Ferðaþjónusta
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl., frsm. samgn., hefur gert grein fyrir störfum nefndarinnar í þessu máli svo að ég þarf þar ekki miklu við að bæta. Allir nefndarmenn urðu sammála og hafa undirritað þetta nál. sem fyrir liggur á þskj. 781, en aðeins einn, hv. 1. þm. Reykn., hefur undirritað með fyrirvara.
    Ég hygg það þurfi ekki að fara mörgum orðum um aðdraganda þessa frv., það hefur verið um nokkra hríð á döfinni, það er búið að leggja geysimikla vinnu í þetta mál eins og best kemur fram af þáltill. um þetta efni og svo þessu frv. sem hér er til meðferðar. Þó hygg ég að það sé einhver ágreiningur, eða a.m.k. að það séu ekki allir á einu máli hér frekar en endranær því hér er um fjölþætt mál að ræða.
    Ég ætla að leyfa mér í örfáum orðum að víkja að þeirri umræðu sem hér fór fram við 1. umr. málsins. Þá gerði hæstv. samgrh. grein fyrir málinu og lýsti því m.a. að ætlunin með frv. þessu væri að ný lög um ferðaþjónustu komi í stað núgildandi laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, og í stað laga nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði. Þetta veldur því að þetta frv. er nokkuð breytt að formi til frá því sem verið hefur. Hæstv. ráðherra gat þess enn fremur að ferðaþjónusta væri atvinnugrein í örum vexti hér í landinu og væri því ekki að furða þó að ýmis ný atriði kæmu fram eftir því sem árin liðu. Og eins og hann tók til orða, þótt margt væri nýtilegt og ágætt í núgildandi löggjöf, teldi hann samt fulla ástæðu til þess að láta endurskoða þá löggjöf með þessum hætti.
    Ég hygg að þegar grannt er skoðað hafi þetta frv., sem svona geysimikil vinna hefur verið lögð í, ekki ýkja miklar breytingar í för með sér. Aðalatriðið er að búa þessari vaxandi atvinnugrein þann farveg sem hún getur við unað og getur haldið áfram að vaxa og blómgast. Þó var það svo að þegar hæstv. ráðherra hafði lokið máli sínu, þá reis upp hv. 13. þm. Reykv. og lýsti því yfir að hún væri algjörlega andvíg þessu frv. og mundi ekki styðja það. Væri ástæða til að glugga nokkuð í hennar ræðu þó að ég kunni varla við það þar sem hún er fjarverandi. En hv. 13. þm. Reykv. benti á að hér væri verið að bæta við báknið, setja á stofn Ferðamálaráð, ferðamálastjóra, Ferðamálasjóð o.s.frv. og ekki skildi hún til hvers það væri. Þetta finnst mér nauðsynlegt að drepa á til þess að hv. alþm. geti áttað sig á hvað hér er á ferðinni og láti ekki svona, mér liggur við að segja, sleggjudóma glepja sér sýn, því að allt sem hér er nefnt: Ferðamálaráð, ferðamálastjóri, Ferðamálasjóður, eru hugtök sem okkur eru mætavel kunn sem höfum eitthvað fengist við ferðamál og hafa raunverulega gilt samkvæmt lögum og framkvæmd laga um áraraðir. Það þarf því eitthvað meira, einhvern sterkari grunn til að standa á ef byggja á upp rökstudda gagnrýni á þetta frv.
    Ég get ekki stillt mig um að vitna hér í eina setningu af mörgum góðum setningum í þessari ræðu, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.: ,,Ísland er yndislegt ferðamannaland þegar sólin skín, það vitum

við öll, en það er hræðilegt í vondu veðri.``
    Ekki veit ég nú hvort allir geta fallist á þetta. Þeir sem eru ferðamenn og hugsa eins og ferðamönnum ber að gera láta veðrið ekki mjög miklu máli skipta heldur búa sig að heiman og klæða sig í samræmi við veðurfarið.
    Svona mætti lengi halda áfram en ég ætla að sleppa því af ástæðum sem ég hef þegar greint.
    Hins vegar flutti hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson tölu þar sem hann ræddi þetta frv. efnislega og þó að hann hafi haft nokkrar athugasemdir við það að gera, sérstaklega þann kafla sem fjallar um hvernig haga beri yfirstjórn þessara mála, þá var sú ræða eins og hv. framsögumaður, 2. þm. Austurl., komst að orði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sú efnislega ræða sem hv. 2. þm. Reykv. flutti er vissulega gott innlegg í þetta mál til umhugsunar og athugunar varðandi málið í nefnd.``
    Ég bendi á þetta til þess að sýna að með allri þeirri vinnu sem við höfum lagt í þetta frv. þá höfum við nefndarmenn ekki verið að bíta okkur í eitt ákveðið form. Ég held að við höfum verið mjög sveigjanlegir og hlustað vel á þá aðila sem hafa komið til viðræðna við nefndina. En við getum ekki lokað augunum fyrir því að nú er svo komið að ferðaþjónustan er með um 10 milljarða gjaldeyristekjur sem er árlega um 10% af öllum tekjum þjóðarinnar fyrir selda vöru og þjónustu erlendis. Þessum sess hefur ferðaþjónustan nú náð og það verðum við að viðurkenna. Og við verðum að minnast þess að hér er fjölbreytt atvinnugrein á ferðinni sem kemur víða við og snertir marga og mörg svið þjóðlífsins. Löggjöf um ferðamál hlýtur því að klæðast þeim búningi sem fellur í smekk þeirra ára, líðandi stunda, liggur mér við að segja, sem um er að ræða og þegar hún er samin. Hún er eins og önnur löggjöf, eins og hefur verið tekið til orða, sem ,,ber keim og eim síns aldarfars``.
    Ég ætla aðeins að benda á þetta af því ég hef orðið var við nokkra gagnrýni núna, við skulum segja síðustu vikur, á störf nefndarinnar og þetta frv. Ég veit það að hvorki ég né aðrir hv. nefndarmenn erum að biðjast undan gagnrýni en við leggjum áherslu á að sú gagnrýni sé á rökum reist og samsvari því verkefni sem við er að fást.
    Hvað svo af umfjöllun þessa máls er að segja í nefndinni sjálfri, samgn. Nd., þá hefur sú nefnd ekki reynst íhaldssamari en svo að hér er fjallað um ekki færri en 23 brtt. sem nefndin hefur tekið til greina. Sumar af þessum tillögum eru allviðamiklar og ganga tvímælalaust í frelsisátt eða í þá átt að taka tillit til þeirra manna sem fást við þessi mál, hafa áhuga á þessum efnum og hafa vissulega margt til málanna að leggja.
    Ég er ekki að halda því fram að hér liggi fyrir algott frv. en ég fullyrði að það er margt mjög vel unnið í þessu frv. Ég vil síðan enda þessi orð mín á því að þakka nefndarmönnum, og ekki síst hv. formanni nefndarinnar, fyrir ágætt samstarf.