Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég held að það geti ekki verið mikill ágreiningur milli hv. þm. um það að stefnan um einsetinn skóla og skólamáltíðir er það sem verður að koma. Það er orðið breyting á okkar þjóðfélagi. Foreldrar barnanna þurfa bæði að vinna úti og það er eðlileg og sjálfsögð krafa að því verði komið þannig fyrir, eins og er í öðrum löndum, að börnin geti fengið hádegisverð í skólanum. En málið er kannski ekki svona einfalt. Ég er að einu leyti sammála hv. þm. Árna Gunnarssyni, að mörg sveitarfélög eru þannig í stakk búin að þau hafa ekki í dag fjármuni til þess að standa við þær skuldbindingar sem löggjafinn setur á þau og íbúarnir krefjast hvað snertir þjónustu. Aðeins eitt sveitarfélag hefur nóga peninga. Eitt sveitarfélag sem hefur um 30% meira að meðaltali en öll önnur á hvern íbúa og þarna verður bara að vera tilfærsla. Það er það sem þarf. Það er eina lausnin á þessu máli að þarna fari fram tilfærsla.
    Menn eru að tala um jafnrétti. Menn eru að tala um réttlæti. Hvar er þetta réttlæti? Hvar sést það? Það er réttlæti að börn búi við sömu aðstöðu hvar sem þau búa. Ef við erum sammála því, þá verður bara að gera ráðstafanir til þess að framkvæma það því að við höfum ekki ráð á öðru. Það er málið. Við höfum bara ekki ráð á öðru.