Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu mátti nýlega lesa stóra fyrirsögn um að nú sé svo komið að þriðjungur kaupskipa Íslendinga sigli undir erlendum fánum. Bæði er hér um að ræða að við kaup á skipunum hafa þau ekki verið skráð hér heima og hins vegar að heimahöfn hefur verið flutt héðan. Það er fyrst og fremst til að standast samkeppni við erlendar útgerðir að menn telja sig knúna til að skrá skipin ytra. Vitaskuld er þar verið að líta á arðsemi þar sem skip sem skráð eru annars staðar en á Íslandi, og hið sama er að segja um skip á Norðurlöndunum, geta einfaldlega beitt öðrum reglum varðandi áhafnir, fyrir utan hafnagjöld og annað slíkt, en kostur er á hér heima. Einhvern tímann hefði ekki þótt mikil reisn yfir óskabarni þjóðarinnar, Eimskipafélagi Íslands, hefði menn grunað að skipin sigldu síðan undir erlendum fánum með erlendar áhafnir, mestan part áhafnir sem eru af þeirri gerð að hægt er að bjóða þeim hvað sem er, engin starfsréttindi, lág laun og annað slíkt. Þetta hefur viðgengist um langt skeið meðal erlendra þjóða en er tiltölulega nýtt fyrirbæri í okkar landi.
    Á vettvangi Norðurlandaráðs kom ég nokkrum sinnum á framfæri fyrirspurnum í samgöngunefnd ráðsins varðandi þessa þægindafána, eins og það heitir víst á íslensku, sem menn láta skip sína sigla undir. Var lítil svör að fá önnur en þau að hér væri arðsemin alls ráðandi og e.t.v. á þessi tilhögun mála einhvern hlut í því að Eimskipafélag Íslands skilar á þriðja hundrað milljóna gróða á sl. ári. Það ber vissulega að fagna því en það mætti velta fyrir sér á hvers kostnað það er.
    Það er vitað um þó nokkur dæmi um svokallaða útflöggun, þ.e. þegar heimahafnir skipanna eru beinlínis fluttar til útlanda. Þetta á t.d. við um tvö skip Eimskipafélagsins, Írafoss og Goðafoss, sem nú heitir Atlantic Frost, og kæmi nú kannski við viðkvæmar hjartataugar þeirra góðu manna sem lögðu margir hverjir sinn síðasta sparieyri til þess að Eimskipafélag Íslands mætti stofna.
    Hæstv. forseti. Tími minn er búinn í bili og ég skal lúta því. En ég hygg að hæstv. samgrh. viti nákvæmlega um hvað ég er að spyrja. Það er sum sé, eins og segir á þskj. 747. Ég skal taka eins lítinn tíma og hægt er, frú forseti:
 ,,1. Hve mörg íslensk kaupskip sigla nú undir erlendum fánum?
    2. Hversu mörg íslensk kaupskip eiga heimahöfn erlendis?
    3. Hve margir af áhöfnum þessara skipa eru erlendir menn?
    4. Hvaða reglur gilda um starfsréttindi hinna erlendu skipverja?``