Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég vil fyrst greina frá því að ég kveð mér hljóðs aðallega vegna orða hv. 12. þm. Reykv. Þau ollu mér satt að segja miklum vonbrigðum af þremur ástæðum, þar sem fram komu rangar forsendur. Ég vona að þetta séu ekki forsendur Kvennalistans sem hv. þm. Kvennalistans er svo tíðrætt um, ,,þeirra eigin forsendur``. Ef þær eru svona þá er nú ekki von að fylgi Kvennalistans vaxi hröðum skrefum þessa dagana. Hv. þm. lét það fram koma í ræðu sinni í fyrsta lagi að þingmenn Sjálfstfl. legðust gegn þessu frv. Þetta er rangt. Ég hygg að við höfum öll tekið fram að nokkur meginatriði í þessu frv. séu fyllilega í samræmi við okkar stefnu og raunar sams konar og í frumvörpum sem við sjálf höfum flutt hér á þinginu. Við höfum hins vegar lagt til að þetta mál sé athugað betur til þess að tryggja framkvæmd þess. Hitt er annað mál að einstakar afmarkaðar greinar í þessu frv. eru öðruvísi en við hefðum viljað. En það þýðir ekki það sama og að leggjast gegn frv. Þetta var það fyrsta sem rangt var.
    Í öðru lagi kom það fram í fyrri ræðu hv. þm. hér í dag að hún teldi það almenna ávirðingu Sjálfstfl. og að ég held hæstv. forseta þessarar deildar að við álitum alla hluti of dýra þegar kæmi að skólamálum. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að við teldum frv. of dýrt. Þetta er rangt. Við höfum ekki sagt að það sé of dýrt. Við höfum sagt að það sé ekki fyrir því séð hvernig á að framkvæma það og hvenær, hvernig áföngum verði skipt.
    Þegar við sjálf fluttum frv. um þetta efni, þá hefur það áreiðanlega kostað a.m.k. jafnmikið og þetta frv. þegar á allt var litið, en með því fylgdi allnákvæm áætlun um áfangaskiptingu og hvað skyldi gerast í hverjum áfanga. Við teljum eins og nú er komið málum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga það vera jafnréttisatriði, bæði fyrir börnin og fyrir þá sem hafa skyldum að gegna samkvæmt þessum lögum að eitthvert samkomulag liggi fyrir og einhver fyrirgreiðsla við þau sveitarfélög sem þyngsta bera baggana út af framkvæmd þessa máls. Allir vilja geta leyst þetta. Sumir geta það ekki. Og þess vegna er það enn eitt atriði, þriðja atriðið sem fram kom í máli hv. þm., að í viðhorfi okkar sem teldum að það skipti máli að það lægi fyrir hvernig sveitarfélögin ættu að greiða þann kostnað sem hlytist af því að framkvæma þetta annars ágæta frv., fælist í raun og veru hætta á að stuðlað væri að misrétti nemenda, við vildum ýta undir mismunun og rekin væri stefna sem byggðist á því að gert væri ráð fyrir misrétti nemenda.
    Ég vil vísa þessu á bug og get nú ekki tekið við ásökunum af þessu tagi. Ég bið hv. þm. að lesa 1. gr. þessa frv. sem hv. þm. telur á allan hátt ágætt vera hvort sem það kostar eitthvað eða ekki. Það er yfirleitt ekki áhyggjuefni hv. þm. Kvennalistans þegar um er að ræða mál sem fela í sér fagrar yfirlýsingar þó að það sé ljóst og liggi fyrir að ekki ein einasta króna fylgi frv. Ég vil ekki fara út í það að ræða einstök önnur mál en við höfum rétt nýlega afgreitt hér úr

deildinni mál af því tagi. Í þessu máli liggur það fyrir að það er ekki nægilega skýr áætlun og þar liggur ekkert fyrir um sérstakt samkomulag við sveitarfélögin um þetta efni. En allt að einu gerist það hvað eftir annað að hv. þm. Kvennalistans haga sér ekki í samræmi við hugarfar hinnar hagsýnu húsmóður sem skilur það að peningar vaxa ekki á trjágreinum, heldur telja þær sjálfsagt að ýta áfram lagafrv. sem fela í raun og veru í sér blekkingu. Þegar um er að ræða lagafrv. sem kosta milljarða en ekkert liggur fyrir um það hvernig og hvenær á að borga þá milljarða, þá er verið að byggja upp blekkingar. Það er verið að setja upp pótemkintjöld sem eiga að vera tilbúin fyrir kosningar.
    Ég skil ekki af hverju hv. 12. þm. Reykv. einbeitti sér svo að því að hlaða einhverjum ásökunum nánast á sjálfstæðismenn að þessu leyti til. Ég veit ekki betur en að Sjálfstfl. hafi barist fyrir þeim málum sem þetta frv. á fyrst og fremst að fjalla um, en það má vera að hv. þm. geri þetta kannski af einhverjum gömlum vana að telja Sjálfstfl. sinn höfuðandstæðing og svo hljóti að vera í þessu máli sem öðrum. Það er auðvitað hennar mál. En þrjú meginatriði í máli hennar voru alfarið röng og eftir að hv. þm. var bent á það steig hún hér í ræðustól og endurtók þær hinar sömu fullyrðingar sem allar voru rangar.
    Þetta gat ég ekki látið hjá líða að segja því mér leiðist það þegar fólk sem er skynsamt og vel að sér og að því er ég tel velviljað, lætur annað eins frá sér fara og engin ástæða til þess að taka því þegjandi.
    Hitt þykir mér langtum skynsamlegra ef við raunverulega viljum bæta réttarstöðu barna í þessu landi, auka réttindi þeirra til sem allra bestrar skólaþjónustu og jafnrétti heimila um land allt, þá er það auðvitað miklu nær því að bera einhvern árangur að gera kröfu um það að fyrir liggi áætlanir um hvernig og hvenær framkvæma beri málið. En hæstv. ráðherra kemur og segir: ,,Af þessu þurfið þið ekki að hafa áhyggjur, hverju sveitarfélagi er þetta í sjálfsvald sett.`` Ég spyr: Til hvers eru þá lögin? Til hvers er verið að samþykkja þetta frv. ef svo er bara rétt sama hvað gerist í raun, ef sveitarfélögin geta bara alveg ráðið því hvenær þau framkvæma þetta? Er þá ekki verið að fella skyldu á neinn með þessu frv.? Hvaða yfirlýsingaskrá er þá þetta frv.? Hæstv. ráðherra sagði að það væri mannréttindaskrá barnanna. Það eru til ýmsar mannréttindaskrár barna í veröldinni, bæði sem við erum aðilar að og hafa tekið gildi hér á landi, sem ekki hefur verið kannski nægilega sinnt. Og ef við viljum sinna þessu almennilega þá ættum við að sjá til þess að það væri hægt að greiða það fé sem þarf til að uppfylla markmiðin sem sett eru fram í þessu frv., annars kemur sú réttindaskrá fyrir lítið. Og það er eitt höfuðeinkenni á lögum á Íslandi --- það er nefnilega þannig þjóðfélag sem við búum við að við viljum hafa lög sem eru framkvæmd og eru skýr og við vitum hvað fela í sér og hvað á að framkvæma, hver á að framkvæma og hvenær. En hæstv. ráðherra sagði: ,,Auðvitað er það misjafnt hvað sveitarfélögin geta gert. Í fyrsta lagi eru þau misjafnlega öflug.``

Þetta þýðir með öðrum orðum að það mismunar börnum eftir því hvort þau koma úr öflugu sveitarfélagi eða vanmegnugu. Auðvitað er það þá í raun mismunur á möguleikum barna ef slíku er kastað fram til þess að sveitarfélögin framkvæmi eftir getu sinni, og, hæstv. ráðherra, já, sveitarfélögin eru mismunandi sterk. Og ekki nóg með það, sveitarfélögunum er það í sjálfsvald sett hvenær þau framkvæma aðalatriði þessa máls, ja, á tíu árum er nefnt hér í frv., en þeim er í sjálfsvald sett hversu mikið er tekið í hverjum áfanga og hvenær.
    Ef mál af þessu tagi, þ.e. sem meðhöndlar aðalatriðin svona, er ekki ófullgert mál þá veit ég ekki alveg hvaða viðhorf eru farin að ríkja hér í afgreiðslu mála á hv. Alþingi. Ég held að það sé alveg ljóst að það skiptir miklu máli að meginmarkmið þessa frv. hafa fengið stuðning allra sem um málið hafa talað. Þess vegna er það mjög mikilvægt veganesti ef samþykkt verður tillagan um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar þannig að unnt sé að skoða ákvæðin betur og í samráði við þá sem framkvæma eiga málið.
    Og það eru raunar fleiri þættir sem ég vil aðeins rifja upp, sem þarf að skoða, ekki aðeins kostnaðarhlutinn. Ég hafði minnst á nokkur atriði í fyrri ræðu minni. Ég vil minna aftur á að það er ýmislegt óljóst að því er heilbrigðisþáttinn varðar í skólunum. Nefndinni bárust athugasemdir frá skólayfirlækni sem enn hafa ekki verið teknar til greina að öllu leyti. Þær athugasemdir bárust eftir að meiri hl. nefndarinnar hafði gert sínar brtt. og það hefði verið nauðsynlegt að taka þann þátt frv. betur til skoðunar. Enn fremur er eitt enn sem ég vil nefna, aðeins til að menn viti að hverju þeir eru að ganga eða muni það. Það er eitt sem heldur ekki stenst fyllilega miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um lengingu skólatíma. Það er nokkur blekking fólgin í því að tala um það almennum orðum að skólatíminn sé yfirleitt lengdur því að í þeim mikla hraða sem var á afgreiðslu málsins í nefnd hafa menn e.t.v. ekki skoðað það nægilega vel að í sjálfri greinargerð frv. á bls. 32 er skilmerkilega greint frá því hvernig kennslustundafjöldinn breytist frá núgildandi lögum og í hámarksfjölda kennslustunda sem leyfður er miðað við frv. Þá kemur í ljós hvorki meira né minna en þetta: Að í 7. bekk grunnskólans, þ.e. hjá 12 ára börnum, er hámark frv. jafnhátt og það sem leyft er í grunnskólalögum en þó er einni stund fleira leyft í núgildandi lögum vegna þess að í skólasafninu gat verið um eina stund til viðbótar að ræða. Og það sama gilti einnig um 8., 9. og 10. bekk en þar er ástandið þannig að í stað 36 -- 37 stunda sem nú eru leyfðar plús ein og plús ein enn í skólasafninu, gæti farið upp í 39, þá er samkvæmt frv. 35. Og sama tala um 14 ára, þ.e. 9. bekk. Samkvæmt núgildandi lögum eru 36 -- 37 stundir plús ein og síðan stundin í skólabókasafninu. Núna eru þessar aukastundir líka felldar niður eða heimildin til þeirra þannig að það eru einungis 35. Og í 10. bekk er það sama upp á teningnum og þar líka farið ofan í 35. Þannig að nemendur þessara þriggja bekkja geta, miðað við það sem nú er samkvæmt lögum leyft og möguleiki á viðbótarstundum, misst fjórar stundir. Hugsanlega geta þær komist upp í 39 þegar notuð er bæði ein stundin sem hefur verið í sundi eða slíku og svo í bókasafninu, og fer niður í 35. Þetta get ég nú ekki séð að horfi til mikils réttindaauka fyrir þessi börn eða bæti menntunina eða fræðsluna sem þau verða aðnjótandi.
    Mér virðist sem sagt að það séu þættir í þessu frv. sem þannig rekast á og standist ekki alveg miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar eru um innihald frv. Enn fremur virðist mér að staðreyndin um þessa fjóra síðustu bekki stangist líka á við niðurstöðu frægrar skýrslu OECD sem lagði einmitt áherslu á lengingu skólatíma.
    Hæstv. ráðherra minntist á það að greinin um einkaskóla væri óbreytt frá núgildandi lögum og benti þá á að nauðsynlegt væri í því sambandi að líta ekki einungis á grunnskólalögin heldur einnig á skólakostnaðarlögin.
    Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fara að ráðum hæstv. ráðherra og líta á skólakostnaðarlögin. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, um einkaskóla --- það er náttúrlega fyrir utan hina gömlu grein í grunnskólalögunum um einkaskóla samhljóða fyrra hluta þess orðalags sem er í þessari grein. Það er ekki tekið fram neitt um að ráðherra þurfi að samþykkja skólagjald, en hins vegar er tekið fram að ekki skuli einkaskólar eiga kröfu til styrks af almannafé. En það getur skert frelsi þeirra til starfs að ráðherra skuli þurfa að samþykkja skólagjaldið. Því að ef ráðherra samþykkir ekki skólagjaldið og skólinn á ekki kröfu til styrks af almannafé þá segir það sig auðvitað sjálft að skólinn getur ekki starfað. Því er það að ég fæ ekki séð að sú fullyrðing hæstv. ráðherra standist að þetta orðalag sé alveg óbreytt frá gildandi lögum og mér fannst nauðsynlegt að nefna það atriði vegna þeirrar staðhæfingar. Í skólakostnaðarlögunum er þetta ekki að því er varðar skóla sem ekki eru kostaðir af ríkinu. Það er rangt hjá hæstv. ráðherra.
    Meginatriðið er þetta: Eins og við sjálfstæðismenn höfum tekið fram, ég veit að það þýðir ekki að segja það við hv. 12. þm. Reykv. að við séum innilega sammála um nokkur meginatriði í þessu frv. en við höfum athugasemdir við ýmsar greinar þess að gera. Ef frv. ætti að afgreiðast núna, sem ég tel það ekki vera tilbúið til, viljum við fella niður síðari hluta greinarinnar um einkaskóla, þ.e. um skólagjaldið og ráðherra og fleiri atriði sem við nefndum í okkar umfjöllun, sem við töldum að betur mættu fara. Aukið væri sjálfstæði skólanna, aukin væru áhrif foreldra og stuðlað væri að og eflt frumkvæði kennara og nemenda sjálfra. Með öðrum orðum að allt það sem stuðlar að fjölbreytni, frelsi og frumkvæði manna á þessu sviði sé af því góða en menntmrn. hafi hins vegar fyrst og fremst í því sambandi þá skyldu að fylgjast með því að öll börn geti notið réttar síns til þess að fá tilskilda fræðslu. Með hvaða hætti þeirri fræðslu sé svo miðlað, hvaða aukanámsgögn séu notuð og ýmislegt fleira í þeim dúr, þar hafi skólinn mun meira frelsi heldur en hann hefur nú og heldur en hann hefur samkvæmt þessu frv.