Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi hreyfir hér stóru máli og spyr í nokkrum liðum um málefni íslenskrar kaupskipaútgerðar og skráningu skipanna innan lands og erlendis. Ég mun reyna að svara eins greiðlega og ég get á þeim stutta tíma sem til þess er ætlaður.
    Svo er að eigi að svara fyrstu spurningunni bókstaflega, þ.e. hve mörg íslensk kaupskip sigla nú undir erlendum fána, ætti svarið í raun og veru að vera: ekkert. Ósköp einfaldlega vegna þess að samkvæmt íslenskum lögum, fyrst og fremst 1. gr. laga um skráningu skipa, laga nr. 115/1985, þá stangast slíkt á við þá löggjöf. Við hljótum því að svara því þannig bókstaflega séð að ekkert íslenskt kaupskip siglir undir erlendum fána.
    Hins vegar er verið að spyrja, um það velkist ég ekki í neinum vafa, um skráningarríki, samsetningu og eignarhald á kaupskipaflotanum íslenska. Til hægðarauka sleppi ég þá í svarinu ferjum, flóabátum, dýpkunarskipum og öðrum slíkum en held mig við skip í eigu eða á vegum íslensku kaupskipaútgerðanna. Þá er svarið svohljóðandi: Íslensk skip í eigu íslensku útgerðanna eru 19. Erlend skip í beinni eigu íslensku útgerðanna eru 3. Erlend skip í eigu erlendra dótturfyrirtækja íslensku útgerðanna eru 12. Erlend skip í þurrleigu hjá íslensku útgerðunum eru 2. Erlend skip í tímaleigu hjá íslensku útgerðunum eru 5. Samtals eru þetta í íslenska kaupskipaflotanum 41 skip.
    Síðan er í öðru lagi spurt: Hve mörg íslensk kaupskip eiga heimahöfn erlendis? Á sama hátt og áður verður þessari spurningu ekki svarað öðruvísi bókstaflega en að ekkert íslenskt kaupskip að sjálfsögðu á heimahöfn erlendis því slíkt mundi þá stangast á við 5. gr. nefndra laga nr. 115/1985 og reyndar 1. gr. einnig. Hins vegar er þjóðerni þeirra erlendu skipa sem ég fjallaði um í fyrri spurningunni eftirfarandi: Erlend skip í beinni eða óbeinni eigu útgerðanna eru 3 skráð í Noregi, 5 skráð á Kýpur, 4 skráð á Antigua, 2 skráð í Panama og 1 skráð í Hollandi. En þurrleigu - og tímaleiguskip á vegum íslensku útgerðanna eru: 1 skráð í Færeyjum, 1 skráð í Danmörku, 1 skráð í Noregi, 2 skráð í Þýskalandi, 1 skráð á Antigua og 1 á Kýpur.
    Í þriðja lagi er spurt: Hve margir af áhöfnum þessara skipa eru erlendir menn? Með sama hætti og ég fjallaði um spurningu 1 og 2 skiptast störf á þessum skipaflota á vegum íslensku útgerðanna, skráðum innan lands eða erlendis þannig: Á íslensku kaupskipunum sjálfum, sem skráð eru hér heima, eru 224 íslenskir farmenn. Á erlendu skipunum í beinni eða óbeinni eigu íslensku útgerðanna eru 93 Íslendingar og 70 útlendingar. Á þurr- og tímaleiguskipunum á vegum íslensku kaupskipaútgerðanna eru 26 Íslendingar og 50 útlendingar. Samtals eru þetta 343 íslenskir farmenn og 120 erlendir. Rétt er að taka fram að þessar tölur miða við stöðugildi. Ef við miðum því við venjulegar frítökur, eða orlof starfsmanna, þá verða auðvitað starfsmenn mun fleiri en stöðugildin og mun

láta nærri að þetta séu 515 íslenskir farmenn og u.þ.b. 160 útlendingar sem eru á kaupskipaflotanum í eigu eða í langtímaleigu hjá íslensku kaupskipaútgerðunum.
    Síðan er spurt í fjórða lagi: Hvaða reglur gilda um starfsréttindi hinna erlendu skipverja? Því er til að svara að starfsréttindi og starfsskyldur erlendra farmanna á fyrrnefndum erlendum kaupskipum eru alfarið samkvæmt lögum viðkomandi skráningarríkja og kjarasamningum þar sem þeir eiga við. Þótt starfsskyldur séu nokkuð hliðstæðar hjá öllum umræddum skráningarríkjum, sem ég nefndi áðan, eru kaup og kjör mjög mismunandi í ljósi þess að um átta mismunandi skrásetningarríki er að ræða, allt frá Noregi og Danmörku o.s.frv., sem eru auðvitað mjög hliðstæð okkur í þessum efnum, yfir til Panama og Antigua. Farmenn frá þriðja heiminum og Austur - Evrópu í fyrrnefndum hópi erlendra farmanna búa undantekningarlítið við kjarasamninga sem eru í öllu hliðstæðir við kjarasamninga sem útgerðarsambönd og stéttarfélög farmanna í Danmörku og Noregi hafa sameiginlega gert við stéttarfélög í heimalöndum þeirra.
    Að lokum er rétt að taka fram að í samgrn., hjá Siglingamálastofnun og í viðræðum við hagsmunaaðila hafa verið að undanförnu og á sl. ári ítarlega ræddir möguleikarnir á því að taka upp einhvers konar form alþjóðlegrar skráningar hér á Íslandi þar sem okkur er vel ljóst í hvað stefnir. Hér er á ferðinni þróun sem tæpast verður snúið við nema við gerum það fýsilegt með einhverjum þeim hætti sem dugar fyrir íslensku skipafélögin að ekki bara eiga heldur líka skrá allan sinn flota hér heima. Þar höfum við helst litið til einhvers konar alþjóðlegrar skráningar af því tagi sem frændur vorir Danir hafa notað um árabil með ágætum árangri. Ég leyfi mér að segja að í ljósi þeirrar þróunar sem nú er að verða á allra síðustu mánuðum í þessum efnum, sem er ný og hröð, séu íslenskir farmenn jafnframt að verða sammála okkur um að þarna verði að grípa í taumana. Við höfum hins vegar farið okkur hægt í þessum efnum vegna þess að þróunin fór lengi vel rólega hér en nú er greinilega hraðinn að breytast í því sambandi.