Lífeyristryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga var það ljóst að skv. áætlunum vantaði til lífeyristrygginga um 500 millj. kr. miðað við þær reglur sem þá giltu um greiðslu þessara tryggingabóta. Ellilífeyrir hefur farið vaxandi í útgjöldum ríkissjóðs á undanförnum árum í samræmi við fjölgun ellilífeyrisþega en Íslendingar eru svo lánsamir að fólk nær góðum aldri og heilsugæsla og heilbrigðisþjónusta hér á auðvitað sinn þátt í því.
    Engin svör fengust við afgreiðslu fjárlaga um það hvernig á þessu skyldi tekið. Hæstv. fjmrh. sem var þá spurður í umræðu hvort meiningin væri að skerða lífeyrisgreiðslurnar, hvort meiningin væri að fella niður greiðslur til einhverra hópa aldraðra eða hvort meiningin væri að greiða ellilífeyri einungis fyrstu mánuði ársins og skerða síðan. Við þessum spurningum fengust engin svör.
    Nú var því jafnframt haldið fram að fjárlög væru raunhæf og það þýddi væntanlega að ekki ætti að greiða meira en fjárlögin segja til um. Einhvers staðar hlýtur þá skerðing að koma niður.
    Vegna þessa hef ég á þskj. 607 spurt hæstv. heilbr. - og trmrh. um þetta mál vegna þess að nú hefur vitaskuld gefist tóm til þess að það væri athugað í ríkisstjórninni. Er fsp. mín svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin skerða tryggingargreiðslur til ellilífeyrisþega til samræmis við afgreiðslu fjárlaga þar sem talið var að 500 millj. kr. vantaði til þess að halda þeim hlutfallslega óbreyttum:
    a. með því að skerða mánaðarlegar greiðslur,
    b. með því að greiða ellilífeyri einungis í 11 mánuði á þessu ári?``