrræði sem þörf er á í okkar nútímaþjóðfélagi.
    Alla þessa þætti hefur Alþfl. lagt ríkulega áherslu á. Ekki bara í orði, ekki bara í stefnuskrá, ekki bara í málatilbúnaði í sveitarstjórn, heldur þar sem hann hefur haft tækifæri til þess að láta verkin tala. Það hefur verið lögð gífurleg áhersla á það að byggja upp skólahúsnæði á vegum þeirra sveitarfélaga þar sem hann hefur verið við stjórnvölinn og bendi ég nú síðast á t.d. að í Hafnarfirði var reistur skóli á Hvaleyrarholti áður en byggð reis og var kominn þegar börnin mættu. Voru því gerð mjög góð skil t.d. af fjölmiðlum.
    Í Kópavogi, þar sem Alþfl. hefur lagt miklar félagslegar áherslur og átt þátt í uppbyggingu skólamála svo sem annarra mála um tíu ára skeið, hefur verið unnið brautryðjendastarf í þessum efnum. Þar hefur verið reynt að hafa skólann eins samfelldan og unnt er þar sem hann er ekki einsetinn og boðið er upp á léttar máltíðir í hér um bil öllum skólum bæjarins. Síðast held ég að hafi skort á að það væri fyrir öll börn í einum skólanna. Það hefur verið boðið

upp á athvarf í skólum þar sem í tveimur skólanna var reynt að verða við því að börn gætu verið eftir skólann og lært heimanámið undir leiðsögn kennara. Og í austasta skólanum okkar, Hjallaskóla, var meira að segja gerð tilraun með svokallað lyklabarnaathvarf sem þótti alveg til fyrirmyndar.
    Ég er ekki að segja þetta í neinni vörn. Ég er að segja þetta af því að það er alveg rétt sem hv. 12. þm. Reykv. benti á, málið snýst um áherslur. En það snýst því miður líka um fjármagn og sveitarfélag sem lengi er búið að leggja áherslu á félagslega uppbyggingu stendur frammi fyrir því einn góðan veðurdag að tekjur sveitarfélagsins fara nánast allar í rekstur. Það er sú sorglega staðreynd sem við komum alltaf að einn góðan veðurdag, þegar við erum búin að byggja vel upp. Og eins og ég benti hér á í umræðu um félagsþjónustu sveitarfélaga er það t.d. þannig með leikskólann að það er viðurkennd staðreynd að í rekstur á u.þ.b. þremur árum fer sama fjármagn og kostar að byggja eitt stykki leikskóla. Það er nokkurn veginn þumalfingursregla.
    Það sem við erum að gera á Alþingi er að við erum að setja lög og segja hvað við viljum gera. Sumt höfum við í hendi okkar, annað ekki. Í sumum tilfellum erum við að setja lög þar sem við segjum: Sveitarfélögin eiga að gera þetta og þetta og þetta.
    En það sem sveitarfélögin gagnrýna og þeir sem þekkja störfin þar er að stundum eru þeim fengin verkefni án þess að þeim séu fengnir tekjustofnar og án þess að litið sé á hvað þessi verkefni kosta og hvort þeim sé þetta kleift.
    Ég hef manna mest í gegnum árin talað um áherslur og ég skal aldrei víkja frá því að það er það sem máli skiptir. Það sem skiptir mestu máli er að leggja áherslur og að þær séu á hinum félagslega væng, á fjölskylduvæng. Þeir sem taka höndum saman um þær áherslur ná árangri. En þeim verður að vera gert það kleift og það þýðir ekkert fyrir fólk í sveitarfélögum að taka höndum saman ef síðan kemur einhvers staðar ofan frá tilskipun sem því er ekki kleift að framfylgja. Það þýðir ekkert. Þegar bent hefur verið á það, með réttu eða röngu, að e.t.v. sé verið að fá sveitarfélögunum of ströng verkefni samkvæmt frv. eins og grunnskólafrv. án þess að það liggi fyrir hvort þeim sé það mögulegt miðað við þá tekjustofna, miðað við það fjármagn sem þau hafa og önnur verkefni sem þeim er gert að vinna, þá finnst mér það ómaklegt ef slík varúðarorð og ábendingar um að e.t.v. skorti á að nægilegar upplýsingar séu um að kostnaður sé ekki meiri en um er rætt, að þar með sé sett það jafnaðarmerki að þessi ábending þýði skort á réttum áherslum.
    Eins og ég sagði, virðulegi forseti, fjallar þessi ræða mín ekki um vörn. Hún á miklu fremur að fjalla um og undirstrika þær áherslur sem Alþfl. leggur og hefur lagt hvarvetna þar sem hann hefur fengið tækifæri til að velja þetta verkefni eða hitt og stundum legið undir ámæli um að það hafi skort svolítið lengi á hitt. Við það er minn flokkur ekki hræddur, en hann er heldur ekki feiminn við að benda á það ef hann

óttast að verið sé að setja verkefni á blað, góðan vilja á blað, góða stefnu á blað sem e.t.v. verði ekki hægt að framfylgja. Það vona ég að þessi flokkur þori að gera áfram.