Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Það má segja að það sé viss mótsögn í þessari fsp. sem hv. þm. ber hér fram. Ég vonast auðvitað til þess að sá tími komi að svo verði í heiminum að varnarliðið geti farið héðan. Ég sé nú ekki fram á þá þróun alveg á næstu árum. Ég held að það hljóti að vera, jafnvel þótt gott samkomulag náist á milli stórveldanna um afvopnun í heiminum, að nauðsynlegt verði talið að hafa eftirlitsstöðvar víðar í heiminum, jafnvel hugsanlega reknar af alþjóðlegum stofnunum, til þess að hafa eftirlit með því að þeir samningar sem gerðir eru standi.
    Um atvinnumál á Suðurnesjum er hægt að hafa langt mál en það er ekki tími til þess í svona stuttum athugasemdatíma sem ég hef hér. Ég vil þó vekja athygli á því að það er ýmislegt í gangi suður frá sem vekur nokkra bjartsýni hjá fólki. Það er mikið rætt um nýtingu Bláa lónsins. Það er mikil von bundin við þá uppbyggingu sem nú er að hefjast úti á Reykjanesi með saltverksmiðjunni. Það eru taldar góðar vonir til þess að Flugleiðir hefji framkvæmdir við þetta flugskýli sem getur skapað mikla vinnu hjá flugvirkjum og öðrum þeim sem nálægt slíkum verkum koma, að annast viðhald flugvéla. Og ýmislegt fleira í þessum dúr mætti hér upp telja en ég ætla ekki að gera það núna.
    Gallinn á störfum hjá varnarliðinu hefur undanfarin ár verið fyrst og fremst sá að það hefur verið pressa frá bandarískum þingmönnum að koma á sparnaði í þeim rekstri. Það hefur að sjálfsögðu valdið vissri spennu, sem hefur orðið við skiptingu á fjárlagaárinu, að það hefur verið bannað að ráða í störf sem hafa losnað meðan menn hafa beðið eftir nýjum fjárlögum. Ég legg hins vegar á það megináherslu í þessu sambandi að við þann samning verði staðið, sem gerður var 1974 af þáv. utanrrh. Einari Ágústssyni heitnum, að stefnt verði að því að Íslendingar taki yfir flest þau störf á vellinum sem kostur er og þess verði gætt, sem alltaf kemur upp umræða um öðru hverju og skal ég ekkert fullyrða um það hér og nú hvort á rétt á sér, að við takmörkun á ráðningu Íslendinga í störf verði ekki ráðnir Bandaríkjamenn til þeirra starfa sem Íslendingar hafa sinnt fram að þessu.