Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Íslensk þjóð á merka atvinnusögu. Frá seinustu aldamótum glímdu menn við það verkefni hvernig þjóð sem ætti litla fjármuni gæti eignast nýtískuleg atvinnutæki og aukið hagvöxt í landinu til farsældar fyrir alla Íslendinga. Í raun átti þjóðin aðeins eitt tryggingafélag sem einhvers virði var og það var ríkissjóður Íslands. Þeir þurftu að fara gætilega með þennan sjóð en þeir þurftu jafnframt að hafa vit á því að beita honum til þess að framkvæma þá hluti sem þurfti að framkvæma. Það var ekki mikill munur á því hvort það voru sósíalistar sem voru við völd, framsóknarmenn, alþýðuflokksmenn eða sjálfstæðismenn. Allir þessir aðilar lögðu til að ríkisábyrgðum yrði beitt til þess að byggja upp íslenskt atvinnulíf. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr Stjórnartíðindum frá 1956 þegar ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til togarakaupa fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þá liggur það ljóst fyrir sem endranær að án slíks stuðnings hefði ekki af slíku orðið.
    Árið 1958 þegar vinstri stjórnin fyrri varð til var þessu einnig beitt. Nú liggur við að hæstv. fjmrh., þegar hann kemur hér í salinn og ræðir um frv., sem ber nafnið frumvarp til laga um breytingar á lögum um ábyrgðadeild fiskeldislána, nr. 17 3. apríl 1990, tryllist af reiði til þeirra manna sem hafa flutt þetta frv. yfir því að þeir séu að velta yfir á íslenska skattgreiðendur ævintýralegum byrðum. Hann talar um þrjá milljarða sem hann gerir ráð fyrir að þeir séu að leggja til að verði borgaðir út úr ríkissjóði.
    Ég verð að segja eins og er að eftir að hafa hlustað á þá löngu ræðu rann það upp fyrir mér að hæstv. fjmrh. hafði lent í sömu ógöngum og Hjálmar tuddi forðum í sögunni um Mann og konu. Hjálmar tuddi álpaðist til þess að segja séra Sigvalda það sem hann vissi sannast í ákveðnu máli, en varð fyrir því að það hafði verið logið að honum og prestur fór hinar verstu hrakfarir vegna þeirra upplýsinga sem Hjálmar tuddi hafði fært honum. Þegar séra Sigvaldi tók svo tudda á beinið og skammaði hann, þá gaf Hjálmar tuddi þessa frægu yfirlýsingu: ,,Maður verður að lygara af því að trúa því, hyskinu hérna.`` Og þannig fór fyrir hæstv. ráðherra að hann álpaðist til þess, því miður, að láta semja fyrir sig ræðu sem hann las hér upp, bætti við nokkrum athugasemdum frá eigin brjósti til þeirra aðila sem hafa staðið hér að flutningi frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði því honum þótti efni hinnar sömdu ræðu heldur þurrt og sagði svo í lokin: ,,Ég hefði ekki þurft að flytja þessa ræðu. Það hefði verið nóg fyrir mig að koma með eina fyrirspurn.`` En ráðherrann lýsti því yfir í ræðu sinni að hann væri velviljaður fiskeldi.
    Nú verðum við að víkja að atvinnusögu Noregs um 1970. Á sama tíma og við vorum með útfærslu landhelginnar að stefna að meiri umsvifum í fiskveiðum stóðu þeir frammi fyrir því að þurfa að auka tekjur án þess að geta sótt til sjávarins í jafnauknum mæli og við. Og þeir fóru í það að gera fiskeldi að stóratvinnuvegi í Noregi.
    Það kom fram í máli ráðherrans að til þess að ná þessu fram voru veittir styrkir, stofnstyrkir. Það kom einnig fram í máli ráðherrans að það var beitt ríkisábyrgðum svo að þetta væri hægt. Ég held að ég muni það rétt að það var norski Verkamannaflokkurinn sem beitti þessum ríkisábyrgðum. Og það er athyglisvert að í gegnum söguna hafa það löngum verið jafnaðarmenn sem hafa beitt ríkisábyrgðunum til þess að tryggja það að atvinnuþróunin gæti haldið áfram og lífskjörin gætu batnað.
    Hér hefur verið sagt að þetta skipti engu máli. Það skipti engu máli hvernig innlendir aðilar hafi staðið að þessu. Það eina sem skipti máli sé langur listi örlagavalda eins og t.d. sú kenning að íslenski laxastofninn sé miklu lélegri en sá norski. Ég veit að Norðmenn hafa með sínum kynbótum náð þeim árangri að þeir eru komnir langt á undan okkur. En hinn villti norski laxastofn og hinn villti íslenski laxastofn höfðu ekki þann gæðamun að neitt sé hægt að leggja á borð sem bendi til þess að sá íslenski sé verri. Þegar laxeldið fór af stað hér á landi var staða Íslendinga sú að við gátum framleitt laxaseiðin á lægra verði heldur en Norðmenn. Og hvert voru þessi laxaseiði svo seld? Þau voru seld til Noregs. Og svo vel stóðu íslenskir framleiðendur sig að til þess að auðvelda norskum framleiðendum samkeppnina, þá bönnuðu Norðmenn Íslendingum að flytja seiðin til Noregs. Svo leyfir hæstv. fjmrh. sér að koma hér með ræðu sem annar hefur samið og halda því fram að það sé engin þekking til á Íslandi í laxeldi. Það er kokhraustur ráðherra sem þannig talar.
    Við höfum um 120 arkitekta í námi erlendis á íslenskum námslánum. Við höfum um 240 listamenn í námi erlendis á íslenskum námslánum. Hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp í þessu landi þegar þetta hámenntaða lið snýr nú heim og vill fá atvinnu, ef við höfum búið svo að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar að það sem helst var vaxtarbroddur verður drepið? Er íslenskur fjármálaráðherra að leggja það til að við stöðvum hagvöxtinn í þessu landi og minnkum þjóðartekjurnar í framtíðinni?
    Í fjárlagafrv. sem þessi sami hæstv. ráðherra flutti á Alþingi Íslendinga þar sem talað var um möguleika á auknum útflutningstekjum fyrir þessa þjóð, þá var aðeins horft á eina grein, þ.e. laxeldið. En núna erum við sem betur fer komnir mun lengra. Við erum byrjaðir að rækta fleiri fiskitegundir. En hvað með Norðmenn? Hafa þeir aðeins haldið sig við laxinn? Nei. Þeir hafa náð þeim árangri í sleppingum á þorski að þeir meta það svo að um 30% af þorskseiðum sem sleppt er skili sér aftur til þess svæðis sem þeim er sleppt frá. Hefur íslenska þjóðin efni á því sem matvælaframleiðsluþjóð að horfa á það að Noregur brunar áfram með ævintýralegum hraða til meiri og meiri hagsældar á þessu sviði en við virðumst vera að gefast upp?
    Þannig standa málin í dag að Byggðastofnun veitir afurðalán til fiskeldis. Ríkisbankarnir eru hættir. Framkvæmdasjóður veitir ekki lán. Þetta þýðir í fáum

orðum sagt að hjá sumum fiskeldisstöðvum á Íslandi eru menn hættir að gefa seiðunum. Það eru ekki til peningar til að halda áfram. Þá segir hæstv. ráðherra: Hvers vegna heldur Landsbankinn ekki áfram að lána? Það er nú einu sinni svo að Landsbankinn fær sinn arð af lánum aðeins í gegnum vexti. En íslenska ríkið, hvernig fær það sinn arð? Ef fyrirtækjunum vegnar vel, þá bera þau tekjuskatt. Hve mikið vill ríkið fá af gróðanum? Um 50%. En það eru nánast talin landráð að halda því fram að ríkið eigi að taka þátt í því að koma rekstrinum af stað. Og hvað skyldi nú vera með laun þeirra manna sem vinna við þessa atvinnugrein? Ætli ríkið vilji ekki fá sinn part af þeim? Íslenska ríkið halar inn með mörgum aðferðum þá fjármuni sem það er að ábyrgjast og þess vegna vissu þeir, Bjarni Ben, Ólafur Thors, Hermann Jónasson, Lúðvík Jósepsson og Gylfi Þ. Gíslason, að ríkisábyrgðirnar voru forsenda fyrir því að hægt væri að breyta íslensku samfélagi.
    Það er ömurleg staðreynd þegar svo er komið að einn af þeim mönnum, sem því miður á tímabili var af mörgum talinn fallinn frjálshyggjunni endanlega á vald, hv. þm. Friðrik Sophusson, hefur áttað sig á því að aðeins með ríkisábyrgðum er hægt að koma þessum málum áfram, þá hefur hæstv. fjmrh. komið sér hægra megin við hann á kantinum, er orðinn slíkur frjálshyggjupostuli að hann er logandi hræddur þegar talað er um að íslenska ríkið geti tekið þátt í atvinnusköpun í þessu landi. Og hefur þó flokkurinn haft það sem stefnuskráratriði, og mikið var ef hann hafði það ekki við seinustu alþingiskosningar, að ríkisrekstur ætti fullan rétt á sér. Það er ömurlegt þegar menn snúast svona gersamlega við og ruglast svona gersamlega í ríminu.
    Ég hélt satt best að segja að hann mundi fagna því alveg sérstaklega í ræðu sinni og benda á það á hvílíkum flótta frjálshyggjan væri þegar hann gæti sýnt fram á það að fyrrv. varaformaður Sjálfstfl. legði til ríkisábyrgðir. En hver er svo staðan? Hefur hæstv. fjmrh. staðið gegn ríkisábyrgðum í þessari ríkisstjórn? Nei. Það hefur enginn íslenskur fjmrh. gefið út meira af ríkisábyrgðum. Ríkisábyrgðirnar eru gefnar út í gegnum húsbréfakerfið, ca. 15 milljarðar á ári og hann fölnaði yfir 3 í ræðustólnum í gær. Hvað skyldi það vera mikið sem ríkisábyrgðirnar kæmust í gegnum húsbréfakerfið, ef það heldur áfram og við segjum að það sé lánað til 20 ára og afborgun sé jöfn? Þá þurfum við að margfalda með 10x15 til að fá út 150 milljarða
ríkisábyrgðir í húsnæði á Íslandi. Lögðu þeir þetta til gömlu mennirnir sem nú eru flestir gengnir og ég taldi upp áðan? Nei, þeir lögðu þetta ekki til. En þeir lögðu það til að það yrði barist fyrir því að atvinnulíf Íslendinga gæti borgað þau laun sem þyrfti til þess að menn gætu eignast þak yfir höfuðið.
    Ég verð að segja eins og er að þegar ég horfi á það að fiskeldið hefur verið svikið um endurgreiðslur á söluskatti þó að aðrir atvinnuvegir hafi fengið. Það var settur sérstakur lántökuskattur á erlendan gjaldeyri til þess að skattleggja það í upphafi. Þegar

laxaframleiðendur ætluðu að fara að selja lax til Bandaríkjanna og voru komnir með sína framleiðslu, hvað gerðist þá? Fengu þeir að selja sína vöru og senda hana með sama flutningsgjaldi og þeir sem voru að selja ýsu frá landinu með Flugleiðum? Það var nú öðru nær. Það þurfti að greiða hærra gjald fyrir að senda laxinn heldur en ýsuna. Og það hefur ekki enn fengist skilningur á því að það skiptir máli hvort 1 / 3 af framleiðslukostnaðinum fer í flutningskostnað til Ameríku eða ekki. Það er búið að halda flugvellinum gersamlega vanhæfum til þess að hægt sé að líta svo á að þar sé um eðlilega viðskiptahætti að ræða.
    Hvar hefur hæstv. fjmrh. staðið í því máli? Hvað hefur hann gert? Hæstv. fjmrh. talar um drauma og draumóra. Gott og vel. Eru það ekki mestu draumórarnir sem okkur getur dottið í hug núna ef við drepum niður allt það sem búið er að gera í laxaeldi á Íslandi og segjum: Nú tökum við upp tilraunastarfsemi í heimahúsum, í baðkarinu, í svona tíu ár. Er það tillagan sem er verið að leggja til? Er það tilraunastarfsemin í baðkerinu með seiði næstu tíu árin? Nei og aftur nei. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að í þessu máli er ekkert um annað að ræða en að duga eða drepast. Annaðhvort flytjum við þúsundir æskumanna úr landi vegna atvinnuleysis á næstu árum eða þeir koma ekki heim sem nú eru við nám erlendis eða við snúum okkur að því að efla undirstöðuatvinnuvegi þessarar þjóðar sem eru matvælaframleiðsla. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu.
    Það er nú einu sinni svo að þó að það vanti þó nokkuð á þekkinguna í laxeldi hér á landi, þá erum við í þeirri stöðu að eiga mikið af mönnum í dag sem kunna til verka, hafa lært þessi fræði, m.a. úti í Noregi og kunna þau jafn vel og starfsbræður þeirra þar. En hér á landi virðist sem hugleysið hafi svo náð tökum á mönnum að í stað þess að halda áfram og hafa sigur í málinu, þá ætli menn að sameinast um það að gefast upp. Þess vegna tel ég að það sé eðlileg krafa nú á Alþingi Íslendinga að það mál sem hér er lagt fram komi til atkvæðagreiðslu. Að láta ekki greiða atkvæði um það er fullkomið alvöruleysi vegna þess að það er ákvarðanataka um það að setja á höfuðið fleiri, fleiri stöðvar í landinu og það er ákvarðanataka um það að laxeldið fari út af borðinu sem atvinnugrein í landinu.