Byggðastofnun
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að ítreka það sem ég sagði hér áður. Nú er liðinn hálftími síðan ég fór fram á það að geta rætt þetta mál við hæstv. forsrh. og nú er hálftími þangað til þingflokksfundir hefjast þannig að það er alveg augljóst að þessi umræða mun slitna. Ég vil þess vegna, til þess að baka mönnum ekki ónæði fara fram á það við hæstv. forseta að þessari umræðu verði frestað. Eins og málin lágu fyrir þegar til þessa fundar var boðað var ekki gert ráð fyrir því að þetta mál yrði á dagskrá. Málið var afgreitt, ég vil segja mjög óvænt út úr allshn. í morgun. Ég get þó, til þess að greiða fyrir umræðunni, beint tilteknum fyrirspurnum til hæstv. forsrh. sem hann getur þá búið sig undir að svara þegar málið verður tekið fyrir síðar þar sem ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi þær upplýsingar við höndina sem ég mun fara fram á.
    En fyrst vil ég, herra forseti, láta í ljósi sérstaka undrun yfir því að frv. til breytinga á lögum um Byggðastofnun skuli vísað til allshn. þessarar deildar á sama tíma og sama daginn og til umræðu var frv. um breytingu á lögum um efnahagsaðgerðir sem eingöngu fjallar um breytingar á lagaákvæðum um Byggðastofnun, hvort tveggja snertir stöðu Byggðasjóðs nú og framtíðarskipan þeirrar stofnunar. Bæði frumvörpin til umræðu voru sem sagt á sama fundi og frumvörpunum vísað hvoru til sinnar þingnefndar. Þetta lýsir náttúrlega ótrúlegri lausung í störfum þingsins.
    Ég vil í annan stað vekja athygli á því að öll málefni sem varða Byggðastofnun hafa fram að þessu verið til umfjöllunar í fjh. - og viðskn., alveg frá því að þessi stofnun varð til með því að kljúfa Framkvæmdastofnun í tvennt á sínum tíma þangað til þessi sögulegi fundur var haldinn hér nú á dögunum þegar tvö frumvörp, sem snerta stofnunina, lentu hvort hjá sinni nefndinni.
    Þar sem ég á sæti í fjh. - og viðskn. hef ég ekki komið að þessu frv. til laga um breytingar á lögum um Byggðastofnun. Nú er það svo samkvæmt lögum um ríkisreikning, ríkisfjármál og fleira í 19. gr. að sú skylda er lögð á Fjárlaga - og hagsýslustofnun að láta fylgja stjfrv. mat á kostnaði sem slík frv. hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma. Nú hef ég farið fram á það við formann fjh. - og viðskn. Ed. að hann láti mér í té slíkt mat varðandi það frv. sem hér er til umræðu, en ég varð ekki var við það að hann gerði grein fyrir þeim kostnaði sem frv. til laga um breytingar á lögum um Byggðastofnun hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Og það er ekki hægt að ráða það af greinargerð frv. að neitt slíkt mat hafi verið lagt á frv. Ég geri það, herra forseti, til að liðka fyrir þingstörfum að víkja þessari fyrirspurn til forsrh. nú á þessum fundi. Þar sem ég tel óheppilegt að slíta umræðunni þar sem þingflokksfundartími hefst eftir hálftíma óska ég eftir því að umræðunni verði frestað þangað til eftir

helgi þannig að hún geti farið fram í heilu lagi. Ég vil óska eftir því að hæstv. forseti verði við þessari beiðni. Ég skil nú satt að segja ekki að aðalforseti deildarinnar skuli víkja sér frá þar sem ég hafði beðið hann um þetta. Það hlýtur að þýða að hann hafi samþykkt beiðni mína þá. ( Forseti: Forseti vill taka fram að það voru veitt afbrigði fyrir því að taka þetta mál á dagskrá og því er ætlunin að halda því áfram.) Og forseti deildarinnar, sem ég beindi þessari fyrirspurn til, kýs að bregða sér frá. Það er mikill siður hjá aðalforsetum í þessu þingi að bregða sér af fundi þegar lítið liggur við.
    Ég veit satt að segja ekki, hæstv. forseti, hvernig réttast er að halda ræðu minni áfram úr því að sú er niðurstaða forseta að umræðan geti ekki orðið í samhengi, sem er auðvitað mjög óheppilegt. Þannig stendur á að hæstv. forsrh. er búinn að kynna þetta frv. á blaðamannafundi sem hann hélt, ef ég man rétt, með forseta þessarar deildar og einum þingmanni úr þessari deild þar sem stjórnarandstæðingar gátu hvergi verið nærstaddir. Það er að verða mikill siður hjá ráðherrum að taka þann kostinn af því að þeir telja að þá verði þeir lítið spurðir og litlar athugasemdir gerðar við það sem þeir segja. Má vera að það sé af þeim sökum sem forseti deildarinnar kýs að bregða sér frá að hann telur óþarfa að aðrir menn taki til máls um þetta mál en forsrh. einn, en svona er nú þetta mál.
    Ég vil byrja á því að lýsa þeirri almennu skoðun minni að málafylgja og málatilbúnaður þessarar hæstv. ríkisstjórnar virðist vera með þeim hætti að þingið geti haft sem allra minnst áhrif og tök á því að móta stefnu og framkvæmd í þjóðmálum. Þeir atburðir í þessari þingdeild eru dæmigerðir um það, tvö frv. um sömu stofnun eru flutt af forsrh., eru látin hvort í sína nefndina, auðvitað til þess að ekki geti til þess komið að sama nefndin geti athugað þessi tvö frumvörp í samhengi og að nefndin hafi enga möguleika á því að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig hún hugsi sér framtíð Byggðastofnunar.
    Á fundi fjh. - og viðskn. í morgun fór ég fram á það að fá tilteknar upplýsingar varðandi hitt frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur flutt, upplýsingar sem óhjákvæmilegt er að liggi fyrir þegar framtíð Byggðastofnunar er rædd, hvort sem við tölum um framtíðina í þröngu samhengi út frá þeim skuldbindingum sem Byggðastofnun hefur tekið á sig og varða fjárhag hennar á hinum næstu missirum, ég tala nú ekki um ef maður vill ræða Byggðastofnun í víðara samhengi og reyna að gera sér grein fyrir því hvernig þeirri stofnun verður stjórnað
til lengri tíma litið. Þessi nauðsynlegu hjálpargögn hef ég ekki fengið í fjh.- og viðskn. Málið er af þeim sökum óathugað í nefndinni og þegar af þeim sökum er ég vanbúinn að ræða þetta frv. hér. Auðvitað er forseta Ed. um það ókunnugt. Hann á ekki sæti í fjh.- og viðskn. Forseti deildarinnar hefur ekki komið þar að verki og getur ekki gert sér grein fyrir því hvaða upplýsingar lágu fyrir þeirri nefnd í morgun né hvaða upplýsingar við fengum þar um hitt frv. sem liggur fyrir varðandi Byggðastofnun.

    Þetta er ærin ástæða til þess að ég óski eftir að þessari umræðu verði frestað þangað til mér gefst tækifæri til þess að athuga þessi mál í samhengi eins og verið er að gera í fjh.- og viðskn. Ed. Ég vakti athygli á þessu við formann nefndarinnar í morgun. Ég gerði honum grein fyrir því að nauðsynlegt væri fyrir okkur í fjh.- og viðskn. Ed. að fá í hendur þau gögn sem lægju fyrir í allshn. úr því að við ættum að koma að þessu máli á annað borð. Ég verð því miður að lýsa því að ég varð ekki var við að stjórnarsinnar í fjh.- og viðskn. létu sig það neinu skipta hvort þessi mál yrðu til athugunar á faglegum grundvelli í fjh.- og viðskn. Það var síður en svo að þeir hefðu áhuga á því að þessi mál yrðu athuguð í samhengi.
    Nú liggur þetta frv. hér fyrir óbreytt og allshn. hefur samþykkt þetta frv. óbreytt. Við í fjh.- og viðskn. Ed. hljótum að sjálfsögðu að reyna að gera okkur grein fyrir þeim skuldbindingum sem þetta frv. leggur á Byggðastofnun. Við erum bara í þeim plöggum sem við sitjum uppi með í fjh.- og viðskn. nú með halla sem við getum ekki talið í milljóna hundruðum. Við erum að tala um það að undirstofnun Byggðastofnunar, Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina, sé e.t.v. svo illa staddur að þau töp sem fyrirsjáanleg eru í þeim sjóði geti skipt milljörðum króna. Jafnframt liggur það fyrir að Hlutabréfasjóður, sem á að vera sérstök deild í Byggðasjóði, hefur tapað á þessari stundu fjárhæðum í hlutabréfum sem skipta hundruðum milljóna króna.
    Þegar við svo bætum því frv. við sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að á Byggðasjóð eigi að leggja margvíslegar nýjar kvaðir. Það er athyglisvert að þessar kvaðir eiga að leggjast á sjóðinn þegar á þessu ári. Það stendur í frv. að þessi lög skuli þegar taka gildi. Hvar liggja svo fyrir upplýsingar um það, hæstv. forseti, hvaða fjármuni við erum að tala um fyrir Byggðasjóð með þessum nýju kvöðum sem við erum hér að leggja á stofnunina?
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að á bls. 6 í grg. með frv., þar sem talað er um atvinnuþróunarfélög, stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nefndin er sammála um að veita eigi auknu fjármagni til atvinnuþróunar á landsbyggðinni og auka aðstoð stofnana ríkisvaldsins í því skyni með því skipulagi sem sýnt er á meðfylgjandi mynd. Mikilvægt er að taka tillit til þess við gerð fjárlaga fyrir næsta ár.``
    Það var ekki tekið tillit til neins slíks við gerð þeirra fjárlaga sem nú eru í gildi. Það var ekki einni einustu krónu varið til þeirra verkefna sem hér er verið að fjalla um, ekki krónu, ekki túskildingi með gati. Það er því ósköp eðlilegt að sú spurning vakni með hvaða hugarfari þetta frv. er flutt. Er alvara á bak við þetta? Er ríkisstjórnin þarna að leggja eitthvað til sem hún hugsar sér að standa við á þessu ári? Af hverju stendur hér, hæstv. forseti: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi``, þegar ekki er fjallað um fjármagnið einu einasta orði?
    Vegna þess að hæstv. forsrh. er sá stjórnmálamaður sem mest áhrif hefur haft á byggðaþróun á síðasta áratug má kannski leggja eitthvað upp úr því hvaða

mat hann hefur lagt á þá byggðastefnu sem hann hefur sjálfur mótað og ráðið. Hann hefur verið ráðherra í ein tólf ár, svo að segja samfleytt, ef ekki samfleytt, ég kann það nú ekki svo utanbókar. Við skulum aðeins líta á það hvernig hæstv. forsrh. metur sjálfur störf sín sem forustumanns í byggðamálum mestan hluta þessa tímabils. Hæstv. forsrh. hefur gegnt því embætti frá árinu 1983 til 1987 og síðan frá 1988 til 1991. Hann sagði að vísu eftir að hafa samið við Alþb. um að ganga úr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, eins og löngum er vitnað til, að hann hefði verið í glerhúsi um tíma og fílabeinshöll og sagðist ekki hafa alveg áttað sig á því sem var að gerast í landinu. Alveg hissa á því hvernig ástandið var í landinu á þeim tíma, enda fóru þá í hönd erfiðustu tímar í rekstrarskilyrðum í íslenskum fyrirtækjum. Nú er haft eftir þessum manni, sem öll þessi ár nema eitt hefur haft byggðamálin í sínum höndum, orðrétt innan gæsalappa í Dagblaðinu/Vísi hinn 21. febr. sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Því miður hefur byggðastefna sú sem stjórnvöld hafa rekið á liðnum áratug ekki skilað þeim árangri sem vonir voru bundnar við og það þrátt fyrir að miklir fjármunir hafi verið settir í hana. Við verðum að horfast í augu við þá þróun sem verið hefur og framfylgja stefnu sem snúið getur vörn í sókn. Jöfn þróun byggðar í landinu er hagkvæm, en til að svo geti orðið þurfa að koma til víðtækar aðgerðir af hálfu stjórnvalda, sagði Steingrímur Hermannsson forsrh. á blaðamannafundi í vikunni.``
    Á síðasta áratug, við skulum segja að það séu tíu sl. ár, hefur hæstv. forsrh. gegnt sínu embætti í sjö ár af þessu tímabili. Sjálfstfl. hefur farið með þau völd í eitt ár og í tvö ár skipaði Gunnar Thoroddsen sæti forsrh., en eins og kunnugt er var sú ríkisstjórn mynduð gegn Sjálfstfl. og í trássi við Sjálfstfl. Ef við förum lengra aftur, til ársins 1978, kemur í ljós að á þessum 13 árum hefur Sjálfstfl. setið í ríkisstjórn í fimm ár og haft forsrh. í eitt ár.
    Byggðamálin hafa með öðrum orðum verið höfuðvettvangur formanns Framsfl. Ef við hyggjum að því líka hvaða embætti hæstv. forsrh. gegndi þau ár sem hann var ráðherra í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens kemur í ljós að hann fór með embætti sjútvrh. Það minnir mig sé. Hann hefur a.m.k. látið þess getið þegar hann hefur fjallað um þann ráðherra sem nú gegnir því embætti, Halldór Ásgrímsson, að eftirmaður hans, Halldór Ásgrímsson hæstv. sjútvrh., hafi látið undir höfuð leggjast að huga að byggðinni í landinu. Hans stjórn á fiskveiðum miðist einvörðungu við flotann og sé þannig að hún sé til þess fallin að kvótinn safnist í fárra manna hendur og hefur látið orð falla á þá lund að hann hafi látið það frv. og það fyrirkomulag sem hann sjálfur vildi hafa og skildi eftir í sjútvrn. eiga sig. Þá skilst manni að hæstv. forsrh. hafi viljað taka meira tillit til byggðanna meðan hann var sjútvrh. heldur en núv. hæstv. sjútvrh. hefur viljað gera.
    Ég geri ráð fyrir því að út af þessum orðum sé það eitt með öðru sem veldur gagnrýni hæstv. forsrh. á stefnunni í byggðamálum, að hann er mjög ósammála þeirri löggjöf sem hæstv. sjútvrh. hefur sérstaklega beitt sér fyrir um stjórn fiskveiða, er mjög ósáttur við þá löggjöf og hefur látið að því liggja að hún sé til þess fallin að skerða byggð í landinu.
    Á hinn bóginn liggur fyrir að hæstv. forsrh. er mikill áhugamaður um þá breytingu í landbúnaði sem lýsir sér í tillögum sjömannanefndar. Þar er gert ráð fyrir því að ám verði fækkað um 13% á einu ári fram til 1. sept., um 70 þúsund ær. Er ekki gert ráð fyrir því að neinni reglu verði fylgt um það hvar þessi fækkun komi helst fram öðruvísi en svo að haft er í huga að um 13% jöfn fækkun geti orðið í öllum búnaðarsamböndum. Það er með öðrum orðum ekki gert ráð fyrir því að mjög skakki um fækkun sauðfjár í einstökum búnaðarsamböndum.
    Í þessum tilmælum er gert ráð fyrir því að verð á lambakjöti lækki um 20% til bænda en á hinn bóginn er ekki gerð nein grein fyrir því að ríkisvaldið ætli að gera neinar ráðstafanir til þess að aðdrættir hjá bændum lækki. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að komið sé til móts við bændur með öðrum hætti til þess að reyna að auðvelda þeim þá aðlögun sem þarna er talað um. Ég held að það sé erfitt að hugsa sér að sú launaskerðing sem felst í þessum tillögum geti verið minni en um 30% ef þetta gengur fram hjá þessum bændum. Ég hygg að það sé algengt í sauðfjárræktarhéruðum að brúttótekjur á bóndabýli sem séu milli 3 og 4 millj. kr. Ef við hugsum okkur að brúttótekjurnar minnki um 20% á fjórum, fimm árum, falli úr 3 millj. niður í 2,4 millj. eða úr 4 millj. niður í 3,2 millj. fyrir utan þá 13% skerðingu sem við erum nú að tala um --- ég tek þá skerðingu ekki inn í, reikna með jafnmörgu fé --- þá sjáum við þegar í stað að þarna er um mjög verulega kjararýrnun að ræða og nánast útilokað að sjá hvernig sú nefnd sem samdi þessar tillögur hugsar sér að dæmið geti gengið upp.
    Ég hef í því sem ég hef um þetta sagt vakið athygli á hinum háa sláturkostnaði og gert grein fyrir því að óhugsandi sé að sú sláturhúsastefna sem birt hefur verið undir grænum lit, lit Framsfl., geti gengið upp þegar svo er komið. Síðast nú í dag fékk ég skeyti frá Búnaðarsambandi Norður-Þingeyinga þar sem látinn er í ljós uggur yfir framtíðinni ef fylgja á þessum tillögum eftir með þeim hætti sem hæstv. forsrh. hefur lýst stuðningi við og felst í tillögum sjömannanefndar.
    Hæstv. forsrh. segir réttilega að miklir fjármunir hafi verið settir í byggðastefnu Framsfl. Spurningin er hins vegar: Hvert hafa þessir fjármunir runnið og hvað nákvæmlega á hæstv. forsrh. við þegar hann segir að þessi byggðastefna og þessir miklu fjármunir hafi ekki skilað árangri?
    Svo vill til að sama dag og hæstv. ráðherra heldur sinn byggðafund, eða 20. febr., er viðtal við hæstv. forsrh. í Dagblaðinu/Vísi af því tilefni að miklir erfiðleikar steðjuðu að atvinnulífinu á Suðureyri við Súgandafjörð. Eins og við vitum þá eru Vestfirðirnir gamalt kjördæmi hæstv. forsrh. og hann á að vera þar öllum hnútum kunnugur. Í Dagblaðinu er hæstv. forsrh.

spurður um atvinnuástand og byggð á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann lýsir því yfir í blaðinu að hann hafi engin gögn fengið um málið frá Byggðastofnun en síðan er haft eftir honum innan gæsalappa. --- Nú veit ég auðvitað ekki, hæstv. forsrh., hvort hér er rétt farið með en eins og þetta liggur fyrir í blaðinu stendur þar:
    ,,Áður en ráðist verður í þessi göng verður að liggja fyrir mjög ítarleg athugun á því hvernig samstarfi þeirra byggðarlaga sem eru á norðanverðum Vestfjörðum verður háttað og á grundvelli þess verða menn að vera sannfærðir um að byggðin muni haldast. Komist Byggðastofnun að þeirri niðurstöðu að byggð á Suðureyri muni leggjast niður þrátt fyrir göngin á náttúrlega ekki að bora ónauðsynleg göt í fjallið.``
    Þessi frétt byrjar með tilvitnuðum orðum í gæsalöppum eftir hæstv. forsrh. sem eru svohljóðandi,
með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er ekkert vit í því að vera að bora göt í fjöll til þess eins að síðasti íbúinn geti farið um þau þegar hann flytur á brott, sagði Steingrímur Hermannsson forsrh.``
    Við þessa frétt er auðvitað margt að athuga. Í fyrsta lagi vaknar spurningin um það hvort blaðamaðurinn fari rétt með ummæli hæstv. forsrh. Ég skal ekki fullyrða um það að hann hafi leiðrétt þessi ummæli í einhverjum fjölmiðli eftir að þetta blað kom út. Það hefur þá farið fram hjá mér og væri þá auðvitað forvitnilegt að fá um það vitneskju hvað það var nákvæmlega sem hæstv. forsrh. sagði um þessi mál.
    Ég vil segja um þetta í öðru lagi sem mér finnst líka vera lýsandi fyrir byggðastefnu hæstv. forsrh. og þær aðferðir sem stjórnvöld hafa þegar þau eru að gera upp við sig hvort það eigi að vera lífvænlegt á einhverjum stað eða ekki, með hvaða hætti eigi að koma til móts við fyrirtækin á hinum ýmsu stöðum. Við Súgandafjörð stendur svo á að þar er myndarlegt fiskvinnslufyrirtæki sem á mikinn hlut í togaraútgerðarfyrirtæki sem gerir út togarann Elínu Þorbjarnardóttur. Fiskiðjan heitir Freyja en hlutafélagið sem á togarann heitir Hraðvík . Fyrir einu ári eða svo var gripið til þess sjóðs sem öllu átti að bjarga, Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Tilvist þessa sjóðs var réttlætt með því að hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar taldi ekki tök á því að rétta hag sjávarútvegsins á árinu 1988 og heldur ekki á árinu 1989 og mörg sjávarútvegsfyrirtæki á þessum tíma hölluðust mjög. Það kom fram á fundi sem fjh.- og viðskn. Ed. átti með framkvæmdastjóra Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina að síðasti ársfjórðungur ársins 1988 hefði verið erfiðasta tímabil sem þá hefði gengið yfir útgerð hér á landi. Þá snöggversnaði afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta var á mánuðunum eftir að núv. hæstv. forsrh. hljópst á brott með Jóni Baldvini Hannibalssyni eftir að hafa verið í bakmálum með formanni Alþb. Eftir að hafa setið í ríkisstjórn með Sjálfstfl. en verið á sama tíma í stjórnarmyndunarviðræðum með Ólafi Ragnari Grímssyni, eins og hæstv. forsrh. hefur sjálfur viðurkennt í orði og margsinnis hefur verið upplýst í Alþýðublaðinu. Á þessum tíma

flutti hæstv. forsrh. margar lærðar ræður um að nú ætti að bjarga byggðinni. Það ætti að bjarga útgerðinni hringinn í kringum landið. Eitt af þeim fyrirtækjum sem áttu að verða prófsteinn á byggðastefnu hæstv. forsrh. var einmitt það fyrirtæki sem við erum að tala um núna, Fiskiðjan Freyja á Suðureyri við Súgandafjörð og togaraútgerðarfélagið þar.
    Nú er kl. orðin fjögur, herra forseti. ( Forseti: Ég þarf því að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni. Þessari umræðu er frestað.) Herra forseti. Ég vænti þess að þessari umræðu ljúki eftir helgi. ( Forseti: Ég þori ekki að segja um hvenær henni lýkur en henni verður haldið áfram núna kl. 6 að loknum þingflokksfundum.) Herra forseti . . . ( Forseti: Hv. 2. þm. Norðurl. e. kveður sér hljóðs um þingsköp vænti ég.) Herra forseti. Ég vil mótmæla þessu. Það gengur ekki að þingmenn séu hér á réttum fundartíma en ráðherrar láti sig vanta, hafi öðrum þýðingarmeiri skyldum að gegna, og síðan ætli hæstv. forseti að jafna það út með því að taka kvöldfund, sem er sá tími sem þingmenn hafa kannski ráðstafað með öðrum hætti, þá að taka slíkan tíma af þingmönnum til þess að jafna það út að hæstv. forsrh. var ekki við á fundinum í dag. Ég vænti þess nú að hæstv. forseti sjái það að slík vinnubrögð ganga ekki upp hér í þinginu og að ríkisstjórnin getur ekki vænst þess að vera hér með fund síðdegis eða í kvöld á sama tíma og ráðherrar hirða ekki um að vera hér á reglulegum fundatíma. Ég vona að það eigi ekki að níðast með þeim hætti á þinginu. --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því áðan að það er svolítið erfitt um vik að ræða þetta frv. Í fyrsta lagi var ekki hægt að hefja umræðuna hér fyrr en kl. hálffjögur. Þá hafði ég beðið eftir því í hálftíma að fá að taka til máls. Í öðru lagi liggja ekki fyrir upplýsingar um það hvorki í fjh.- og viðskn. Ed., sem hefur annað frv. sem fjallar um byggðamál til meðhöndlunar, né heldur í allshn. Ed. hvaða útgjöld þetta frv. hefur í för með sér. Það er hér talað um að þessi lög eigi að öðlast þegar gildi. Eftir sem áður liggur það alveg ljóst fyrir að það hefur verið látið undir höfuð leggjast að taka tillit til þessa frv. sem þó var búið að semja á sl. sumri. Niðurstöður viðræðna voru sendar forsrh. hinn 16. apríl 1989, stendur hér á einum stað. Það er svolítið flókið hvenær hver nefnd skilar áliti vegna þess, þó undarlegt sé, þá er hæstv. forsrh. að rugla saman einhverjum tveim nefndum allan þann tíma sem hann hefur verið að skrifa athugasemdir við frv. Annars vegar er nefnd sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa í sem er kölluð byggðanefnd og svo er einhver önnur byggðanefnd sem er eingöngu skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna. Þetta er því svolítið óljóst allt saman. Þó stendur hér á einum stað, með leyfi hæstv. forseta: ,,Síðan hefur nefndin [væntanlega sú nefnd sem skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka] unnið að undirbúningi þessa lagafrv. Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á lögum nr. 64 frá 1. júlí 1985 um Byggðastofnun í samræmi við tillögur um stefnumótun í atvinnumálum á landsbyggðinni sem nefndin sendi forsrh. 11. júní sl.``

    Ég hygg að það hafi þess vegna legið fyrir í tíma nauðsyn þess að fé yrði veitt á fjárlögum ef einhver alvara fylgdi þessu frv. Hér er talað um fjölmennan fund með forsrh. í Borgarnesi 8. okt. 1990. Það er hér og þar verið að tala um það að málin hafi verið rædd. En sem sagt ekkert tillit tekið til þessara tillagna í fjárlögum. Alvaran á bak við þetta frv. er því engin.
    Á hinn bóginn er það merkilegt að fylgiskjal II er frá nefnd um skipulag Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum, nýjar leiðir í byggðamálum, tillögur og greinargerð. Væri fróðlegt ef hæstv. forseti gæti upplýst hversu mörg eintök hafa verið prentuð af þessu frv. aukreitis til þess að senda plaggið út um borg og bý. Þetta fylgiskjal hefur ekkert með efni frv. að gera, ekki neitt. Það er algerlega óviðkomandi efni frv. Auðvitað er vítavert að vera að dengja slíku yfir þingmenn þegar tilgangurinn er eingöngu sá að nota þessi orð sem þar standa sem einhvers konar áróðursplagg fyrir hæstv. forsrh., láta prenta þetta á kostnað þingsins, en gera síðan ekki minnstu tilraun til að tengja málið því frv. sem hér liggur fyrir. Ég sá að hæstv. forseti hristi höfuðið yfir því að þetta væri prentað á kostnað þingsins, fyrir opinbert fé í öllu falli, ekki hefur þetta frv. verið prentað fyrir fé úr flokkssjóðum Framsfl. Annars hélt ég að þingskjöl væru prentuð af fé þingsins. Það getur verið að það sé misskilningur, ekki skal ég um það segja. Ég hélt þó að svo væri.
    Ég mun, herra forseti, gera þetta frv., stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, blaðamannafund forsrh. og ástand fyrirtækja á landsbyggðinni að umræðuefni síðar þegar mér gefst kostur á því að gera grein fyrir mínu máli í samfelldu máli og þegar ég hef fengið þær upplýsingar í hendur sem ég hef beðið um. Ég læt auðvitað í ljósi óánægju mína yfir því að stjórn þingsins skuli vera með þeim hætti að þessi frv. skuli ekki fylgjast að. Ég læt líka í ljós óánægju yfir því að ekki skuli vera hægt að hafa umræður um þetta frv. samfelldar heldur skuli meining forseta vera að slíta þær í sundur, eins og hér er stefnt að, sem auðvitað veldur ekki öðru en því að málið verður tekið upp í heild sinni síðar. Ég mun ræða það, ef tilefni gefst til, annaðhvort við 3. umr. eða þegar málefni Byggðasjóðs ber með öðrum hætti á góma en nú er.
    Ég ítreka fsp. mína til hæstv. forsrh. Lögum samkvæmt ber fjmrn., Hagsýslustofnun, að senda inn álit um það hvaða útgjaldaauka stjfrv. hafa í för með sér. Það er öldungis ljóst að nauðsynlegt er að framlög til Byggðastofnunar verða að aukast ef það frv. verður að lögum sem hér liggur fyrir. Hvað sem málinu að öðru leyti líður veit ég að hæstv. forseti mun sjá til þess að málið verður ekki látið ganga fram í deildinni nema þessar upplýsingar liggi fyrir frá Hagsýslustofnun.