Tilhögun þingstarfa
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er veruleg nauðsyn á því að hinir almennu þingmenn fái að vita hvernig ætlunin er að standa að þingstörfum. Í gærkvöldi var hér kvöldfundur og ekkert lát á þeim sem hér mættu til að halda áfram þeim fundi og klára þá mál. Hins vegar var þannig að málum staðið að það málefni sem var til umræðu, frv. til laga um breytingu á lögum um ábyrgðadeild fiskeldislána, var tekið af dagskrá áður en umræðu var lokið. Og vægt til orða tekið þá hafði ráðherra flutt svo skörulega ræðu að ég efa það ekki að hæstv. forseta er ljóst að við það verður ekki unað að mjög lengi verði haft bil á því að menn fái að svara ýmsum atriðum í þeirri ræðu.