Frsm. 1. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Síðustu athugasemdir hv. 5. þm. Reykv. sannfærðu mig endanlega um að þessi hugmynd um sjóðshappdrætti er ekkert annað en nýju fötin keisarans. Það virðist vera sáluhjálparatriði að fá þetta happdrætti samþykkt og sett á stofn, en hins vegar vefst fyrir mér hvaða hugur fylgir máli.
    Það er ljóst að allir þingflokkar sem nú eiga fulltrúa á Alþingi hafa tjáð vilja sinn og áhuga fyrir því að björgunarþyrla verði keypt. Það er stundum gagnrýnt síðustu daga fyrir þingrof, sem nú stendur fyrir dyrum, að verið sé að binda hendur ríkisstjórna sem á eftir kunna að koma. Ég held að þetta mál sé skýrasta dæmið sem við höfum um að það er óhætt að binda hendur þeirra sem á eftir kunna að koma vegna þess að hér hafa allir lýst vilja sínum til þess að þyrla verði keypt. Það virðist sáluhjálparatriði að sjóðshappdrættinu verði fundin einhver lagastoð. Það er enginn sem hefur neina hugmynd um hvenær það verður sett í gang eða hvort það verður sett í gang þannig að málið snýst um algert aukaatriði. Þess vegna skora ég nú á þá sem eiga aðild að þessari ríkisstjórn sem enn situr að taka höndum saman við þá sem eru reiðubúnir til þess að tryggja fjármagn úr okkar sameiginlegu sjóðum til þess að kaupa þetta tæki sem er okkur öllum svo nauðsynlegt.