Lífeyristryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt í viðbót. Ég skal ekki rengja það og dettur reyndar ekki í hug að þær tölur sem hv. fyrirspyrjandi setur fram í fyrirspurn sinni um 500 millj. kr. hafi komið fram á einhverju stigi í umfjöllun fjvn. um fjárlagafrv. þó svo ég kannist ekki við að sú tala hafi verið kynnt fyrir okkur í heilbrrn. Hvergi er rætt um slíka fjárvöntun í greinargerð fjárlagafrv. sjálfs. Það sem mér var gert að stefna að, og það hafði ég gefið fyrirheit um, var að ná þessum sparnaði vegna breytinga á almannatryggingalöggjöfinni. Ég hef ítrekað í vetur reynt að ná því fram að þetta frv. mætti koma fyrir þingið og hljóta afgreiðslu. En eins og hv. þm. benti á er nú ljóst í dag að það verður ekki. Ég hef hins vegar reynt að gera það sem ég hef getað í því sambandi og hef lagt mig fram um það.
    Ég vildi síðan í svari mínu reyna að leiða rök að því að það væri ekki í augnablikinu útlit fyrir það að verulegt fé vantaði vegna útgjalda lífeyristrygginga, við sæjum það ekki eins og er og höfum þegar reynslu af tveggja mánaða útgjöldum og það er nú ekki líklegt að miklar sveiflur verði utan það að lífeyrisþegum fer þó fjölgandi eins og fyrirspyrjandi greindi frá hér í upphafi síns máls. Auðvitað geta allir staðfest það sem þekkja þessi mál. Þess vegna eru ekki líkur á að umframútgjöld verði teljandi. Því sýnist mér ljóst að fjárlög eigi að geta staðið nokkurn veginn hvað þennan útgjaldalið varðar. Reynslan hefur sagt okkur hv. þm. þessum tveimur sem hér hafa talað eftir allnokkuð langa setu í fjvn. að það hefur oftar en ekki, líklega oftast, þurft að taka á málum með aukafjárveitingum. Nú hefur hins vegar sá ágæti siður verið tekinn upp að gera það með fjáraukalögum ef þörf hefur verið á að bæta fjárveitingum við einstaka útgjaldamálaflokka. Þá hafa menn líka betri yfirsýn yfir það, geta betur fylgst með því sem er að gerast, forsendum fyrir þeirri þróun og Alþingi sjálft fjallar þá á þann hátt um málið.