Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. skýr svör. Í máli hans kemur fram að hæstv. utanrrh. hefur farið með staðlausa stafi úr þessum ræðustól varðandi tilurð þessarar nefndar um öryggis - og varnarmál. Það er þeim mun athyglisverðara þar sem hæstv. ráðherra hafði sjálfur að því frumkvæði að þvo hendur sínar af því að hafa átt frumkvæði að skipun nefndarinnar. Þetta er einn þátturinn af nokkrum sem sýna pukrið og vandræðaganginn hjá þessum hæstv. ráðherrum, alveg sérstaklega hjá hæstv. utanrrh., í sambandi við þetta mál. Það var upplýst af hæstv. utanrrh. að mál þetta hefði aldrei verið kynnt í ríkisstjórn Íslands, hefði ekki borið þar á góma og sjálfur vísar hæstv. utanrrh. á hæstv. dómsmrh. sem frumkvæðisaðila og hér kemur svo hæstv. dómsmrh. og þvær algerlega hendur sínar af því að hafa átt nokkurt frumkvæði að þessu máli.
    Það er alvarlegt mál, virðulegur forseti, þegar ráðherrar bera hér fram í fyrirspurnum á Alþingi röng svör og rangar staðhæfingar um mál sem ekki er minna en það sem hér er rætt. Málið er raunar miklu stærra en svo að hægt sé að fjalla um það efnislega hér í fyrirspurnatíma því að hér er um að ræða stefnubreytingu hjá íslenskum stjórnvöldum í sambandi við samstarf við herliðið í Keflavík og samþættingu athafna þess og íslenskra stofnana. Báðir hæstv. ráðherrar lýsa sig sammála slíku og svo langt gengur lágkúran að til þess að réttlæta þetta, þá er farið að vísa til björgunarstarfsemi. Hefur reyndar heyrst áður í sambandi við réttlætingu á dvöl erlends herliðs í landinu en ég vek alveg sérstaklega athygli á þeirri lágkúru að fara að réttlæta dvöl erlends herliðs í landinu með vísun til þess að það sé að gegna skyldum sem eru sjálfsagðar skyldur sjálfstæðs ríkis, að gæta að öryggi þegna sinna í sambandi við dagleg störf og daglegt líf.
    Ég minni á það, virðulegur forseti, að um upphaf þessa máls má lesa í bók eftir Albert Jónsson, framkvæmdastjóra öryggismálanefndar, um herstöðina í Keflavík, á bls. 93, þar sem fram kemur að upphafið er nú ekki í heilabúi hæstv. utanrrh. heldur í svokallaðri Defence planning Committee sem samdi og sendi frá sér skýrslu í desember 1988 og vakti sérstaklega athygli á þörfinni á að samþætta störf herliðsins á Íslandi við íslenskar stofnanir. Það er kallað, sem einn liður í störfum nefndarinnar sem þarna hefur verið sett á laggirnar, Hostnation support við stríðsaðgerðir á Íslandi. Hugmyndin um gistiþjóðina eða hostnation, ég eftirlæt hæstv. ráðherrum að þýða það á íslensku, er komin frá yfirstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel í sérstakri skýrslu.
    Ég hef ekki tíma til þess að víkja frekar að efnisþáttum þessa máls en það hlýtur að vekja sérstaka athygli, fyrir utan þær röngu upplýsingar sem hæstv. utanrrh. hefur borið hér fram um upphaf málsins, að farið er að efna til þessarar nefndarskipunar á sama tíma, virðulegur forseti, og verið er að semja um stríðslokin í Evrópu og búið er að undirrita sáttmála

þar að lútandi. Þá á að undirbúa aukningu hernaðarumsvifa og samþættingu herliðs og þjóðlífs á Íslandi.