Ferðaþjónusta
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég leggst ekki gegn því að greidd verði atkvæði um þetta mál en ég ítreka það að ég óska eftir skýrum svörum við því hvernig forseti hyggst haga dagskránni. Hér hafa komið fram yfirlýsingar eins og þær að ef ráðherra hyggst tala í eina og hálfa klukkustund megi búast við að mál séu tekin af dagskrá. En þó þeir séu valdamiklir þá er það nú svo að það er stórum hættulegra ef hinir almennu þingmenn tækju upp á því hver og einn að tala í eina og hálfa klukkustund. Skýringin er einfaldlega sú að þeir eru miklu fleiri og þá fyrst yrði öngþveiti í deildinni. Ég held þess vegna að hæstv. forseti þurfi að huga mjög vel að því hvort hann vill fá vinnufrið um þessi mál eða hvort það á stöðugt að sigla þessu þannig áfram að við séum í óvissu um það hvaða mál verða tekin fyrir á dagskrá á þessum fundi.