Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Sólveig Pétursdóttir ):
    Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að teygja þessa umræðu í langan tíma þótt ég vildi koma að mörgum fleiri athugasemdum. En ég tel að hæstv. menntmrh. hafi ekki svarað öllum spurningum mínum hér áðan, ekki síst hvað snertir kostnað sveitarfélaganna samfara þessu frv. Það er hins vegar rétt að hv. menntmn. hafði undir höndum þá umsögn sem hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir hér áðan í sinni ræðu um ákveðinn kostnað og hann las hér orðrétt upp úr. En mig langar til að vitna aðeins frekar í þessa umsögn, sérstaklega lok hennar, þar sem talað er um ákveðnar upphæðir. Þar segir fyrst, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Frv. kveður einnig á um að allir grunnskólar skuli vera einsetnir og stefna skuli að því að nemendur í hverjum skóla skuli ekki vera fleiri en 650. Ráðgert er að þetta ákvæði laganna komi til framkvæmda á tíu árum. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur áður áætlað að stofnkostnaður sveitarfélaga vegna einsetningar og hámarksfjölda nemenda í hverjum skóla geti numið 2 -- 3 milljörðum kr. Það felur í sér skuldbindingar á hendur sveitarfélögum um að verja 250 -- 300 millj. kr. árlega á næstu tíu árum til byggingar grunnskóla.``
    Hér er einungis verið að ræða um byggingarkostnað. Fyrir nú utan það að ég tel að þessar tölur séu allmiklu hærri. Það er ekki verið að tala um ýmsa aðra kostnaðarliði sem eru samfara þessu frv. því þar er ekki einungis talað um að skólar eigi að vera einsetnir heldur er nú gert ráð fyrir því t.d. að það eigi að bjóða upp á skólamáltíðir. Það er vissulega rétt sem hæstv. menntmrh. greindi frá hér áðan að sú tillaga kom inn í meðförum nefndarinnar á þessu frv. Og þar var heldur ekkert staldrað við til þess að athuga hvaða kostnað gæti leitt af því máli. En svo ég vitni áfram í þessa umsögn frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, þá segir þar:
    ,,Þetta er lægri fjárhæð en ríkissjóður lagði fram á hverju ári til byggingar grunnskóla allt til ársins 1989. Frá ársbyrjun 1990 yfirtóku sveitarfélög alfarið byggingu grunnskóla með lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það virðist því ljóst að sveitarfélögin þurfi ekki að veita meira fjármagni til byggingar grunnskóla heldur en ráðgert hafði verið samkvæmt áætlunum um kostnaðarskiptingu vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar virðist full þörf á að endurskoða áætlanir um þörf fyrir aukið skólahúsnæði og aukinn rekstrarkostnað sveitarfélaga samfara því að allir grunnskólar verði einsetnir.
Hæstv. ráðherra las ekki upp þessa setningu hér áðan er hann vitnaði í þessa umsögn. Ég tel hins vegar að þar felist atriði sem ekki verður litið fram hjá og renni í raun og veru stoðum undir það álit mitt að hér sé um allmiklu meiri kostnað að ræða en gert hefur verið ráð fyrir.
    Ég tel líka rétt að ítreka það sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði áðan að það er furðulegt ef

þetta frv. á ekki að leggja neinar skyldur á sveitarfélögin því að þá hlýtur maður að velta fyrir sér til hvers frv. er fram lagt. Og það sem er kannski enn þá merkilegra að velta fyrir sér, er ef það er rétt að mati hæstv. ráðherra að ekki sé verið að leggja neinar skyldur á sveitarfélögin þá er þar með verið að stefna að mismunun gagnvart börnum. Þannig skildi ég orð hans. Hann leiðréttir mig þá ef það er ekki rétt. ( Menntmrh.: Enga útúrsnúninga.) Hæstv. menntmrh. Ég hef engan áhuga á að standa hér í ræðustól og vera með einhverja útúrsnúninga í þessu máli. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða en hins vegar hefði ráðherra kannski átt að leggja meiri áherslu á það að vanda til málsmeðferðar í þessu máli þannig að allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga hér á hinu háa Alþingi gætu verið sammála um að veita þessu máli brautargengi og þar með að bæta réttarstöðu barna í landinu.
    Hæstv. ráðherra nefndi það að grunnskólalög væru lög um lágmarksmenntun barna á ákveðnu aldursskeiði í fyrsta lagi. ( Menntmrh.: Lágmarksréttindi, sagði ég.) Lágmarksréttindi. Og í öðru lagi hvernig ætti að tryggja þessi réttindi. Viðvíkjandi því að þetta gæti komið misjafnlega við sveitarfélögin í landinu en börnin eiga þennan rétt og það eigi að vera sami réttur þeirra yfir allt landið. Þess vegna fæ ég ekki séð og kem því ekki heim og saman hvernig hægt er að standa að því að afgreiða frv. sem þetta án þess að tryggja að þessi réttur sé fyrir hendi, að það sé tryggt að þessi réttindi séu þau sömu. Þetta tel ég afar mikilvægt.
    Enn fremur minntist hæstv. ráðherra á það að á ráðstefnu menntamálaráðherra OECD - ríkjanna í haust hafi það komið fram að menn töldu afar mikilvægt að tryggja sjálfsforræði sveitarfélaganna gagnvart skólum og (Gripið fram í.) sjálfsforræði í skólum já, sveitarfélögunum, það hlýtur að vera eitt og það sama. En jafnframt þyrfti að tryggja jafnrétti nemenda. Ég hygg að þeir hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðum um þetta mál í dag og áður séu fyllilega sammála því markmiði. Í raun og veru er ekki verið að efast um góðan vilja ráðherra til þess að tryggja stöðu nemenda enn betur en er, en það þarf hins vegar að vera jafnljóst að það er ekki hægt að líta fram hjá þeim athugasemdum sem hér hafa verið gerðar, ekki einungis um kostnað heldur um mörg önnur atriði.
    Varðandi þennan kostnaðarauka ríkissjóðs t.d., sem talað hefur verið um, sem er nú öllu hærri í umsögn frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun en í plaggi sem ég hef fengið sem nefndarmaður í hv. menntmn., dags. 12. febr. sl. Í þessari umsögn frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun er talað um 260 millj. kr. Þessi kostnaðarauki ríkissjóðs á að dreifast á fimm ár ef ég skil orð hæstv. ráðherra rétt. Það má vel vera að þessi fjárhæð komi ekki að fullu til framkvæmda á fyrstu árum, en hitt er engu að síður staðreynd að þessi kostnaður verður til staðar og verður árlega þannig að það þarf líka að athuga það mál.
    Ég hef gert margar athugasemdir við þetta frv., virðulegi forseti. Ég vil einungis ítreka þær, en jafnframt tel ég þörf á að ítreka þá skoðun okkar Ragnhildar Helgadóttur sem mælum fyrir minnihlutaáliti frá hv. menntmn. að því miður sé full þörf á að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það sé skoðað að nýju þar sem við teljum ekki raunhæft að það sé afgreitt sem lög frá þessu þingi því ekki sé hægt að tryggja framkvæmd þess hér og nú.