Vestnorrænt ár 1992
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Það má kannski draga niðurstöður þessara umræðna saman á þann hátt að hvað varðar undirbúning að þeim ráðstefnum sem lýst er í tillögum Vestnorræna þingmannaráðsins, þá er hafinn undirbúningur að því að halda umhverfisráðstefnu á Grænlandi og efla samstarf vestnorrænu ríkjanna á sviði umhverfismála og sömuleiðis ýmissa annarra mála. Hins vegar er undirbúningur að því að halda vestnorrænt ár 1992 skammt á veg kominn. Þar má e.t.v. kenna um að viðbrögð hjá hinum þjóðríkjunum, þ.e. Grænlendingum og Færeyingum, hafa verið ákaflega dauf gagnvart þessari hugmynd. Það má e.t.v. rekja til þess að þar hafa verið langvarandi stjórnarkreppur og það er fyrst núna fyrir örfáum vikum að komin er fullgild stjórn á í Færeyjum en væntanlega sjáum við ekki fullgilda heimastjórn á Grænlandi fyrr en kannski eftir nokkrar vikur. En að því loknu væri hægt að hefjast handa og hefja undirbúning að þessu verkefni af fullum krafti.