Rannsóknir á sjóslysum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að taka það fram að oft hef ég heyrt hæstv. samgrh. mæla af meiri reisn fyrir málum sem varða ráðuneyti hans en að þessu sinni. Ég ætla að lesa hér niðurlag formála skýrslunnar fyrir 1987 sem Haraldur Blöndal, formaður nefndarinnar, ritar. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við útgáfu þessarar skýrslu var leitað til ýmissa fyrirtækja, félaga og stofnana og óskað fjárstuðnings. Var þetta gert í samráði við samgrh. sem féllst á erindið. Ástæða þess að þetta var gert er sú að skýrslunni hefur verið dreift ókeypis og vilja menn halda því áfram. Útgáfan er hins vegar kostnaðarsöm og kostar hver skýrsla nokkur hundruð þúsund krónur. Fjárveitingar hafa verið takmarkaðar, enda fjárhagur ríkisins þröngur og töldu menn eðlilegt að létta aðeins byrðarnar. Verði fé afgangs verður því varið til frekari útgáfustarfsemi,`` og lýkur þar tilvitnun.
    Ja, mikil eru ósköpin ef ekki er hægt að afla árlega nokkur hundruð þúsunda króna til þess að gefa út skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa á Íslandi. Fljótlega mætti finna þessa peninga með því að draga ögn úr auglýsingakostnaði íslenska ríkisins, t.d. sem hvetja menn til að kaupa ríkisskuldabréf og annað þess háttar. Ég trúi því satt að segja ekki að það sé ekki hægt að gefa út skýrslu nefndarinnar vegna fjárskorts. Það er skýring sem ég sætti mig ekki við. Það gleður mig hins vegar að nefndin skuli hafa lokið störfum varðandi árið 1988 og ég vænti þess að unnið verði að rannsóknum ársins 1989 eins fljótt og unnt er.
    En það segir kannski dálítið um virðingu okkar fyrir því fólki sem starfar við undirstöðuatvinnugrein Íslendinga að illar tungur segja að falli gámur út af flutningaskipi og hverfi í hafið standi rannsókn málsins oftar mun lengur en þó að sjómaður falli fyrir borð.