Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á þessu máli. Á sama tíma og fólk horfir með bjartsýni til friðar í framtíðinni er verið af hálfu ríkisstjórnarinnar að festa bandaríska herliðið í sessi hér. Að vísu vilja hæstv. ráðherrar sverja af sér að þeir hafi verið frumkvöðlar að þessari nefndarskipan sem hér hefur verið til umræðu. Ég held að það væri nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að snúa sér að aðgerðum sem miða að því að bandaríski herinn hverfi héðan af landinu miðað við þær friðarhorfur sem væntanlegar eru í heiminum, sérstaklega eftir að Persaflóastríðinu er nú lokið.