Rannsóknir á sjóslysum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við mitt fyrra svar að bæta öðru en því að ég held að ég geti lofað hv. fyrirspyrjanda því að skýrsla fyrir árið 1988 mun koma út innan skamms. En því miður eru þær kostnaðartölur sem voru nefndar aðrar en þær sem ég hef heyrt á núgildandi verðlagi fyrir útgáfukostnað skýrslunnar í því umfangi sem nefndin telur æskilegast að birta hana. Og er ég ærið hræddur um að að sé þá frekar mælt í milljónum en hundruðum þúsunda, enda hér um fjögurra ára tölur á margra ára gömlu verðlagi að ræða.
    Um önnur atriði sem að starfi nefndarinnar lúta held ég að þessi nefnd, sem og allir aðrir aðilar hvort sem heldur er í sjóprófum á vegum Siglingamálastofnunar eða annars staðar, sem að þessum málum koma, vinni sín störf af samviskusemi og eftir bestu getu. En það er alveg ljóst að það var lengi og er að sumu leyti enn til skammar hversu litla rækt við höfum lagt við að byggja upp starf á þessu sviði og að leggja því nægilega fjármuni. Ég hlýt að leyfa mér að segja, hafandi skýran samanburð, að fram á síðustu ár hefur ekki verið búið eins vel né unnið að mörgu leyti eins markvisst og skipulega að rannsóknum t.d. á sjóslysum eins og um árabil hefur verið með flugslys.
Ég hef skýran samanburð því á mitt borð koma reglulega allar skýrslur flugslysanefndar, berast tiltölulega skjótt eftir að slys verða, ítarlegar og vel unnar. Ég held að það sé mikilvægt að búa þannig að rannsóknarnefnd sjóslysa og öðrum aðilum sem hér eiga hlut að máli að þeir geti smátt og smátt komið þessum málum í betra og í raun og veru fullkomið lag því ekkert annað er sæmandi fyrir okkur sem sjómannaþjóð.