Byggðastofnun
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Fyrst vil ég leyfa mér að leiðrétta þau tíðu ummæli hv. þm. að ég hafi brugðist minni skyldu að vera hér. Á þingi er fyrir mig annar maður og auk þess var þetta mál ekki á þeirri dagskrá sem ég fékk afhenta. Ég vissi ekki um að það yrði tekið á dagskrá fyrr en kl. 3 þar sem ég sat á öðrum fundi og ég lauk þeim fundi á langtum skemmri tíma heldur en til hafði verið ætlast.
    Það er alveg rétt að að sjálfsögðu verður að koma meira fjármagn til Byggðastofnunar til að framkvæma ýmislegt af því sem hér er og einnig vegna þeirrar erfiðu stöðu sem er hjá Byggðastofnun vegna verulegs taps á ýmsum útlánum. Í fjárlögum þessa árs er heimild til þess að yfirtaka lán Byggðastofnunar hjá Framkvæmdasjóði. Það mál er nú til meðferðar og ég geri ráð fyrir að það verði afgreitt næsta þriðjudag. Ég geri ráð fyrir því, þó ég geti ekki nefnt nákvæma tölu um það, að það muni verða til þess að létta af Byggðastofnun a.m.k. 300 millj. í greiðslu afborgana og lána. Fjárframlag til Byggðastofnunar mun því meira en þrefaldast á yfirstandandi ári frá því sem það hefur verið áður. Mat hagsýslunnar á kostnaði við þetta frv. er út af fyrir sig sjálfsagt að koma með fyrir 3. umr. eða þá í hv. Nd. Hins vegar hygg ég að hverjum manni muni augljóst vera að það mat er afar erfitt því það er í höndum stjórnar Byggðastofnunar hvernig hún ætlar að framkvæma þá hluti sem er gert ráð fyrir í greinum frv. Þ.e. þá byggðaáætlun sem Byggðastofnun er ætlað að semja og ráðherra ætlað að leggja fyrir Alþingi til staðfestingar. Beinn kostnaður fyrir ríkissjóð af þessu frv. liggur því ekki fyrir fyrr en slíkar tillögur Byggðastofnunar hafa verið gerðar. Þetta hygg ég að öllum muni vera ljóst.
    Hv. þm. ræddi mjög um blaðamannafund sem hann kvað forseta deildarinnar og annan hv. þm. hafa setið. Þessir tveir menn voru formenn í þeim nefndum sem skipaðar voru um næstsíðustu áramót til að vinna að skoðun á byggðamálum og því afar eðlilegt að þeir væru þar til að kynna störf sinna nefnda.

    Hv. þm. vildi fá mat mitt á þróun byggðamála og og þeim miklu fjármunum sem til þeirra hefur verið varið. Ég hef sett fram það mat og gerði það m.a. í því sem hann las og eftir mér var haft. Hann vildi hafa mat mitt á því hvað ég hefði lagt til þeirra mála. Ég tel að ég hafi lagt verulega mikið til þeirra mála, eins og ég efa ekki að hv. þm. hefur gert með því mikilvæga starfi sem hann hefur sem stjórnarmaður í Byggðastofnun sem er nú lykilstofnun í öllu því sem hér er verið að gera. Eflaust hefur þar notið hans miklu dómgreindar og hans ágæta mats á því hvað mikilvægast er að leggja til í byggðamálum. Ég efa það ekki að árangurinn af því hefur orðið mikill.
    Ég vil benda á nokkur atriði, sem ég fyrir mitt leyti hef beitt mér fyrir og margir hv. þm. ítarlega stutt, t.d. þá langtímaáætlun sem var tekin upp í vegamálum árin 1981 og 1982 og síðan hefur verið unnið eftir og nú hefur leitt til þess að búið er að margfalda þá vegi á landinu sem eru bundnir með varanlegu slitlagi. Ég hygg að það fari ekki fram hjá neinum að það átak í vegamálum sem hefur verið gert er í raun stórkostlegt og ég vil fagna því að Alþingi sér sér fært að halda áfram þeirri framkvæmd sem grunnur var lagður að með þeirri áætlun.
    Ég gæti líka nefnt annað mál í fjarskiptum sem kom í minn hlut að ná fram þegar ég var samgrh. árið 1981 hygg ég að það hafi verið, þó getur verið að ég fari áravillt. Þá var samþykkt áætlun um að koma sjálfvirkum síma á alla bæi á landinu á fimm árum. Þetta frv. lagði ég fram og það samþykkti Alþingi og var þetta reyndar framkvæmt á fjórum árum og er áreiðanlega mikið framlag til jöfnunar á aðstöðu manna um landið. Þannig gæti ég reyndar haldið áfram að telja ýmis mjög mikilvæg mál.
    Ég fagna því einnig að samstarf mitt við formann, framkvæmdastjóra og aðra stjórnarmenn í Byggðastofnun hefur verið mjög gott. Við höfum iðulega rætt þessi mál og mér hefur alltaf þótt ríkja ágætis samstaða um það sem ber að leggja áherslu á í þessu sambandi. Ég hef gengið fram í því fyrir það ár sem nú er hafið að auka, eins og ég sagði áðan, mjög mikið framlag til Byggðastofnunar.
    Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir allt það sem hefur verið gert af fjölmörgum mönnum sem meta byggðamálin mikils, eins og ég hef sagt að ég viti að hv. 2. þm. Norðurl. e. hlýtur að gera í mjög ríkum mæli, þá hefur hallað undan fæti, því miður. Þá hefur enn þá samt sem áður verið mikill fólksflutningur úr dreifbýli í þéttbýli. Þess vegna skipaði ég um áramótin 1989 -- 1990 tvær nefndir. Aðra nefndina, sem í eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, til að marka stefnu til lengri tíma í byggðamálum, draga fram nýjar áherslur sem þyrfti að leggja á í byggðamálum o.s.frv. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að leggja beri áherslu á að gera langtímaáætlanir í byggðamálum og festa þær miklu betur í sessi heldur en verið hefur með því að skylda ráðherra til að leggja þær fyrir Alþingi þannig að unnið yrði skipulega eftir slíkum áætlunum. Það má segja að það hafi verið meginkjarninn í samhljóða niðurstöðu þessarar nefndar sem skipuð var mönnum allra þingflokka.
    Aðra nefnd skipaði ég til þess að skoða starfsemi Byggðastofnunar og skoða meira tæknilega hvernig þar yrði unnið og sömuleiðis, eins og kallað var, fyrstu aðgerðir í byggðamálum. Sú nefnd var skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna, enda þar má segja meira um skammtímasjónarmið að ræða. Sú nefnd vann einnig mjög gott verk og leggur hér fram afargott yfirlit yfir búsetuþróun og sömuleiðis yfir vinnuhætti sem að sjálfsögðu hljóta að verða til lengri tíma. Það þótti sjálfsagt að þingmenn fengju einnig að skoða störf þeirrar nefndar, enda nátengt því frv. sem hér er lagt fyrir, svo að mér þótti undarlegt að hv. þm. fann að því að álit þeirrar nefndar er hér látið fylgja með. Ég tel það álit mjög mikils virði og nauðsynlegt að hafa það með í skoðun á þessu máli.
    Hv. þm. las upp úr DV viðtal við mig um göt á fjöll o.s.frv. Ég vona að hv. þm. sé mér sammála um

að það eigi ekki að bora göt á fjöll ef það er til þess að síðasti ábúandinn flyst á brott í gegnum það gat. Ég vona að ég eigi ekki að skilja hans athugasemdir svo og að við getum ekki þar verið sammála.
    Hins vegar vil ég benda hv. þm. á það að í sama blaði, DV, birtist fáeinum dögum síðar framhald af því viðtali. Fréttamaðurinn kaus að sleppa ýmsu sem ég hafði sagt í fyrra skiptið. Þar held ég að hv. þm. fái heilsteypta skýringu á því sem þarna var um að ræða.
    Það vildi svo til að sem samgrh. skipaði ég nefnd til þess að skoða hvort unnt væri að tengja byggðir á norðurhluta Vestfjarða með jarðgöngum og það sem þar hefur verið ákveðið nú er byggt á tillögum þeirrar nefndar. Ég hef lýst því, eins og hv. þm. getur lesið í þessari grein, að það er eindregin von mín að þessi tenging á milli byggðarlaganna verði til þess að styrkja mjög byggð á þessum hluta Vestfjarða. Raunar hef ég lýst þeirri skoðun minni að þessi viðleitni sé sú stærsta sem ráðist hefur verið í til þess að tengja þessar byggðir þannig að þær geti notið þeirrar þjónustu sem sameiginlega má miklu betur veita heldur en sitt í hvoru lagi, og þá ekki síst á Ísafirði, og m.a. til þess að flytja megi afla þarna á milli. Ég get t.d. upplýst hv. þm. um það að nú er talað um að sameina frystihús og fiskvinnslustöðvar á Þingeyri og Suðureyri. Forsendan fyrir því að það megi gerast er að nú er verið að byggja brú yfir Dýrafjörð og gert er ráð fyrir jarðgöngum yfir á Suðureyri. Það er því einlæg von mín að þessi jarðgöng verði ekki til þess að síðasti íbúinn flytjist brott frá neinum þessara staða.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það voru mjög miklir erfiðleikar í byggðamálum haustið 1988 og lýst þannig af samtökum fiskvinnslustöðvanna að þær mundu ekki hefja vinnslu upp úr áramótum, enda raungengi þá orðið það hæsta sem þekkst hefur í íslenskri raungengissögu og varð vitanlega að lagfæra. Ég vil ekki taka undir orð hv. þm. um Atvinnutryggingarsjóð. Ég held að Atvinnutryggingarsjóður hafi gert margt mjög gott. Ég tek sem dæmi á Ólafsfirði. Ég man að hv. þm. beitti sér mjög fyrir því máli, ræddi við mig og fleiri um nauðsyn þess að Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður kæmu inn í það mál, enda hv. þm. mjög vel staðkunnugur og mikils virði að hafa hans leiðbeiningar um það hvernig á því máli bæri að taka. Ég hygg að það hafi verið farið satt að segja mjög að tillögum hv. þm. Og ég a.m.k. fyrir mitt leyti harma það ekki þótt Hlutafjársjóður hafi lagt nokkuð af mörkum síðan það mál var gert upp og tapað nokkru fé á því. Það er hárrétt hjá hv. þm. Aðalatriðið var að treysta vinnsluna. Mér þætti satt að segja mjög fróðlegt að vita hvort hv. þm. telur að þarna hafi verið illa staðið að málum.
    Ég man ekki eftir fleiri spurningum, en einu verð ég að mótmæla hér sem hv. þm. sagði, og ég skrifaði orðrétt niður, að ég hefði lýst því yfir að sjútvrh. hafi látið undir höfuð leggjast að hugsa um byggðirnar í landinu. Ég vil endilega biðja hv. þm., af því að ég veit að hann vill hafa það sem sannast reynist, að finna þessu stoð í því sem ég hef sagt. Ég gæti

sagt mörg fleiri orð um þetta. Ég hef aldrei lagst gegn kvótakerfinu. Mér er ljóst að ekki er unnt að framkvæma þann samdrátt í fiskveiðum sem nauðsynlegur er af verndarástæðum með því skrapdagakerfi sem áður var við lýði. En þetta voru ummæli hv. þm. sem ég leyfi mér að mótmæla harðlega.