Fóstureyðingar
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Við skulum ímynda okkur fóstur í móðurkviði sem bíður þess að fá að fæðast. Við skulum ímynda okkur hvernig er umhorfs hjá fóstrinu í myrkrinu, þessu þægilega myrkri og þessu mikla öryggi sem ríkir á þeim stað þar sem líf fékk að kvikna, á að fá að dafna dálítið uns það fær loks að fæðast og taka þátt í lífkeðjunni hér á jörðinni sem gengið hefur frá ómunatíð. Við skulum ímynda okkur hvernig fóstrið liggur og við getum jafnvel ímyndað okkur að það sé að hugsa. Fóstrið hlakkar til að fá að fæðast, fá að leika sér við systkini sín, fá að liggja á gólfinu og vera með foreldrum sínum, fá að njóta þess yls sem er á hverju góðu heimili og stafar af öllu góðu fólki og við skulum ímynda okkur að fóstrið liggi og bíði og hlakki til.
    Það verður vart við hreyfingu og hugsar með sér: Jæja, nú er komið að þeirri langþráðu stund. Ég fæ að fæðast í faðm fjölskyldu minnar, fæ að taka þátt í því lífi sem mér er ætlað með því að vera getið. Fóstrið finnur fyrir hreyfingu, en sú hreyfing er því miður ekki aðgöngumiði að lífinu, heldur er komin að fóstrinu eins konar ryksuga sem sýgur smátt og smátt í burtu allan þann vökva sem umlykur fóstrið og við getum ímyndað okkur og þurfum í raun ekki að ímynda okkur því að það er til kvikmynd af því, sem hefur verið kvikmynduð með sónar hvernig fóstrið bregst við þegar ryksuga þessi kemur inn í móðurlífið. Og áfram heldur ryksugan, hún sýgur fyrst neðri hlutann af fóstrinu, sjálfan líkamann en höfðinu nær sugan ekki nema að fara með sérstaka töng til að mylja það mélinu smærra og sjúga það burtu úr móðurinni. Við getum alveg eins séð þetta fyrir okkur eins og hvað annað þegar rætt er um fóstureyðingar.
    Barnadauði er oft notaður sem mælikvarði á menntunar - og þroskastig þjóðar. Íslendingar eru farsælir að því leyti að barnadauði er mjög lágur á Íslandi og gefur vísbendingu um að hér líði fólkinu vel. En hver telur þau 700 börn sem aldrei fá að fæðast á hverju ári? Hvar koma þau fram í skýrslum og hvað sýnir sá barnadauði?
    Þegar fóstureyðingar ber á góma er oft rætt um réttindi en minna um skyldur. Þá er oft talað um að það sé réttur konunnar að ráða yfir eigin líkama. En við skulum aðeins velta því fyrir okkur hvað orðið fóstur þýðir. Er fóstur eitthvað sem er hluti af líkama konunnar? Er ekki einmitt talað um að taka hluti í fóstur þegar þeir eru gestkomandi frekar en hluti af þeirri heild sem talað er um? Hver er munurinn á getnu barni og fósturbarni? Jú, munurinn er sá að fósturbarnið er í fóstri, er í uppeldi, er í umsjá þess sem um ræðir. Fóstrið er heldur ekki fast í líkama konunnar, eins og kemur í ljós við fæðingu, heldur er það fast við fylgjuna. Fóstrið er því engan veginn hluti af líkama konunnar.
    Þegar spurningin um rétt eins eða annars yfir líkama sínum ber á góma, þá er rétt að hafa eitt hugfast. Við höfum ekki þann rétt yfir líkamanum sem við höldum. Þetta sannprófaði ég sjálfur með því að tala

við þrjá lækna og spyrja þá hvort þeir vildu taka af mér annan fótinn. Þeir voru nokkra stund að skilja hvað ég var að fara og lái ég þeim það ekki. Þegar kom í ljós að fóturinn var í eins góðu lagi og aðrir hlutar líkamans, þá neituðu þeir allir þrír og sögðu að það kæmi ekki til greina. Ég hef því ekki þann rétt að ráða yfir líkama mínum. Sá réttur endar. Ég hef ekki rétt á að ráðstafa mínum eigin líkama að geðþótta, a.m.k. ekki fyrir milligöngu læknavísindanna. Rétturinn kallar á skyldur.
    Þær konur sem hafa rétt til þess að ráðstafa líkama sínum hljóta um leið að horfast í augu við þær skyldur sem þær bera gagnvart líkama sínum. Fóstur kvikna almennt ekki af sjálfu sér. Fóstur koma við getnað og getnaður við samfarir. Hvar eru þá skyldur, ekki bara kvennanna heldur líka karlmannanna við þann forleik og þá atburðarás sem þarf til þess að leiða af sér fóstur? Hvar eru skyldurnar? Eru engar skyldur sem hvíla á þeim sem mynda fóstur í móðurkviði, eingöngu réttur?
    Við getum vel velt því fyrir okkur endalaust ef þessi 700 börn hefðu fengið að fæðast sem á ári hverju er eytt í móðurkviði, hvað hefði orðið úr þessum börnum? Hvað hefði orðið úr þeim? Hve margar dugandi mæður eru í þeim hópi? Hve margir nýtir borgarar? Og þetta þjóðfélag okkar er stjörnuþjóðfélag. Hve margar stjörnur má hugsa sér að við hefðum misst? Hve marga landsliðsmenn í hinum ýmsu íþróttagreinum? Hvað marga stórmeistara í skák? Hvað marga þingmenn? Hvað margar kvennalistakonur? Það er hægt að halda áfram endalaust á þessari braut. Eitt er víst, að fólkspýramídinn er að snúast við. Það fæðast ekki nógu margir Íslendingar á ári hverju til þess að halda þjóðfélaginu gangandi þegar til lengdar lætur. Þegar við erum komin á erfiðasta aldur og þurfum að treysta á að þjóðfélagið framfleyti okkur, þá má búast við að það verði ekki nógu margar vinnufúsar hendur til þess að greiða okkur ellilaunin. Við skulum hugsa um þann þátt ekki síður en aðra þjóðfélagslega hagkvæmni þess að fá að fæðast.
    Virðulegi forseti. Ég gæti sagt hér margt fleira. Ég gæti haldið áfram lengi því að þetta er mál sem alltaf hefur snortið mig djúpt einfaldlega vegna þess að ég hef alltaf spurt sjálfan mig og ég hvet alla þá sem velta fyrir sér fóstureyðingum að spyrja sjálfa sig: Hefðu viðkomandi fengið að fæðast ef fóstureyðingar hefðu verið jafnfrjálsar á þeim tíma og þær eru í dag? Virðulegi forseti. Þegar líf ber á góma á Alþingi, þá tel ég það fyrstu skyldu Alþingis að veðja á lífið frekar en dauðann.