Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við það að undirrita nál. það sem hefur verið mælt fyrir rétt í þessu. Þetta frv. er komið til umfjöllunar inn á Alþingi vegna máls sem umboðsmaður Alþingis tók upp á sínum tíma og snertir einangrun eða refsingar sem viðhafðar eru í fangelsum landsins. Hér er verið að tryggja það að einangrun eða aðrar refsingar lengi ekki fangavist sem einangrunartíma nemur. Það er í raun og veru spurning í mínum huga hvort þörf sé á að flytja frv. um það sem ætti að vera sjálfsagt. Það er ljóst samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis að hér er um mannréttindabrot að ræða þegar verið er að dæma annars staðar en fyrir dómstólum um lengri refsivist vegna hegðunar í fangelsum landsins.
    Hér er aðeins verið að taka á einum þætti fangelsismála. Þau hafa verið nokkuð í brennidepli á
undanförnum mánuðum og það er ljóst að á sviði fangelsismálanna er ýmissa úrbóta þörf. Ég vil minna á að þingkonur Kvennalistans hafa flutt þáltill. á þessu þingi um að gerð verði heildarúttekt á stöðu fangelsismála og æskilega framtíðarskipan þeirra.
    Það er auðvitað ljóst að það er mikið neyðarúrræði að svipta fólk frelsi sínu og enn þá meira neyðarúrræði hlýtur að vera fyrir stjórnendur í fangelsum landsins að þurfa að grípa til refsinga af því tagi sem eru taldar upp í þessu frv. Með lögum sem samþykkt voru 1988 var sett á laggirnar Fangelsismálastofnun ríkisins en hlutverk hennar er að hafa yfirstjórn á daglegum rekstri allra fangelsa í landinu. Það er skoðun mín og reyndar fleiri í hv. allshn. að þegar viðurlögum af því tagi sem hér er talað um er beitt skuli það ekki gert án samráðs við Fangelsismálastofnun, sem hefur yfirumsjón með daglegum rekstri fangelsanna. Það er ekki síst til þess að tryggja samræmda meðferð þessara mála í fangelsum landsins að við vildum sjá það tryggt að allar slíkar ákvarðanir væru teknar í samráði við Fangelsismálastofnun. Á vegum Fangelsismálastofnunar starfa sálfræðingar, félagsráðgjafar og afbrotafræðingar og þeir þekkja flesta þá sem í fangelsum landsins dvelja, þekkja vandamál þeirra og hegðun. Ég hefði því talið að nauðsynlegt væri að hafa Fangelsismálastofnun með í ráðum bæði vegna þess og eins til að tryggja samræmda meðferð málsins.
    Ég hafði boðað það á næstsíðasta fundi allshn. að ég hygðist skrifa sérstakt nál. en ekki leggja fram brtt. þar sem mér heyrðist ekki vera hljómgrunnur fyrir því í nefndinni að gera þá brtt. sem felur í sér að Fangelsismálastofnun verði höfð með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um refsingar. Ákvað ég því að skrifa undir nál. með fyrirvara þar sem ég styð að sjálfsögðu tilgang frv. Það kom hins vegar í ljós á fundi allshn. í morgun að fleiri hv. nefndarmenn voru reiðubúnir til þess að leggja fram till. í þessum anda og mun hún því væntanlega verða flutt við 3. umr. málsins.
    Ég vil leggja áherslu á það að hér er aðeins verið að taka á einum þætti fangelsismálanna. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis að taka á þeim málum í heild sinni. Þess vegna minni ég enn og aftur á þá till. sem við þingkonur Kvennalistans höfum flutt hér og vænti þess að Alþingi sjái sér fært að samþykkja hana áður en þing verður rofið.