Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er þessu ákveðna máli hreyft. Sá maður sem hér um ræðir, Ingi B. Ársælsson, hefur hvað eftir annað leitað til okkar þingmanna eftir stuðningi og nú síðast vakið athygli á máli sínu erlendis. Ég get ekki, og ég hugsa ekki nokkur hér á hv. Alþingi, sest í dómarasæti í þessu máli, hvort hér er um lögmæta aðgerð að ræða eða hvort gildar ástæður liggja fyrir því að þessum manni var vikið úr starfi á sínum tíma. Aðalatriðið er að Ingi B. Ársælsson er ekki sáttur við þessa aðgerð, ekki sáttur við þær ástæður sem upp voru gefnar á sínum tíma og ekki sáttur við það hvernig að öllu þessu máli hefur verið staðið og er staðið. Það eru því sjálfsögð mannréttindi hans að það verði orðið við þeirri beiðni að opinber rannsókn fari fram.