Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar brtt. sem hér er rætt um vildi ég segja nokkur orð.
    Það var rætt töluvert mikið í nefndinni hvort það ætti að breyta frv. í þá veru að Fangelsismálastofnun kæmi meira inn í ákvarðanir forstöðumanna fangelsa og það yrði háð samþykki Fangelsismálastofnunar hvort agaviðurlögum yrði beitt, eins og fram kemur í þessari brtt. Ég tel það nokkuð gott ef hægt er að hafa samráð um þessi mál og tel raunar að það sé gert í dag. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá forstöðumönnum fangelsa er Fangelsismálastofnun tilkynnt um agaviðurlög og að þeim sé beitt og menn settir í einangrun. Hins vegar kemur það upp að forstöðumenn fangelsa, eins og aðrir, vilja vera sjálfstæðir í sínu starfi og telja að þeir eigi að sjá um þessi mál en ekki að vera undir boðvaldi annarra komnir. Einnig liggur það ljóst fyrir að sams konar brtt. kom fram í Nd. þegar málið var til umræðu. Þá var slík brtt. felld.
    Ég held að við stefnum þessu máli í hættu ef þessi brtt. verður samþykkt og náum ekki þeim kjarna sem er í þessu frv., sem er, eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Vesturl., að ná því fram að sú refsing sem beitt er í fangelsi bætist ekki við þann tíma sem dómur segir til um. Það er kjarni þessa frv. Hitt er í mínum huga ekki eins mikilvægt að ná fram. Aðalatriðið er í mínum huga þetta: að þau agaviðurlög sem beitt er í fangelsum hafi ekki áhrif á tildæmdan refsitíma.
    Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut ef þetta mál dagar hér uppi á síðustu dögum þingsins og það fari aftur til neðri deildar og sofni þar. Það er rétt sem fram kemur einnig hjá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur, 6. þm. Vesturl., að þarna er um hrein mannréttindabrot að ræða. Ég vil ekki eiga það á hættu að þetta frv. nái ekki fram því það liggur alveg ljóst fyrir hver skoðun Nd. er á þessu máli.