Lífeyristryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans. Hann greindi fyrst frá því, sem okkur var nú báðum ljóst, að fyrirætlanir voru kynntar um það í fjárlagafrv. að breyta almannatryggingalöggjöfinni þannig að tekjutengja, eins og það er kallað, ellilífeyri, þ.e. skerða þann ellilífeyri sem greiddur væri ellilífeyrisþegum sem hafa tekjur yfir eitthvert tiltekið hámark. Þetta hefur ekki verið gert. Þó að það hafi verið kynnt í þingflokkum stjórnarliðsins, eins og hv. ráðherra veit ábyggilega um, þá hefur ekkert frv. verið flutt. Á þessu þingi og þessu ári er því þessi leið til sparnaðar í þessum málaflokki úr sögunni.
    Þá segir hann að líkur bendi til þess að lífeyrisgreiðslur verði ekki eins miklar og áætlað var þegar fjárlög voru til meðferðar hér á Alþingi. Þetta eru auðvitað nýjar fréttir og er allt vel um það.
En meginniðurstaða hæstv. ráðherra var sú að ef vantar á þennan lið, þá verði að afla fjárheimilda á fjáraukalögum í haust. Það er auðvitað í samræmi við það sem stundum hefur áður gerst, en þá kemur vitaskuld fram að sú tala sem áætluð er í fjárlögum er ekki raunhæf. Hæstv. ráðherra segir að sér sé ekki ljóst hvernig sú tala er fengin sem hér er nefnd, 500 millj. kr. Sú tala er fengin samkvæmt áætlunum Tryggingastofnunar ríkisins og áætlunum Ríkisendurskoðunar sem lögðu sínar áætlanir fyrir fjvn. fyrir afgreiðslu fjárlaga. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um það hvaðan sú tala er fengin.
    Ég vek athygli á þessu máli vegna þess að því hefur verið mjög staðfastlega haldið fram að þau fjárlög sem Alþingi hefur afgreitt og eru í gildi fyrir þetta ár muni standast, en áætlanir segja til um annað, til að mynda varðandi þennan fjárlagalið. Komi hins vegar í ljós að greiðsluþörfin sé minni eða sparnaður náist sem ekki var gert ráð fyrir, þá er út af fyrir sig allt vel um það að svo miklu leyti sem það kemur ekki niður á eðlilegum greiðslum til ellilífeyrisþega sem sannarlega í mörgum tilvikum mega ekki við því að þeirra hlutur sé skertur.