Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. beinir til mín fyrirspurn í þremur liðum á þskj. 580. Fyrsta spurningin er: ,,Hvaða ástæður lágu til þess að dómsmrn. hafði með bréfi til utanrrn. 6. sept. 1990 frumkvæði að því að óska eftir að sett yrði á fót svonefnd ,,skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál`` með aðild bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli (sbr. svar utanrrh. í Sþ. 31. jan. 1991)?``
    Ég verð að telja það nokkuð sterkt að orði kveðið að frumkvæði í þessu máli hafi komið frá dómsmrn. Upphaf þessa máls má trúlega rekja til viðræðufunda sem við hæstv. utanrrh. áttum þann 29. maí sl. Þar var m.a. rædd tillaga frá varnarmálaskrifstofu utanrrn. um skipun skipulagsnefndar um öryggis - og varnarmál. Tveimur dögum eftir þennan fund ritaði varnarmálaskrifstofa utanrrn. dómsmrn. bréf um þessi efni. Til þess að taka af tvímæli er rétt að lesa þetta bréf, sem er örstutt og dags. 31. maí 1990. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Utanrrn. leggur til við dómsmrn. að samstarf Almannavarna ríkisins, Landhelgisgæslu, lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og varnarmálaskrifstofu utanrrn. verði aukið til að tryggja markvissa áætlunargerð á sviði varnar - , öryggis - og almannavarnamála þar sem um skörun getur verið að ræða. Ljóst er að áætlanir og framkvæmd þeirra á þessu sviði þurfa að vera samræmdar svo sem kostur er, hlutverkaskipting ljós og úrlausn verkefna skilgreind þannig að ekki rekist á. Til að tryggja slíkt samræmi er lagt til að skipuð verði skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál. Í nefndinni eigi sæti ráðuneytisstjóri dómsmrn. ásamt fulltrúum almannavarnaráðs, forstjóra Landhelgisgæslunnar og lögreglustjórans í Reykjavík. Lagt er til að nefndin starfi undir formennsku varnarmálaskrifstofu utanrrn.``
    Bréf þetta var síðan ítrekað 7. ágúst 1990 og þá beðið um staðfestingu dómsmrn. ásamt tilnefningu fulltrúa þess í nefndina. Það var síðan gert af hálfu dómsmrn. með bréfi dags. 6. sept. 1990 sem getið er í fyrirspurn fyrirspyrjanda. Það er því augljóst að í því bréfi fólst ekki frumkvæði heldur einungis staðfesting á þegar gerðu samkomulagi sem að vísu alger eining ríkti um meðal þeirra sem að þessu samkomulagi stóðu.
    Önnur spurning hljóðaði svo: ,,Hvert á að mati dómsmrh. að vera verkefni þessarar nefndar?``
    Eins og fram kemur í bréfi varnarmálaskrifstofu utanrrn. tel ég að verkefnið eigi að vera að tryggja markvissa áætlunargerð á sviði varnar - , öryggis - og almannavarnamála þar sem um skörun getur verið að ræða.
    Þriðja spurningin: ,,Telur dómsmrh. eðlilegt að tengja starfsemi erlends herliðs við störf íslenskra stofnana, eins og stefnt virðist að með starfi þessarar nefndar?``
    Ég tel að samræming áætlana á sviði öryggis - og varnarmála og annarra neyðaráætlana sé ekki aðeins eðlilegt heldur nauðsynlegt starf. Samstarf varnarliðsins og íslenskra stofnana er þegar fyrir hendi og hefur verið raunar um langan tíma. Ég bendi sem dæmi á þá ómetanlegu aðstoð sem þyrlusveit varnarliðsins hefur veitt í neyðartilfellum. Hún hefur bjargað 238 mannslífum hér á landi frá árinu 1971, þar af 130 Íslendingum. Slík aðstoð stendur til boða ef neyðarástand skapast.
    Þá má minnast þeirrar aðstoðar sem Almannavarnir ríkisins nutu af hálfu Bandaríkjamanna þegar Vestmannaeyjagosið stóð yfir 1973. Það er því þjóðþrifamál að styðja samræmingu neyðaráætlana ef það má verða til þess að bjarga mannslífum eða forða eignatjóni.