Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um Héraðsskóga frá landbn.
        ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og kallaði á sinn fund Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbrn. Nefndin hafði til hliðsjónar umsagnir sem bárust landbn. Ed., sem afgreiddi frv. samhljóða frá sér. Einnig bárust umsagnir frá fjmrn., Ríkisendurskoðun, landbrn. og Helga Gíslasyni, verkefnisstjóra Héraðsskóga.
    Nefndin kannaði sérstaklega hver væri réttarstaða ,,Héraðsskóga``. Í 2. mgr. 1. gr. frv. kemur fram að um sé að ræða sérstakt skógræktarverkefni um ræktun nytjaskóga á jörðum á Fljótsdalshéraði samkvæmt sérstakri áætlun. Landbrn. telur að þetta verkefni sé ekki ný ríkisstofnun heldur sjálfstætt verkefni sem heyri beint undir landbrh. og sérstakan fjárlagalið sem færður er beint undir landbrn. Fjmrn. og Ríkisendurskoðun telja hins vegar að þau ákvæði frv. sem lúta að skipulagi og stjórn verkefnisins beri einkenni þess að um nýja ríkisstofnun sé að ræða. Nefndin telur ekki að fullu ljóst hver staða Héraðsskóga innan stjórnsýslunnar er og að kveða verði skýrar á um réttarstöðu Héraðsskóga og fastráðinna starfsmanna þeirra í lögum. Slík endurskoðun á stjórnunarþætti Héraðsskóga er óframkvæmanleg á þeim skamma tíma sem er til þinglausna. Jafnframt er mjög brýnt fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta, með því að taka þátt í átakinu, að lög um Héraðsskóga verði samþykkt á þessu þingi, ella kynni því að vera stefnt í hættu. Nefndin leggur því til að við frv. bætist bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um endurskoðun á lögum um Héraðsskóga innan tveggja ára. Skal endurskoðunin sérstaklega miða að því að eyða óvissu um eðli og réttarstöðu Héraðsskóga.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.`` Og á þskj. 797 er brtt. frá landbn., um að við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    ,,Landbrh. skal láta fara fram endurskoðun á lögum þessum og leggja fram frv. til laga um Héraðsskóga fyrir Alþingi haustið 1992.``
    Ég þarf ekki að eyða frekari umræðum um þetta, það var mjög um þetta fjallað og komu fram, eins og hér kemur fram í nál., nokkuð stífar meiningar um hver væri staða Héraðsskóga í lögum. Hins vegar var það þó þannig að það orkaði tvímælis hvort það væri rétt fram sett og kallaði á miklu meiri athugun og skoðun á þessu máli sem hlýtur að taka langan tíma, en augljóslega er tilgangur frv. að fylgja fram því átaki sem hér er verið að gera og margir aðilar eiga hér hlut að sem mundu verða fyrir jafnvel miklu tjóni og það mundi eyðileggja þetta verkefni ef málinu væri frestað það langan tíma sem þyrfti að gera til þess að koma sér niður á lögskýringar á þessu atriði.
    Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.