Lækkun raunvaxta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 667 að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um lækkun raunvaxta. Fsp. er í þrem liðum:
 ,,1. Hvers vegna hefur Seðlabankinn ekki framfylgt lagaákvæðum um að raunvextir séu svipaðir og í helstu viðskiptalöndum okkar?
    2. Hvernig hyggst bankinn tryggja að raunvextir verði lækkaðir?
    3. Þegar verðtrygging var tekin upp var talað um 2% raunvexti sem eðlilega vexti. Hverjir eru þeir í dag?``
    Samkvæmt 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands ber bankanum að sjá um að raunvextir hérlendis séu sambærilegir við þá sem gilda í helstu viðskiptalöndum okkar. Hér er um hreina og beina lagaskyldu bankans að ræða. Samkvæmt upplýsingum eru þeir talsvert hærri hérlendis en í helstu viðskiptalöndum okkar um þessar mundir. Rétt er að undirstrika að þegar Ólafslög voru samþykkt voru raunvextir taldir eðlilegir í námunda við 2% og þá var rætt um að yrðu þeir 4% væri það okur.
    Miklar skeytasendingar hafa farið fram í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum milli ríkisstjórnar og Seðlabankans þar sem þessir aðilar lýsa hvorn annan sem sökudólg í vaxtabrjálæðinu. Eitt nýjasta skeyti Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar má finna í forustugrein eftir formann bankastjórnar Seðlabankans, Jóhannes Nordal, sem birtist í síðasta hefti Fjármálatíðinda. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við núverandi aðstæður virðist einkum tvennt geta stuðlað að lækkun raunvaxta. Annars vegar þarf að draga úr hinni miklu lánsfjáreftirspurn á vegum ríkisins sem stafar bæði af beinum halla í ríkisbúskapnum og ríkisreknum lánakerfum, einkum á sviði húsnæðismála. Hins vegar er varanleg lækkun raunvaxta mjög háð því að það takist að efla trú manna á minnkandi verðbólgu og aukinn stöðugleika í efnahagsmálum.`` Öll eru þessi orð vafalaust sönn og rétt, en eftir stendur: Er Seðlabankinn stikkfrí? Er ekki skýlaus skylda hans lögum samkvæmt að lækka raunvextina? Varla álítur hann sig hafinn yfir landslög, eða hvað? Ég leyfi mér að ítreka: Hvers vegna hefur Seðlabankinn ekki framfylgt landslögum?